29.04.2007 14:31

Hljómborðið sem dó...


368. Enginn veit sína ævina, allt er forgengilegt eða ekkert varir að eilífu. Eitthvað af þessu gæti átt við um hljómborðið sem hefur fylgt mér á ótal ferðalögum síðustu árin, jafnt stuttum sem löngum, óvæntum sleazy-uppákomum sem vel undirbúnum og dönnuðum mannamótum, ýmist þar sem allir eru í svart/hvítu eða gallbuxum og lopapeysu. Getur verið að hægt sé að tengjast tilfinningaböndum fjöldaframleiddum svörtum og ílöngum kassa, fullum af tæknidóti sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Ég bara veit ekki.



Solton MS-60

Ég keypti Solton MS-60 af vini mínum Birgi J. Birgissyni fyrir nokkrum árum, og kaupverðið var hundarðþúsundkall. Þá hafði hann átt gripinn í nokkur ár og notað hann mikið, því hann hefur verið síspilandi síðan ég kynntist þessum ágæta dreng. Hann sagði mér að þetta hljómborð hefði líklega ferðast meira en allt annað hljóðfærakyns sem hann þekkti til. USA, Spánn, Frakkland, Luxemburg, Danmörk, Svíþjóð, Færeyjar og margt fleira sem ekki kæmi upp í hugann í augnablikinu. Auk þess hefur það farið marga hringi í kring um skerið okkar og staldrað við á flestum stærri þéttbýliskjörnum og mörgum hinna minni. En Birgir hefur sjálfur ekkert slegið af þessi 17 ár sem við höfum þekkst. Hann hefur spilað með Sálinni, Upplyftingu, Þúsund andlit, 8-villt auk óteljandi tríóa og dúóa ásamt því að hafa lengst af rekið hljóðver og staðið fyrir útgáfu á tónlist.

Fyrir nokkru fór tónninn að verða svolítið óhreinn í gömlu græjunni, rétt eins og einhver snúra næði ekki nægilega góðu sambandi eða eitthvað í þá áttina. Þetta var mjög lítið í fyrstu og allt að því illgreinanlegt, en suðið eða surgið færðist smátt og smátt í aukana. Svo fór að við svo búið varð auðvitað ekki unað, og ég fór með Solton MS60 á verkstæði. Reikningurinn var sautjánþúsundkall, en nokkrum helgum síðar fannst mér ég heyra þetta aukahljóð aftur og þá bankaði ég létt ofan á gripinn og það hvarf. Enn leið tíminn og surgið kom aftur og var nú greinilegra en nokkru sinni fyrr. En þess utan þurfti ég að kveikja og slökkva nokkrum sinnum til að fá allt til að virka, því hið skelfilega orð "error" átti það orðið til að birtast á skjánum í upphafi leiks. Það er vart hægt að lýsa því með orðum hvernig sú tilfinning virkar á spilarann þegar kveikt er á græjunum og salurinn er að fyllast af fólki sem vill fá að heyra hvað karlarnir á pallinum kunna og það strax. Hjartað slær örar og sleppir jafnvel eins og einu slagi úr, andlitið hitnar, litlar svitaperlur myndast á enninu og það er engu líkara en nýbúið sé að taka inn eitthvað mjög svo hægðalosandi. Það var því farið öðru sinni með borðið á verkstæði. Reikningurinn var fimmtánþúsunkall og þar virkaði aftur. Nú hlyti þetta að verða í lagi, en skömmu síðar var útséð um að sá draumur rættist. Surgið kom aftur, ég þurfti að kveikja og slökkva til skiptis mun oftar en áður til þess að "error-meldingin" hyrfi af skjánum og það kom nokkrum sinnum fyrir að í miðju lagi fraus einhver nótan þannig að hún hljómaði endalaust. Einnig fannst mér eins og hljómurinn væri allur að verða einhvern vegin horaðri eða þynnri. Ég hafði sett mér það sem markmið að láta þetta ágæta hljómborð duga mér meðan ég dugaði sjálfur, því óvíst er hversu miklu lengur karlar á mínum aldri eiga eftir að verða gjaldgengir í bransanum. En þar sem nokkur eftirspurn er enn fyrir hendi, var ég að þessu sinni óvenju sáttur við að játa mig sigraðan og fór að leita að arftakanum.


Tyrus-1

Ég nefndi þetta ólán við vin minn Birgi, en hann sagðist nú aldeilis kunna lausnina á vandræðum mínum.
"Ég var einmitt að fjárfesta í nýju hljómborði og þarf að selja gamla eins og síðast. Það er ekkert mjög mikið notað og þú færð það á fínu verði plús "námskeið" í kaupbæti." Kaupverðið var aftur hundraðþúsundkall og á fimmtudegi heimsótti ég hann og sat með honum yfir hljómborðinu í þrjá tíma samfleytt og braut heilann eins mikið og ég taldi hann þola. Hann fór yfir allt það sem ég varð að kunna til að geta byrjað að nota það af einhverju viti, því ég átti að spila á Gullöldinni kvöldið eftir.
"Allt hitt lærirðu bara svona smátt og smátt af reynslunni og sjálfum þér," bætti hann við og ég borgaði og fór heim með Tyrus-1.

Síðan hef ég notað Tyrusinn og er farinn að mynda ný tilfinningatengsl.



Birgir Jóhann Birgirsson í Hljóðverinu sínu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 359
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316791
Samtals gestir: 34563
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 18:13:04
clockhere

Tenglar

Eldra efni