11.05.2007 01:48

Úlfarsfell, Vífilfell og fleira skemmtilegt.
372. Ég er á Skoda Oktaviu þessa dagana frá Réttingarverkstæði Jóa (Jóa Valda og Ernu Rósmundar) og kann því mjög vel. Eiginlega langar mig sáralítið að skila þessum öndvegisbíl og Jói má mín vegna alveg taka sér tíma í að laga beygluna á Micrunni eftir jeppann sem rakst utan í mig á dögunum. En síðastliðinn þriðjudag átti ég erindi við byggingarfulltrúann í Mosfellsbæ og heimsótti hann í morgunsárið á Skódanum. En í bakaleiðinni gaut ég augunum á Úlfarsfellið eins og svo margsinnis áður, því mig hefur alltaf langað til að komast á topp þess og sjá hvernig borgarlandið lítur út þaðan. Ég leit á klukkuna og sá að hún var aðeins rúmlega 10 og nægur tími til að slóra svolítið. Ég beygði upp með hlíðum fellsins austanmegin og ók svolítinn spöl meðfram því áður en ég lagði bílnum. Svo rölti ég af stað í sólskininu.Til marks um hve ferðin sóttist vel settist ég aldrei niður til að kasta mæðinni og stoppaði reyndar ekki fyrr en ég var kominn fram á brúnina sem snéri að Reykjavík. En auðvitað var skýringin sú að þetta var stutt og þægilegt rölt sem átti fátt skylt við það sem yfirleitt er kölluð fjallganga. Enda getur hæðarmunurinn á því sem skilgreint er annars vegar sem fell og hins vegar sem fjall verið talsverður, því mig minnir að miðað sé við 200 metra hæðarlínu eða er það ekki annars?
Ég var ekki svikinn af útsýninu þegar upp var komið. Höfuðborgarsvæðið var yfir að líta eins og landakort.Húsin í bænum.......og sundin blá.Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í þessa áttina.
Og  Mosfellsbær í hina.Eftir að hafa staldrað við um stund var haldið til baka.
Ég gekk meðfram brúninni austanmegin. Fyrir neðan mig var klettabeltið sem sést á næstefstu myndinni.
Og ég var annað slagið að kíkja ofurlítið fram af.Húsin fyrir neðan voru eins og lítil leikfangahús.Og mannfólkið eins og maurar.Mig svimaði stundum pínulítið, en að lokum var ég kominn niður á jafnsléttu á ný.Það var komið fram yfir hádegi og næst var að halda áfram með hina fyrirhuguðu dagskrá sem var reyndar ekki ýkja löng fyrir þennan dag.Eftir svolitlar útréttingar heimsótti ég Gísla Viðar sem er frá Ólafsfirði, í húsið á horni Snorrabrautar og Hverfisgötu þar sem hann rekur hársnyrtistofuna Hárlínuna . Við Gísli höfum setið undanfarið á nokkrum verulega líflegum húsfundum undanfarið, en ég leigi "Tattoo og Skart" húsnæði í þessu sama húsi og er því málið skylt. Gísli hafði boðið upp á skipti á klippingu og eintaki að "Svona var á Sigló" og þáði ég það ágæta tilboð með þökkum, enda kominn tími á með rúningu. Þess er rétt að geta að hann sem er margfaldur Íslandsmeistari í hárskurði, er giftur Guðný Viðarsdóttir (dóttir Kollu Eggerts) frá Siglufirði. Og á meðan toppstykkið var snyrt ræddum við að sjálfsögðu um veðrið, þjóðina í landinu, störf stjórnar húsfélagsins, Gautana á sjöunda áratug síðustu aldar, Héðinsfjarðargöngin, böllin á Ketilási í eina tíð og Fjallabyggð eftir sameiningu svo fátt eitt sé nefnt. En þegar ég var á leiðinni út af Hárlínunni hitti ég hinn eina og sanna Gunnar Þórðarson stórgítarleikara og lagasmið í dyrunum. Og þar sem ég hef ekki hitt Gunnar síðan ég afgreiddi hann síðast á Laugarásvideó þar sem hann var mikill og góður viðskiptavinur, þurfti að sjálfsögðu að taka stutta og snarpa, en létta popp og rokkblandaða umræðu þarna á gólfinu. En nú var kominn tími á matarinnkaupin á heimleiðinni og svo stóð til að fá nýja auðkennislykilinn til að opna mér leiðir inn í bæði nýjar og eldri víddir netbankans. Rosalega er annars langt síðan ég hef komið inn í alvöru banka með útibússtjóra, gjaldkerum, þjónustufulltrúum og svoleiðis.Sjónvarpsgláp kvöldsins hófst með fréttum sem þróaðist síðan í letilegt "dott." Ég kinkaði nokkrum sinnum kolli með hálflokuð augu, en reisti höfuðið jafnharðan upp aftur með eins og einhver hefði gert mér billt við og leit svolítið flóttalega í kring um mig. Tíminn leið og ég kom smátt og smátt til vitundar á ný en þá var hringt.
"Magnús Guðbrandsson heiti ég," sagði röddin í símanum. Ég glaðvaknaði og hváði.
En þetta var tilfellið. Maggi Guðbrands minn ágæti spilafélagi frá því á árunum um og fyrir 1980 var á línunni, og skömmu síðar var ég lagður af stað í heimsókn út á Álftanesið. Þar tók hann á móti mér ásamt tveimur ferfætlingum sem eiga lögheimili á sama stað.Þessi að vísu óskráði, en svolítið innskeifi og vængjaði tvífætlinur býr einnig á sama stað. Ég hef alltaf haldið að munurinn á bra-bra og bí-bí væri aðallega fólginn í stærðinni, en það átti ekki við í þetta skiptið. Eftir mikið spjall og upprifjanir frá okkar skemmtilegu árum nyrðra, spurði hann hvort ég hefði áhuga á að koma með í svolitla göngu upp á Vífilfell n.k. fimmtudagskvöld. Ég var nú aldeilis hræddur um það, og þegar liðið var allnokkuð fram yfir miðnætti kvaddi ég þennan ágæta vin minn og hélt heim á leið. Daginn eftir gerði ég mér ferð í Hagkaup í Kringlunni og keypti heppilegan vind og regngalla, því ég taldi mig þurfa að lappa upp á útbúnaðinn, og nú var loksins komið að því að ég hefði einhvern félagsskap í þessu fjallaklifri sem ég hef ánetjast í það allra síðasta og ég var hreint ekki svo lítið kátur með það.Vífilfellið sem er 655 metra hátt er nyrsti hluti Bláfjallaklasans. Þetta tignarlega fjall gnæfir yfir Litlu kaffistofuna og flugvöllinn á Sandskeiðinu. Það var ákveðið að hittast við rætur þess upp úr klukkan "átján" á fimmtudeginum. Ég var í nýja gallanum, á nýju skónum sem ég keypti í "Sappos" og með nýju göngustafina sem ég fékk í fimmtugsafmælisgjöf frá bekkjarsystrum mínum, þeim stínu Hjörleifs, Oddfríði Jóns, Klöru Sigurðar og Fríðu Birnu Kidda G. Sagt er að einhver annar maður hafi fengið gull, reykelsi og myrru (sumir segja rugl, ergelsi og pirru), en ég fékk hvítvín, rauðvín og göngustafi. Hvítvínið og rauðvínið entust ekkert sérstaklega lengi, en nú var kominn tími til að vígja stafina.
Maggi var hins vegar mættur á undan mér ásamt tveimur vinnufélögum sínum.Við lögðum af stað og byrjuðum á að fara fram hjá gríðarlega miklum malarnámum.Við gengum upp hlíðina neðan til í fjallinu á það var svo sannarlega á brattann að sækja.Síðan tók við ganga yfir allmikla sléttu áður en seinni áfanginn hófst. Þessi myndarlegi snjóskafl varð á vegi okkar sem þurfti að "þvera."Þeir kölluðu þetta landslag "steindar skjaldbökur" og ég er ekki frá því að það sé bara vel til fundið.Þarna var rétt eins og skapari fjallsins hefði útbúið lítill pall sem eins konar hvíldarstað fyrir lokaáfangann.En ég gat alls ekki beðið því ég er stundum svolítið mikið óþolinmóður og lokaáfanginn allt of skammt undan. Ég varð auðvitað að ná toppnum á undan hinum.Og allir komust þeir upp, og nú var kominn tími á að kíkja aðeins á nestið.Það var af ýmsum toga eins og sjá má...Því ýmsar eru fóðurþarfir mannanna svo og smekkur þeirra...Þarna erum við Magnús ásamt einum ferðafélaganum.Okkur varð öllum starsýnt á allt víðsýnið.Og fannst við vera á vissan hátt hærra settir en flestir aðrir.Allar myndavélar fóru á loft þegar upp var komið.Sumir skoðuðu landið úr "svolítið háþróaðri og nærdragandi sjónglerstækjum."Þarna er horft í norður ofan á Reykjavík og nágrenni. En vel sást til Snæfellsjökuls, Akraness, Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esjunnar.Svo er horft til suður þar sem Þorlákshöfn virðist vera skammt undan.Hellisheiðin er langt fyrir neðan okkur. Fjallið vinstra megin er Skálafell en hægra megin Meitillinn. Í fjarska og u.þ.b. fyrir miðju glittir í Eyjafjöllin og Eyjafjallajökul, en ég hugsa oft og mikið til Víkur og Mýrdalsins sem er enn austar, og ein allra, allra fallegasta sveit landsins. Þar er hægt að skemmtilegum myndum á góðum degi af hinu sérstaka landslagi sem prýðir þennan landshluta, og þangað ætla ég að fara í sumar. Við sáum líka Langjökul, Heklu, og fleiri athyglisverða staði ofan af fjallinu, en vegna þess hvað það var mikið mistur náðust engar "skynsamlegar" myndir af þeim. Einnig gægðust Vestmannaeyjar upp úr haffletinum og minntu á tilveru sína þó að mér sé hún bæði vel og að góðu kunn. Í vestrinu gátum við svo horft niður á kollinn á Keili og langleiðina til Keflavíkur. Ég hafði á orði að Keili hefði mig langað til að klífa en hann væri víst bara einhver risahundaþúfa. Mér var þá sagt af þeim sem reynt hafa að hann væri erfiðari en hæðin segði til um því hann væri svo "laus í sér.En nú var kominn tími til að "lækka flugið" og halda af stað heim á leið og Magnús tekur til stafanna.Það er ekki endilega alltaf auðveldara að fara niður brattann en upp. Það fengum við að reyna í þetta skiptið.Það var farið að verða svolítið kvölsett þegar lokaáfanginn var eftir á leiðinni niður að bílunum í malarnámunni, en menn voru bæði þreyttir og kátir í senn yfir framtakinu.Svo varð ég auðvitað að mynda hjálpartækin í sínu rétta umhverfi sem reyndust mér svo vel í ferðinni.

Ég var á dögunum að gera svolítinn óskalista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja í sumar, og eftir nokkrar vangaveltur varð til eins konar topp-tíu listi. Hann er ekki settur fram í tímaröð, heldur er frekar um að ræða upptalningu frá norðri til suðurs, því líklegt þykir mér að Mýrdalurinn, Esjan og Hafnarfjall verði t.d. á undan Hólshyrnu í tímaröðinni þegar af stað verður farið.

Hólshyrnan (hressilegur labbitúr með Steingrími og myndavélunum okkar.)
Héðinsfjörður yfir Hestsskarð (en þangað hef ég aldrei komið.)
Illviðrishnjúkur (því ég átti enga myndavél síðast þegar ég fór)
Selvík og Kálfsdalur (sem þangað kom ég síðast fyrir 40 árum.)
Hafnarfjall (til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Esjan (til að geta sagt að ég hafi farið þangað upp, og til að ná góðri mynd af Reykjavík.)
Reykjaneshringurinn (því það er fulllangt síðan síðast.)
Virkjanaleiðin upp eftir Þjórsá (til að telja hvað virkjanirnar eru margar, eða til að reyna að átta sig á hvað þær gætu hugsanlega orðið margar.)
Vík og Mýrdalurinn ásamt næsta nágrenni (því þar er bæði landið fagurt og fólkið gott.)

Það er svo rétt að geta þess að fleiri myndir eru á Ljósmyndasíðunni í möppu merkt Úlfarsfell og Vífilfell.

Svo er bara að sjá til hvað verður búið og gert og hvað ekki þegar haustið nálgast...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar