08.08.2007 02:37

Síldarævintýri 2007

393. Að sjálfsögðu var haldið á Síldarævintýri á Siglufirði um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár. Það eru þó ekki endilega skemmtiatriðin og einhverjar uppákomur sem draga mig á heimaslóðir ár eftir ár, heldur miklu frekar það að sjá og hitta allt fólkið sem kemur þarna af sömu ástæðu og ég. Fólkið sem býr velflest á sama landshorni og ég, en ég rekst aldrei á það á þeim slóðum svo undarlega sem það hljómar. Hér að neðan eru nokkur sýnishorn frá nýliðinni helgi og flestar myndirnar geta líklega talað fyrir sig.



Eitt af því fyrsta sem fyrir augu bar var þessi Rússi sem var auglýstur til sölu, en að vísu vantaði verðhugmyndina á auglýsinguna. Gaman væri að hafa einhverjar tölulegar upplýsingar um þá hlið málsins.



Tveir menn með stórar myndavélar. - Jónsi (t.v.) flutti frá Siglufirði þegar hann var 10 ára en er vel meðvitaður um ræturnar. Hann var einn af þeim sem gisti á Aðalgötu 28 ásamt fjölskyldu sinni. Steingrím (Lífið á Sigló) á ekki að þurfa að kynna fyrir nokkrum manni, því hann er líklega einn frægasti Siglfirðingurinn í dag og er vel að því kominn.



Gulli (Gunnlaugur Óli Leósson) er hér með þær "copy" og "paste" eins og þær voru kallaðar til að byrja með. Það kom til af því að í upphafi þekktum við þær ekki í sundur en þegar frá leið varð það ljóst að fyrir utan háralitinn voru þær ekkert eins líkar og virtist vera við fyrstu sýn. Hin réttu nöfn þeirra eru Ólöf og Sunna.



Hérna er sá sem þetta ritar í verulega góðum félagsskap. Gunnhildur er sveitastúlka og prestsdóttir innan úr Skagafirði.



Þegar ekið er fram á fjörð eins og það er kallað, má sjá að Hólsáin sem heitir reyndar Fjarðará skv. skráðum heimildum, er betur brúuð en margar aðrar ár. Það er ekki bara ein brú sem hægt er að aka, heldur eru þær tvær hlið við hlið og báðar í bullandi notkun enn sem komið er.



Svona var veðrið á föstudag og laugardag. Lágskýjað, ýmist rigning eða skúrir og líklega ekkert sérlega spennandi að búa í litlu kúlutjaldi.



Allar sprænurnar í fjöllunum urðu að beljandi ám.



Ein af dellunum sem ég hef ánetjast er að safna skemmtilegum einkanúmerum, en það verður örugglega komið rækilega inn á það síðar. Hérna bættist eitt slíkt í safnið einmitt helgina sem svo margir taka sér frí.



Fyrri partinn á laugardagskvöldinu var spilaður blús á sviðinu við torgið og hann bara þrælskemmtilegur.



Það er vitað að Geirmundur sem spilaði í Allanum hefur ágætt viðskiptavit. Hann lagði auðvitað vel merktum hljómsveitarbílnum við hliðina á sviðinu svo hann væri fyrir hvers manns augum. Góð og ódýr auglýsing.

En þegar þennan sveiflukóng ber á góma dettur mér alltar gömul og skemmtilega saga í hug.
Fyrir allmörgum árum sendi ég lag í Sæluvikukeppnina á Króknum ásamt mörgum öðrum. Geirmundur fór hins vegar með sigur af hólmi, enda stóð hann betur að vígi en aðrir keppendur þar sem hann einn keppenda var með allt undirspil á geisladiski þar sem færustu popparar landsins lögðu honum lið. Ég lenti í fjórða sæti og þegar þeir sem náðu tíu efstu sætunum höfðu allir verið kallaðir upp á pallinn hallaði Geirmundur sér að mér og spurði: Bjóst þú kannski við að vinna?



Þetta eru þær Erla og Stína sem voru söngkonur Miðaldamanna árið 1979 eða sumarið á eftir Selmu. Samstarfið við þær var frábært í alla staði og væri hægt að segja margar skemmtilegar sögur frá þessu tímabili, en það bíður líklega betri tíma.



Þær stöllur Copy & Paste stilla sé upp fyrir framan sviðið og hljómsveitina Bermúda.



Hljómsveitin Bermúda var hins vegar alveg dúndurgóð. Sérstaka athygli mína vakti afburða góður bassaleikur og þegar ég gáði betur þekkti ég bassistann, því hann var á sínum tíma einn af betri viðskiptavinum mínum í Laugarásvideó.



Ég hitti Stjána Elíasar fyrir framan Bíóið og átti við hann stutt spjall. En það er svo annað mál að ég get með engu móti séð að hann hafi breyst nokkurn skapaðan hlut ef frá er talin klippingin, síðan hann trommaði með þeim Gumma Ingólfs, Bjössa Birgis og Jóhanni Skarp í hljómsveitinni Enterprise líklega árið 1970 eða þar um bil. Og það verður eiginlega að koma skýrt fram að Stjáni var drullugóður trommari, þungur og þéttur.



Og ég fékk fleiri stelpur í fangið. Ég hitti þau Guðmund Óla og hana Öllu sem settist hjá mér rétt á meðan myndatakan fór fram.



Ein af skemmtilegri hljómsveitum sem hafa verið "fundnar upp" á Siglufirði eru HELDRI MENN, sem rímar auðvitað ágætlega á móti eldri menn. Hér fyrir ofan er líklega einn af elstu trommurum landsins, ekki nema 83 ára gamall. Svenni Björns sem hefur munninn yfirleitt fyrir neðan nefið kynnti hann sem Ingimar Ringo Þorláksson. Og fyrir þá sem ekki vita þá er Snorri "Idol" bróðursonur Ingimars.



Svenni söngvari Björnsson er ofurtenór sem alltaf hefur haft gaman af því að syngja og langaði mikið til að vera með á uppgangsárum karlakórsins Vísis forðum. En það var hægara sagt en gert fyrir togarasjómann að sinna slíku og því varð allt slíkt að bíða.



Ég man ekki eftir að hafa vitað Ninna á Hring spila opinberlega meðan ég bjó á Sigló og heyrði ekki af því í allmörg ár eftir það. En núna er Ninni eins konar hirð-nikkari Síldarminjasafnsins og fellur vel inn í söltunarsýningarnar sem þar eru haldnar.



Hjalli Jóns fyrrum nágranni minn á Brekkunni flutti aftur í bæinn fyrir allnokkrum árum, en hann var lítillega í poppinu 1968-9 þegar hann spilaði með hljómsveitinni Max hinni fyrri. En í henni voru auk hans; Óli Ægirs (rakara), Stjáni Hauks (bróðir Finna Hauks á Bíóinu), Rabbi Erlends og Sverrir Elefsen.



Örfhenti gítarleikarinn Júlli er með sérsmíðaðan gítar fyrir þá sem þannig eru spilandi. En Júlli sækir sífellt í sig veðrið, enda farinn að læra til leiksins í Tónskólanum.



Jónsi bekkjarbróðir minn tók fullt, fullt af myndum þó hann sé ekki farinn að sýna mér þær ennþá. Ég verð líklega að rúlla suður í Reykjanesbæ og kíkja á hann þar sem hann býr í Innri-Njarðvík.



Kalli rafvirki (Latabæjar) var líka á Aðalgötunni um helgina. Það varð ekki annað séð en að hann fílaði bæinn og ævintýrið í botn.



Ég fór með Jónsa og Kalla inn í Skógrækt og hélt svolítinn fyrirlestur um Jóhann Þorvalds. Svo bætti ég við nokkrum smásögum um sjálfan mig frá því að ég var í unglingavinnunni og gróðursetti tré þarna sem ég þekki jafnvel enn.



Á sunnudeginum var komið fínt veður og allt eins og best varð á kosið. Og auðvitað var haldin söltunarsýning við síldarminjasafnið með öllu tilheyrandi.



Hún heitir Ingibjörg Þráinsdóttir, er kölluð Ibbý og hefur búið í Englandi síðan 1971 eða 2. Hún er dóttir Þráins Guðmundssonar fyrrv. skólastjóra við Laugalækjarskóla, en foreldrar hans voru Ingibjörg Jónsdóttir og Guðmundur Þorleifsson sem bjuggu að Hávegi 12b á Sigló. Og því má bæta við að Guðmundur þessi skóp ef svo má segja Guðmundartúnið sem flestir brekkubúar eiga að þekkja þó svo búið sé að grafa það allt í sundur í dag vegna gerðar snjóflóðavarnargarða. Hann heitir Duncan og er að koma til Íslands í fyrsta sinn.



Ég skrapp með Duncan og Jónsa upp í fjall eftir hinum forboðna einkavegi sem fer svo illa með bíla sem heita ekki jeppar eða eitthvað þaðan af stærra. Jónsi tók þessa mynd af mér þegar ég sá þennan stóreflis "grjóthnullung" sem ég varð auðvitað að príla upp á.



Eftir Bayonne skinkuna sem var í kvöldmatinn gat ég ekki setið á mér lengur, Ég varð bara að labba eitthvað upp í fjall. En þar sem ég var ekki orðinn alveg góður síðan ég snéri undir mér aðra löppina í Hróðmarstindum fyrr í sumar, varð að finna eitthvað auðvelt viðfangsefni. Ég ók ásamt Jónsa upp undir Siglufjarðarskarð og við gengum síðan þaðan til austurs í áttina að Súlum sem er fjall fyrir sunnan skógræktina í Skarðdal. En með því að aka svona langt upp eftir var ekki á brattan að sækja, heldur eiginlega "gönguskornar" skriðurnar þarna efst í dalnum. Það var mjög sérkennilegt að heyra lækjarniðinn undir fótum sér þó hvergi væri vætu að sjá, en þarna rennur talsvert vatn ofan í urðinni þó gróið sé yfir það fyrir árhundruðum.



Hann er alveg ótrúlega gulgrænn mosinn við mýrina og í kring um lækinn sem rennur úr vatninu ofar í fjallinu.



Það er líka eitthvað við að setjast á klettabrún og dingla fótunum fram af. Ég áttaði mig á ég var í sömu gömlu spariskónum og ég hafði verið í þegar ég asnaðist upp í Skollaskál og langt upp fyrir Fífladali um páskana. Það á ekki af greyjunum af ganga.



Þarna uppi er ekki allur snjór alveg farinn þó komið sé fram í ágúst.



Við klifruðum upp í hlíðina fyrir ofan Súlur og þarna stillir Jónsi sér upp fyrir neðan klettabrúnina.



Séð ofan í vatnið fyrir ofan Súlurnar og niður til Siglufjarðar. Frá þessu svæði er afburða gott útsýni yfir fjörðinn og bæinn og þess vegna ekki vitlaust að muna eftir hafa myndavélina meðferðis fyrir þá sem eiga þarna leið um.



En nú var kominn tími til að  halda til baka í átt að veginum sem lá upp í  Siglufjarðarskarð sem sjá má á myndinni hér að ofan.



Svona lítur urðin út sem þarf að ganga yfir og var eins gott að gæta vel að hvar drepið var niður fæti því að mjúkur mosinn á milli steinanna villti oft um fyrir hve djúpt var niður á fast. En sól gyllti tinda, það var hætt að rigna, himininn orðinn blár og dagurinn hafði verið góður.



Þetta er hann Oliver sem ætlaði með okkur Jónsa í fjallgönguna, en þegar hann kom að fyrstu lækjarsprænunni snéri hann við og hljóp aftur upp að bílnum í einum spretti þar sem hann beið þar til við komum aftur.



Og auðvitað þurftum við að  fara lengri leiðina til baka eða upp í Skarð, niður hinum megin, út Almenningana og um Strákagöng.



Þetta skilti er í Siglufjarðarskarði og fyrir þá sem geta ekki lesið svona smátt letur stendur:

Þann 15. maí 1935 hófst framkvæmd við vegagerðina undir verkstjórn Lúðvíks Kemp frá Illugastöðum í Skagafirði. Vegurinn var formlega tekinn í notkum 27. ágúst 1946.

Um Siglufjarðarskarð lá leiðin til Siglufjarðar frá landnámsöld þar til Strákagöng voru opnuð 10. nóvember 1967.

Frá 1935 til 1946 var unnið með handverkfærum og hestakerrum við vegagerðina. Það var svo sumarið 1946 að verulegt skrið komst á lokaáfanga vegagerðarinnar í skarðinu, en þá kom stórvirk jarðýta er ruddi síðasta spölinn og þann örðugasta milli vegaendanna að norðan og sunnan, en það var sjálfur Skarðskamburinn.

Yfir þessu skarði hafði síðan í heiðni andi nokkur illkynjaður er birtist í strokumynduðum skýstólpa er kom úr lofti niður ofan yfir hvað helst sem undir varð, maður, hestur eða hundur, og lá það dautt samstundis.

Annmarki þessi varaði fram á daga Þorleifs prófasts Skaftasonar. Ferðaðist hann þangað árið 1935 með ráði Steins biskups og nokkrir prestar með honum og vildismenn.

Hann hlóð altari úr grjóti annarsvegar í skarðinu og hélt þar messugjörð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum og í skarð það eður hraungjá er sunnar liggur í fjallsbrúninni og kallast Afglapaskarð. Þykir þar æ síðan ískyggilegt. Hefur og nokkrum sinnum orðið þangað mönnum gengið í villu og bana beðið.

Siglufjarðarskarð hefur aldrei síðan orðið mönnum að meini.

Mælti séra Þorleifur svo fyrir að hver sem yfir skarðið færi skyldi gjöra bæn sína við altarið og mundi þá vel duga. Sér þessu altari merki enn í dag.

Það er svo 15. júlí 2000 að sóknarprestur Siglfirðinga séra Bragi J. Ingibergsson framkvæmdi hjónavígslu í Siglufjarðarskarði að viðstöddum ættingjum og vinum brúðhjónanna.





Séð yfir til Skagafjarðar úr Siglufjarðarskarði.



Þegar við komum úr leiðangrinum var klukkan að verða ellefu. Sumir fóru að sofa en aðrir töldu það engan vegin tímabært. Þeirra á meðal voru þau Ólöf of Gulli.



Ég skrap út á torg um nóttina og hitti Jóa. Hann bennti mér á afturrúðuna á björgunarsveitarbílnum, en einhver hafði fundið sig knúinn að mölbrjóta hana.



Síðan varð ég auðvitað að kíkja á Pál Óskar í Bíóinu sem þeytti skífum af hjartans list. Fyrir utan hitti ég Svein Hjartar sem var trommari í hljómsveitinni Max hinni síðari. En Sveinn starfar núna sem ljósmyndari á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa numið þá listilegu iðju í Danaveldi.



Hvað hann Dóri er að skoða þarna veit ég ekki, en mér finnst þetta skot ekki með öllu ógalið.



Eigum við að segja að þessi mynd heiti: KJÓSANDINN OG ÞINGMAÐURINN    .



Á mánudeginum var haldið til berja inni í Skarðdal efst í skógrægtinni til að fá aðeins út á skyrið. Þarna er Magga að tína ber.



Ibbý settist aðeins niður innan um lyngið og grenið.



Duncan var alveg grjótharður í tínslunni.



Afraksturinn... Hmmmm. Ekki alveg orðin fullþroska en þau smökkuðust vel í KEA skyrinu.



Síðan var haldið niður í bæ frá stæðinu fyrir ofan Jóhannslund.



...Og tekin ein mynd frá Hóli áður en pakkað var saman og haldið suður á bóginn.

Og þetta er aðeins u.þ.b. helmingur þeirra mynda sem sjá má á Myndaalbúmi merkt "Síldarævintýri 2007."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 243
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317867
Samtals gestir: 34835
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 12:37:19
clockhere

Tenglar

Eldra efni