14.09.2007 09:45

Haustferð á Vestfirði

401. Það var búið að standa lengi til að skreppa vestur í Dýrafjörð og helst áður en fyrstu frostin kæmu, því ekki væri alveg ónýtt að geta tínt nokkur ber út í skyrið áður en sumarið væri allt þetta árið. Það hafði spáð rigningu dag eftir dag og einu sinni eða tvisvar var búið að fresta för í fáeina daga í von um betra veður. Ég vonaðist líka lil að geta klöngrast upp á eins og  a.m.k. einn meðalstóran hól og tók því gönguskóna og stafina með. Það var sunnudaginn 9. sept. að ekið var úr hlaði og ekki svo mikið sem staldrað við á leiðinni fyrr en í Hólminn var komið á tveimur tímum sléttum. Síðan liðum við yfir Breiðafjörðinn með Baldri, pöntuðum stolt eldhússins sem heitir auðvitað Baldursloka og er hreint ekki afleitur biti. Ég las upp til agna bæði dagsgamalt Fréttablað, og Bændablaðið sem ég barði þarna augum í fyrsta skipti á ævinni. Frá Brjánslæk er svo klukkutíma keyrsla á Þingeyri. Fyrir allmörgum árum þurfti ég atvinnu minnar vegna, oft að aka landleiðina vestur hvort sem var að sumri eða vetri, í bullandi bongóblíðu eða snarvitlausu veðri. Þá fannst mér stundum leiðin löng og ekki alltaf neitt tilhlökkunarefni að leggja land undir dekk. En með því að hafa veðurspána til hæfilega mikið hliðsjónar, fara "Breiðafjarðarleið" í stað "Steingrímsleiðar" eða "Barðastrandarleiðar" eða þetta algjört "Pís of keik."



Þó var staldrað örlítið við þegar komið var ofan af Dynjandisheiðinni. Það var vel í fossinum vegna rigninganna undanfarinna daga, og ég notaði tækifærið og endurnýjaði 20 ára gamla mynd svo til óbreytta hvað landslagið varðar. En hvað heitir svo þessi foss? Í gegn um aldirnar hefur hann heitið Dynjandi en það var á ofanverðri síðustu öld (sumir segja nítjándu) að það var farið að kalla hann Fjallfoss. Einhverjar sögur hafa einnig farið að því að séra Böðvar Bjarnason (afi Ragga Bjarna stórsöngvara) sem var prestur á Hrafnseyri (1901-1941) hafa unnið mikið í að festa Fjallfossar nafnið í sessi. Um tíma virtist það vera hin ríkjandi nafngift, en nú á síðari árum virðist mér Dynjanda nafnið vera að sækja á. Annars er það bara efsti fossinn og vissulega sá tilkomumesti sem ber þetta nafn. Fossaröðin telur alls sex mjög misstór vatnsföll, þó þeir séu ekki allir sýnilegir á myndinni hér að ofan vegna þess hvert sjónarhornið er. Efstur er Dynjandi, þá Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og neðstur er Sjóarfoss. Hægt er að ganga á bak við Göngumannafoss, en ég gaf mér ekki tíma frekar en svo oft áður til að gera það.



Það var frekar léttskýjað inn til landsins en öllu þungbúnara þegar horft var til hafsins. Hér er horft út Arnarfjörðinn frá Hrafnseyrarhlíðinni.



Skrýtið skýjafar og líklega eins konar veðramót þarna yfir utanverðum firðinum.



Þetta fannst mér sem á að venjast stöðugu og góðu gsm sambandi, svolítið skondið skilti. En það er það alls ekki í rauninni þegar betur er að gáð. Ef ekið er rétt niður fyrir skiltið er hægt að ná gsm sambandi og tengjast þannig umheiminum. En ég reyndi það líka þarna að sambandið slitnaði ef farið var örfáum metrum ofar eða neðar. Ég er ekki frá því að þessi litli blettur sé eini staðurinn í Arnarfirðinum norðanverðum þar sem þessi nú orðið "nauðsynlega" tækni er virk.



Og enn heillaði skýjafarið ferðalangana sem áttu leið um hlíðina.



Ég gekk fyrst framhjá þessari auglýsingu án þess að taka eftir neinu óeðlilegu. En í næsta skipti var ég spurður að því hvort ég sæi nokkuð skrýtið við hana. Ég staldraði við og las hana yfir vel og vandlega þó svo að ég hyggðist ekki sækja um vinnu á Tjörn. Ég kom fyrst auga á eina svolítið aulalega stafsetningarvillu, en síðan aðra og aðra og aðra og aðra...



Daginn eftir stóð til að fara í ber, en það rigndi og því var skroppið í svolítinn bíltúr á Ísafjörð. Ég gat ekki setið á mér og smellti mynd af þessum garði þó svo að aðeins sjáist hluti af skreytingunni sem gerir hann afar sérstæðan svo ekki sé dýpra í árina tekið.



Rétt hjá og í sömu götu er svo þetta skemmtilega timburverk. Ekki er laust við að það læðist að manni sá grunur að hér búi einhver sem hefur stigið ölduna, marga fjöruna sopið og margsinnis migið í saltan sjó.



Næst lá leiðin út með Skutulsfirðinum sunnanverðum. Hér má sjá Arnarneshamarinn sem gengur í sjó fram milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar, en árið 1949 voru sprengd í gegn um hann 35 m. löng veggöng. Vestfirðingar segja þetta fyrstu jarðgöng á Íslandi, en Siglfirðingar telja verkið hafa verið lítið að umfangi og göngin svo stutt að þau standi vart undir því að vera kölluð jarðgöng og því séu Strákagöng  sem voru tekin formlega í notkun 1. sept. 1968 fyrstu eiginlegu jarðgöng á Íslandi. Ég ætla ekki að taka afstöðu í málinu hér og nú.



Héðan er horft frá Arnarneshamri og yfir að Óshlíðinni. Ég ætlaði alltaf að skreppa út í Bolungarvíkina, en þessar endalausu rigningar dagana sem ég var fyrir vestan löttu mig til þeirrar ferðar. Þegar horft er til fjallsins hlýtur hver maður að sjá að það er ekkert skrýtið að það verði oft á tíðum grjóthrun úr hlíðinni og klettunum fyrir ofan veginn.



Ofarlega í fjörunni var mikið af pollum sem sjórinn endurnýjaðist í þegar fæddi. Í þeim var talsverður þaragróður og talsvert af skordýrum svamlaði líka þarna um.




Eftirfarandi er kópí/peistað af síðunni sudavik.is

Fyrir æva löngu bjó bóndi einn mikils háttar í Súðavík og átti hann dóttur gjafvaxta. Ekki er getið um nafn hennar. Á vist með bónda (leysingi hans eður þræll) var piltur um tvítugsaldur, Vébjörn að nafni. Vébjörn og bóndadóttir felldu hugi saman og fóru dult með, en þá grunaði bónda hvað í efni var með þeim og líkaði stórum illa. Svo er það eina vornótt um sólstöðubil eftir annríkan dag við fjárleitir og fráfærur, að hinir ungu elskendur geta leynst að heiman svo að á fárra viti sé. Halda þau sem leið liggur með sjónum út að Götu og nema staðar á Brúðarhamri.

Þegar þau hafa notið ásta sinnar um hríð, verða þau þess vör að bátur kemur innar með hlíðinni og stefnir að þeim. Kenna þau þar för Súðavíkurbónda og húskarla hans er láta ófriðlega. Standa þau upp skjótt, og segir Vébjörn við unnustu sína að hér muni þau nú skilja verða fyrir fullt og allt því að undankoma sé með ólíkindum, en þó skuli hennar freista og biður hana muna sig ef svo félli að hann dragi undan bananum. En hún heitir því af alhug. Að svo mæltu þrífur Vébjörn upp klett mikinn og varpar í voginn við fætur þeirra með þeim ummælum, að sá steinn skuli þar standa, uns annar 18 ára beri hann burt. En það hefur enginn gert og mun trúlega aldrei gera, því að þetta er hið mesta bjarg. Síðan leggst Vébjörn til sunds úr voginum og stefnir norður yfir Djúp til Snæfjallastrandar. Bónda ber nú brátt að á skipinu.

Lendir hann því við hleinina og fer sjálfur heim með dóttur sína, en lætur mönnum sínum eftir að sjá fyrir Vébirni. Taka þeir þegar til ára á vit flóttamanninum sem nokkuð hafði borið undan út á Djúpið, enda var hann syndur sem selur. Er það skemmst af að segja að ekki ná þeir Vébirni í sjó, og komst hann á land norðan Djúpsins fyrir utan Súrnadal allmjög þrekaður og ákaflega móður. Þó að forhlaup væri lítið tókst honum samt að komast allhátt í klettahlíðar Núpsins og lá við sjálft að hann slyppi þar úr höndum fjanda sinna, en með því að þeir voru sex um einn en sumir segja tíu, gátu þeir umkringt hann og unnið þar á honum. Síðan heitir þar Vébjarnarnúpur.



Vegurinn Álftafjarðarmegin er svo skemmtilega hlykkjóttur að ég varð að smella á hann einni.



Ég stoppaði við þessa sérkennilegu kletta í fjörunni. Á þessum slóðum voru verbúðir allt fram yfir aldamótin 1900 og heitir það "í Höfnum."



Í bakaleiðinni þegar við ókum inn í Skutulsfjörðinn var tæpast að greina Ísafjarðarkaupstað á eyri sinni í þessu undarlega samspili sólarljóssins og veðurfarsins.



Síðar um daginn skrapp ég út fyrir sandana í Dýrafirði og sá að haustlitirnir voru óðum að setja meira og meira mark sitt á gróðurinn. Fyrir framan mig er Sandafellið og hinum megin við það kúrir þorpið í rigningunni.



Snemma morguninn eftir vaknaði ég á undan öllum öðrum, og þar sem mér leiddist aðgerðarleysið datt mér að fá mér bíltúr inn fyrir Dýrafjarðarbrú og aka inn í botn sunnan megin fjarðarins, og til baka að norðanverðu. Þessi malarvegshringur er líklega ekki svo mjög fjölfarinn nú orðið, enda ekki lengur í leiðinni eins og áður var.



Það hafði kólnað um nóttina og efstu fjallatoppar urðu svolítið ljósgráir.



Innarlega og norðan megin í firðinum er þessi fallega á með nokkrum litlum fossum. Hún heitir Hvallátradalsá. Mér komu í hug orð gamals vinar míns sem við mjög svipaðar aðstæður og þessar pírði augun á það sem fyrir augu bar og svolítið reikull í spori mælti þessi fleygu orð: "Fossinn lekur niður hlíðina."



Hann er flottur Dýrafjörðurinn þarna innfrá. Ég settist á stein og sat þar lengi, horfði út fjörðinn og einhver undarleg og svolítið einmannaleg tómleikakennd fyllti hugann. Ég var  aleinn þarna, og allir aðrir virtust allt í einu vera svo langt, langt í burtu. Kyrrðin var næstum því yfirþyrmandi, einstaka me, me og bra, bra rufu hana þó lítillega. Samt var hann ekki svo langur spottinn út á Þingeyri.



Spegill hafsins var brotinn upp af Álftahópnum sem synti fyrir linsuopið og strikaði það fjallið sem var á hvolfi.



Um þessa fugla hefur verið sungið m.a. "Svanasöngur á heiði" og "Svanurinn minn syngur," en hljóðin sem ég heyri frá þeim finnast mér ekki ýkja fögur.



Ég reyndi að komast inn í skógræktina inni í botni en varð frá að hverfa. Litlir hjalandi lækir voru orðnir að beljandi ám og til að komast þangað þurfti ég að aka yfir einmitt einn slíkan. Vatnsmagnið var orðið einum of mikið fyrir Micruna. Ég tók því bara mynd inn í fjarðarbotninn og vissi að uppi yfir honum vakti "Sjónfríð," þó svo hún sæist ekki þaðan sem ég stóð.



Ég var nú kominn fyrir botn og að brúnni yfir Hvallátradalsá. Mig langaði óstjórnlega til að rölta upp með gilinu og upp í dalinn, en sú staðreynd að það var búið að rigna talsvert í nokkra daga gerði mig fráhverfan því.



Þetta fjall er Þingeyrarmegin eða að sunnanverði í firðinum, og mér fannst það flott en ég veit ekki hvað það heitir. Þess vegna tók ég mynd af því og hef í sjálfu sér litlu við að bæta öðru en því að það var miklu flottara "læf" en það lítur út fyrir að vera á myndinni.



Á leið minni varð þessi brú yfir lækjarsprænu sem rann eftir farvegi sem var svo undarlega fullur af möl. Það var engu líkara en þarna hefði runnið stórfljót, en sú var nú ekki aldeilis raunin. Og svo fannst mér líka brúin sem slík eiginlega vera af allra ódýrustu gerð. Áin heitir Valseyrará.



Aftur er horft út eftir firðinum og til Þingeyrar, og aftur fyllist hugurinn einhverri undarlegri tómleikakennd. Svolítil rigning í logninu, haustið sem er búið að koma litum sínum fyrir í náttúrunni og hin yfirþyrmandi kyrrð eru líklega orsakavaldur tilfinningaseminnar.  



Það stytti upp þegar á daginn leið, en um kvöldmatarleytið kom svolítil skúr á sama tíma og nokkrir sólargeislar brutu sér leið í gegn um skýjaþykknið. Og eins og oft gerist þegar vatn og ljós skerast, myndast náttúrufyrirbæri sem við köllum regnboga. Það gerðist einmitt þarna eins og sjá má.



Ég færði mig til að geta myndað hann frá öðru sjónarhorni og regnboginn færðist allur í aukana. Eins og sjá má er hann orðinn mjög litsterkur og reyndar eru þeir orðnir tveir. Ég færði mig aftur til að sjá hann frá enn fleiri sjónarhornum, en þegar ég taldi mig vera kominn á góðan stað var hann horfinn og sást ekki meir.



Simbahöllin er gamalt hús í því sem næst miðju Þingeyrarkauptúns. Það stendur svolítið fram á götuna og um tíma var talið að það stæði fátt annað til en að rífa það. Kvikmyndin "Nói albínói" var tekin að hluta á neðstu hæð hússins sem var breytt í bókabúð sem kom talsvert við sögu í myndinni. Um miðja síðustu öld verslaði Sigmundur (Simbi) Jónsson þarna en bjó á efri hæðinni. Eftir fráfall hans (einhvern tíma um eða fyrir 1970) tók Þórður (Dindi) sonur hans við í nokkur ár en síðan var rekið þarna rafmagnsverkstæði, tengd verslun og myndbandaleiga.



En húsið drabbaðist mikið niður, Ísafjarðarbær eignaðist það fyrir nokkrum árum og um tíma var búist við að það yrði rifið. En Belgískur maður sem býr á Þigneyri keypti það á síðasta ári og hefur nú hafist handa við endurbyggingu þess.



En það var komið að því að halda til baka á suðvesturhornið. Þegar ekið er inn Arnarfjörðinn, framhjá Dynjanda og upp á heiðina, er ekið meðfram Svíná sem á nokkrum kafla má jafnvel kalla foss. Áin fellur niður eins konar þrep og myndar við það mjög skemmtilegt mynstur. Ekki veit ég til þess að þessi foss heiti neitt, en það hlýtur samt svo að vera.



Veðrið var ekkert til að hrópa húrra fyrir og ferjan Baldur átti í mesta basli með að komast að bryggju á Brjánslæk. Samt þurfti ekkert á ælupokunum að halda á suðurleiðinni.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316487
Samtals gestir: 34522
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 03:34:07
clockhere

Tenglar

Eldra efni