22.09.2007 13:58

Og meira um hús og híbýli mannanna.

403. Þeir sem þekkja til mín vita að ég er mjög veikur fyrir litlum íbúðum í lélegu ástandi, og því verra sem ástandið er, því betra. Ástæðan er reyndar sú að undanfarin misseri hef ég "búið mér til vinnu" með því að kaupa slíkar "holur," gera þær upp og selja síðan. Á þessu ári hef ég þegar keypt tvær slíkar og þegar selt aðra, en er nú farinn að svipast um eftir þeirri þriðju því ekki má missa niður dampinn. Ég varð því ekki svo lítið uppveðraður á dögunum þegar ég leit við eins og svo oft á fasteignavef Morgunblaðsins, og barði þar augum þá sjúskuðustu, skítugustu og verst förnu íbúð sem ég hef nokkru sinni augum litið. Einhverjir hefðu líklega fyllst skelfingu við þá sýn sem við blasti, en fyrir mér var þetta dýrðleg sýn og hugsanlega gullið tækifæri.

Ég hafði samband við fasteignasöluna þar sem eignin var skráð og fékk að kíkja á staðinn. Myndirnar sem ég hafði séð á netinu voru ef eitthvað var, frekar til þess að fegra ástandið. En ég sem var með myndavélina meðferðis smellti nokkrum af á valda staði. Ásett verð á þessa rúmlega 50 m2 tveggja herbergja íbúðar í blokk var 12 milljónir. Þegar ég las lýsingu á eigninni í söluyfirliti gat ég ekki annað en glott út í annað, því fasteignasalinn var greinilega ekkert að reyna að gera málin flóknari en efni stóðu til. Þar stóð skýrum stöfum svart á hvítu, ?íbúðin er ónýt.? En ég sem veit af nokkurri reynslu að ég er aldrei einn í heiminum þegar svona stendur til boða, gerði tilboð upp á lítilsháttar yfirverð eða 12,3 m. stgr. En eins og mig grunaði seldust herlegheitin á eitthvað hærra verði en ég var tilbúinn að inna af hendi, því einhver hefur líklega alls ekki viljað missa af þessu tækifæri lífs síns. En það er reyndar ekki nóg að kaupa spýtur og málningu, það þarf að líka að gera ráð fyrir verðmæti vinnuframlagsins í endurbyggingunni. Nokkuð sem stundum gleymist og því fór sem fór.

Sérstök ástæða þykir mér að benda á neðstu myndina sem er af baðinu, en það hafa "tæknilega vandamál" verið leyst á ákaflega einfaldan hátt. Þar sem baðkarið hefur verið of langt á sínum tíma til að geta komist fyrir, hefur verið brugðið á það ráð að gera gat í vegginn við enda þess. En þá stóð karið auðvitað svolítið inn í næsta herbergi sem var svefnherbergið og hefur það væntanlega ekki þótt við hæfi. Þess vegna hefur verið smíðaður skápur utan um enda baðkarsins í svefnhefberginu og var vandamálið þar með leyst og úr sögunni. - Fagmannlega gert, ekki satt.

Mér fannst hins vegar full ástæða til að deila dýrðinni með þeim sem hingað kunna að rekast inn, því það er ekki oft sem slíka hluti ber fyrir augu - held ég alveg örugglega.





































Og hér bjó fólk. . .

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 219
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316651
Samtals gestir: 34540
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 10:58:47
clockhere

Tenglar

Eldra efni