03.12.2007 22:41

Siglóferð í nóvember.


421. Ferðin norður á Sigló var auðvitað ánægjuleg eins og slíkar ferðir eru næstum því alveg undantekningalaust. En ég komst að því að eitthvað er farið að slakna á fyrirhyggjunni þegar kemur að því að menn séu þokkalega útbúnir til dekks. Á miðvikudagsmorgunn þegar ég rölti nývaknaður til dyra og ætlaði að teyga að mér morgunloftið og fara kannski í eins og einn stuttan bíltúr, sá ég mér til hrellingar að það var sprungið (einu sinni sagði maður alltaf punkterað) á litlu bláu Micrunni. (Bakara)meistari Jakob var þó mættur til brauða og kökugerðar og spurði hvern andsk... ég væri að þvælast norður á sumardekkjum á þessum tíma. Ég sagði honum að ég væri ekki á neinum andsk... sumardekkjum, heldur væru vetrardekk undir honum allan hringinn sem ég hefði keypt undir hann dýrum dómum í fyrrahaust. Við örlítið nánari skoðun kom í ljós að við höfðum báðir á réttu að standa upp að vissu marki eða svo. Vissulega voru þetta upphaflega vetrardekk, en grófa munstrið var ekkert sérlega gróft lengur og síður en svo líklegt til að standa undir verulegum væntingum. En eins og komið var fyrir okkur (mér og þeim bláa) var um fátt annað að ræða en setja varadekkið undir og renna síðan til hans Skarphéðins sem pantaði nýjan dekkjagang í einum grænum.
"þetta á að vera komið á morgun," sagði hann.
"Vonandi, því ég ætla að rúlla suður annað kvöld."
Við svo búið þakkaði ég fyrir mig og kvaddi.

Daginn eftir (fimmtudag) kom ég svo aftur við en Skarphéðinn var svolítið skrýtinn á svipinn þegar hann sá mig.
"Þeir hafa líklega skilið þau eftir bölvaðir, en það kemur annar bíll á eftir og þetta á að vera í honum."
Það var greinilegt að hann var ekki alveg sáttur við gang mála og vildi kanna málið alveg ofan í kjölinn. Hann bað mig að hinkra og hringdi í söluaðila dekkjanna og í afgreiðslu flutningsaðilans.
"Þetta á alveg örugglega að vera í bílnum sem kemur á eftir. Sleppur þetta ekki?"
"Ég verð að fara í síðasta lagi um hádegi á morgun, (föstudag) því ég er að spila annað kvöld á henni Catalinu."
"Við bara reddumessu," sagði Skarphéðinn og ég kvaddi öðru sinni.


Það var svo á föstudagsmorgunn að ég sótti þann bláa á nýjum dekkjum. Ekki veitti af því svolítið sýnishorn af vetrarlegu annnesjaveðri hafði skotið sér niður á miðnorðurlandið eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Ég hafði tekið nýju myndavélina með í ferðina, því yfirleitt og undantekningalítið hef ég fyllt kortið af því sem fyrir augu og linsu ber, en það var fátt um feita drætti að þessu sinni vegna útsýnisskorts.Svona var útsýnið í Fljótunum, Sléttuhíðinni og á Höfðaströndinni. En eftir að komið var suður fyrir Hofsós fór að draga verulega úr hvíta litnum í umhverfinu. Í Húnavatnssýslum var síðan ekki að sjá svo mikið sem eitt einasta snjókorn á vegi.
En þar sem viðdvölin á heimaslóðum var ekki nema þrír dagar að þessu sinni, er nokkuð ljóst að það verður að gefa sér tíma í aðra heimsókn þangað innan tíðar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar