05.12.2007 00:46

Laumuhárkollumátarinn sem er enn inni í hárkolluskápnum.422. Líklega er hann ekki kominn út úr hárkolluskápnum ennþá, eða þá að hann er einhvers konar laumuhárkollumátari hvaða undarlegu kenndir sem geta legið að baki slíku. Fyrir fáeinum árum þekkti ég betur til hans og jafnvel þá var hárið tekið að þynnast verulega. En á þeim tíma var hann aðallega þekktur fyrir að vera fretgjarnari en góðu hófi gegndi, að ógleymdum ofvirkum svitakirtlunum sem margan manninn gátu pirrað. Árin liðu og eitt og annað breyttist. Okkar maður var fyrir löngu búinn að fella sínar fegurstu fjaðrir og nú voru aðrir tímar upp runnir með nýja siði. Langur tími á hverjum einasta degi fór í að raða hverju strái fyrir sig yfir gróðurlausa hæðina milli hægri og vinstri hluta kragans. Síðan voru lýjurnar límdar kyrfilega niður með einhverju ofurgeli sem átti að þola allt að 12 vindstig samkvæmt hinni gömlu vindhraðamælingu án þess að gefa sig. Það mátti alla vega skilja það svo eftir lesningunni utan á geltúbunum. En eftir því sem árin liðu varð auðvitað enn lengra á milli stráa og dagsverkið fyrir framan spegilinn að sama skapi meira og meira krefjandi og tók sífellt lengri og lengri tíma. En aldrei kom til greina að hans hálfu að taka stóra stökkið í aðra hvora áttina, sem flestir aðrir hefðu eflaust verið búnir að gera fyrir löngu. Hvorki að framkvæma aðgerðina "allt-af" sem er miklu meira en eðlilegur og raunhæfur kostur, eða þá að kaupa sér eins konar manngerða hárhúfu sem myndi hylja vandamálið.

En líklega hefur hann ekki gert sér grein fyrir umfangi málsins, því yfirsýnin í þráðbeinni merkingu þess orðs var mjög svo ábótavant að eðlilegum ástæðum.
Þau hár sem eftir voru fóru að mestu í að hylja hátt og glansandi ennið, því það blasti auðvitað við í speglinum. Ef betur hefði verið að gáð og meira spáð, hefði það ekki leynt sér að lítið sem ekkert var þá eftir til að breiða yfir kúluna sem upp af því var.
Það var ekki fyrr en einhver illa meinandi læddist eitt sinn aftan að honum og tók mynd beint ofan á kollinn eftir greiðslu (en að vísu í verulegri óþökk hvirfilseigandans í fyrstu,) að það varð þó til þess að hann áttaði sig loksins á hinum hráslagalegu og bláköldu staðreyndum málsins.
"Lítur þetta virkilega svona út séð að ofan" muldraði hann og horfði lengi á myndina.

Eftir þetta atvik fór fljótlega að bera á breyttu hegðunarmynstri. Hann lokaði sig gjarnan inni á klósetti og læsti jafnvel á eftir sér þegar kom að hinni daglegu yfirgreiðsluathöfn, og hún tók nú enn lengri tíma en áður. Eitt sinn þegar ég þurfti að bregða mér á vaffséið, tók ég eftir því að þar var kominn auka spegill, ekki ósvipaður þeim sem rakarar nota þegar þeir sýna kúnnanum hnakkann á sjálfum sér að lokinni klippingu. En það var líka eins og hann væri orðinn svo miklum mun pukurslegri í allri umgengni. Skotrandi augunum út undan sér við öll möguleg og ómöguleg tækifæri, yfirleitt svolítið flóttalegur og jafnvel vandræðalegur á svipinn. En dag einn komst ég að því hver var rót hegðunarvandans. Ég fann eitt sinn hjá mér og það mjög skyndilega ríka þörf til að komast í einum grænbláum að skálinni og skrúfa frá vatnsenda, en þá var hann þar fyrir og hafði gleymt að læsa að sér. Þegar ég reif upp hurðina sá ég hvar hið fullkomna tækifæri til að ná spontantmynd ársins beinlínis blasti við. Og þar sem ég var einmitt með myndavélina í höndunum og hún tilbúin til "afsmellingar" vegna prakkarastriks sem hafði verið í undirbúningi, var auðvitað skotið. - Nema hvað.

(Based on a true story)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar