17.12.2007 14:09

Á mjólkurveiðum.

428. Þannig háttar til að við eigum tvo gamla ketti. Ég get líklega alveg kallað þá gamla, því þeir verða báðir 15 ára á næsta ári. En hvernig skal umreikna kattaár yfir á mannaár er ég ekki með á hreinu, svo við skulum ekkert vera að fara út í þá sálma. En það yfirleitt þannig að með aldrinum kemur reynslan, og það vakti athygli mína hvernig þeir fóru að bjarga sér um svolítinn mjólkurdreitil eina nóttina þegar ég var að koma heim eftir spilamennsku. Ég settist niður í stofunni svolitla stund í þeim tilgangi að róa mig aðeins miður fyrir svefninn, því dansleikurinn var enn í fullum gangi inni í höfðinu á mér.

Einhver hafði skilið eftir mjólkurglas á stofuborðinu með svolítilli mjólk í og sá sem eldri er í árinu fór að hnusa af því. Hann mátaði höfuðið á sér við glasið, en það reyndist annað hvort of stórt eða glasið of þröngt. Eftir svolitlar vangaveltur um hvernig best væri að nálgast innihaldið, dýfði hann loppunni ofan í og sleikti síðan mjólkina af "kattartánum." Ég laumaðist hins vegar í vasann þar sem myndavélin var og smellti af nokkrum í því skyni að safna gögnum vegna nýhafinna atferlisrannsókna kattardýra.





















Uppeldisbróðir hans fylgdist með af áhuga og þegar fór að lækka í glasinu taldi hann greinilega röðina vera komna að sér og stillti sér líka upp við glasið. Með einhverjum hætti sem ég hef ekki skilning á, var eins og félaganum hefði verið bolað frá án þess að hægt væri að greina neinar merkjasendingar eða merki um einhvers konar tjáningu þeirra á milli. Annar kom bara að málinu eins og tímapunkturinn væri löngu ákveðinn, en hinn einfaldlega fór frá því án þess að segja svo mikið sem mjá. Ekki veit ég heldur hvort "veiðiaðferðin" er þeim í blóð borin eða hvort þarna fór fram "kennslustund í hagnýtum fræðum," en alla vega var sá síðari ekki mjög lengi að komast upp á gott lag með "mjólkurveiðarnar."













Frekari orð eru að mínu mati óþörf, myndirnar segja það sem segja þarf, en ég er hér með lagður af stað norður á Sigló.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 142
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 161
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 317285
Samtals gestir: 34692
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 20:15:42
clockhere

Tenglar

Eldra efni