24.12.2007 19:00

Gleðileg jól.432. Alveg eins og sá sem vill tjá sig frá eigin brjósti en hefur hvorki talandann né nauðsynlegan þokka til að ná athygli hlustandans, kýs ég að fela mig á bak við handrit sem að vísu nær því engan veginn að vera skrifað á leshraða. Ég geri og þessa gullfallegu jólastelpu sem myndin er af hér að ofan eiginlega að talsmanni mínum um það sem leitar stundum á hugann um þessa hátíð ljóss og friðar.

Það eru enn og aftur komin jól. Híbýli mannanna eru skreytt englum og skrautkúlum, ilmandi en deyjandi grenitrjám og greinum sem verður kurluðí Sorpu að fáeinum dögum liðnum og ljósadýrðin í mannheimum er með ólíkindum. Sum okkar eiga erfitt með að ná andanum vegna ofáts, en það er í lagi því við höfum velflest efni á að láta okkur líða þannig um stundarsakir.
Já híbýli mannanna eru skreytt glitrandi englum úr gerfiefnum sem eru kannski framleiddir í Kína, Indlandi eða Bangladesh, löndum Múhameðs spámanns og Bhudda feita. Í verksmiðjum þar sem vinnutíminn er óendanlegur og launin engin. En við skulum ekki vera að eyða jólunum í að velta okkur upp úr því sem er óþægilegt. En ef við endilega viljum, þá getum við svo sem gefið fimmþúsundkall í söfnun sem er í gangi um þessar mundir, keypt okkur sálar og samviskufrið og sofið róleg á eftir. En umræddur fimmþúsundkall er sögð vera sú upphæð sem þarf til að leysa Indverskt þrælabarn úr ánauð frá verksmiðjuvinnu þar sem framleiddur er varningur fyrir okkur siðmenntaða fólkið á réttu verði.
Nei alvöru englar eru æði sjaldséðir og ekki er víst að við þekkjum þá frá hinum sem síður standa undir slíkri nafngift. Þá er ég að tala um hina mannlegu engla sem eru svo undarlegt sem það nú er, ekki endilega svo ýkja hátt skrifaðir hjá okkur, enda vitið ekki meira en Guð gaf svo ég grípi til frasa sem alltaf stendur fyrir sínu.
Ef heimsbyggðin yrði skrásett og flokkuð í dag eins og gert var fyrir um það bil 2007 árum, gæti ekki verið að þrátt fyrir tæknilegar framfarir, aukin lífsgæði samkvæmt útreiknuðu meðaltali frá ári til árs og áætluðum þroska mannkynsins á tímabilinu, kæmi í ljós að hreint ótrúlega litlar breytingar hefðu orðið á heilum tveimur árþúsundum.

Á Íslandinu góða hefur til allrar hamingju yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar getað gengið efnishyggjunni á hönd, slafrað í sig fimmberjakryddað lambalæri með rauðkáli, grænum baunum, súrum gúrkum og fleiru mjög svo lystilegu meðlæti á allsnægtaborði yfirborðsmennskunnar, ásamt því að hafa fullar hendur fjár til að öðlast sín gleðilegu jól að öllu öðru leyti.
Hér er auðvitað best að vera, eða svo er fullyrt og svokölluð ánægjuvog gjarnan nefnd til sögunnar í leiðinni. Við sem erum svo heppinn að hafa fæðst á Íslandinu góða getum jafnvel leyft okkur óátalið að trúa í bland bæði á Guð og jólasveininn, því hér ríkir trúfrelsi. Það hentar okkur vel á þessum ágæta og fádæma skemmtilega árstíma og flestir hafa ýmist vel eða næstum því efni á slíku sem er auðvitað hið besta mál. Kannski erum við öll sammála um að rétt sé að reyna að sameina það besta frá þeim báðum félögunum, okkur öllum til ánægju og yndisauka. Að vísu finnst mér stundum að Guð sé aðallega og langmest til á jólunum, en sáralítið þess á milli alveg eins og hinn rauðklæddi og fúlskeggjaði Jóli, en er ekki alveg viss í minni sök um að það eigi endilega að vera þannig.
Hér sem annars staðar í hinum siðmenntaða heimi hefur líka löngum verið dansað í barnslegri einlægni kringum allt jólaskrautið svo og sjálfan Gullkálfinn sem býr bæði í Kringlunni og Smáralindinni, ásamt því að eiga vistvænt athvarf í og við Laugarveginn en einnig í nokkrum smærri mollum vítt og breitt um svæðið.

En það hafa ekki allir aðgang að sömu jötunni.
Á Íslandinu "góða" fer stundum hið veraldlega í allri sinni makt og hið andlega í allri sinni dýpt stundum saman eða sitt hvora leiðina á svolítið undarlegan hátt. Sumir hafa lítið val eða jafnvel ekkert og verða þess vegna að gera sér andlegu dýptina eina að góðu, en hún virkar samt ekkert sérstaklega vel ein og sér ef maður er svangur.
Þriðjungur þjóðarinnar segir að jólahátíðin valdi sér hugarangri og vanlíðan. Samkvæmt marktækri skoðanakönnun sem gerð var að ábyrgu fyrirtæki á afar faglegan hátt er þetta rétt. Þjóðin treystir niðurstöðunum þess meðal annars vegna þess að margir að bestu og ríkustu sonum "Guð vors lands" eru ábyrgir fyrir útkomunni. Þeir eru nefnilega kjölfestufjárfestar í sjoppunni.
Það hefur verið sagt að það séu forréttindi hinna vantrúuðu að geta sótt það í Biblíuna sem þeim geðjast að, en hafnað hinu. Trúlaus og líkust ódýrum og innihaldsrýrum tískufríkum þegar það er ógeðlega flott að fylgja þeirri línu, en sækja síðan prest í ofboði með grátstafinn í kverkunum til að blessa yfir moldum móður sinnar þegar sú stund rennur upp.

Er trúin ljósið sem slokknaði eftir að við þurftum minna á henni að halda en áður, eða þarf bara að skipta um einhverja hugmyndafræðilega peru í vitund okkar. Þurfum við kannski eldgos og jarðskjálfta, heimsfaraldur eða einhverjar plágur til þess að ljósið kvikni á ný?
Er hún fallegt brúðuleikhús þar sem Guð er strengjabrúða gamalla sagnameistara sem stýrt er af arftaka höfundar síns, þinglýstum eiganda eða hálfheilögum embættismönnum sem lúra á ósýnilegu tryggingarbréfi með veði í ríkistrúnni og bakveði í kirkjum landsins ásamt tilheyrandi fylgifé.
Eða er hún kannski einungis umræðugrundvöllur hjá kjaftaklúbbi þar sem deilt er um hvort maðurinn sé kominn af öpum eða skapaður í mynd sjödagameistarans.

En hinn eini sanni jólaandi er líklega ekki bara fullt af pökkum, allt of mikill matur eða glimmerglitrandi jólakort með fallegri mynd sem er prentuð á glanspappír með sterkum litum, síðan áritað fáeinum orðum af illri nauðsyn með hangandi hendi og sett í umslag með sérútgefnu frímerki.
Hann býr nefnilega í fallegum orðum og gerðum sem koma frá hjartanu og sálinni, ylja innan frá og honum fylgja góðar og einlægar hugsanir sem eru vel meinandi.
Og hann getur líka sagt upphátt og óhikað og meint bæði orðin: - Gleðileg jól.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar