07.01.2008 07:39

Jólin eru búin.

437. Já, jólin eru úti að sinni, en það má engu að síður alveg byrja að telja niður aftur, því það eru u.þ.b. 50 vikur til næstu jóla og þeir sem eru þannig þenkjandi geta strax byrjað að láta sig hlakka til.
Ég átti leið í Húsasmiðjuna í gær og þegar ég var kominn að kassanum veitti ég því athygli að kona á undan mér var að kaupa jólaskraut. Ég velti fyrir mér hvort ég væri kominn á eitthvað undarlegt tímaflakk, en komst að raun um eftir nokkra umhugsun að í dag væri 7. janúar og jólin væru því alveg örugglega búin. En svo fór ég að fylgjast betur með og þá áttaði ég mig á að þessi kona er það sem svo allt of mörg okkar eru ekki, þ.e. hagsýn. Það er nefnilega útsala á jólaskrauti víðast hvar dagana eftir jól, og hún var greinilega meðvituð um að þetta væri alveg hárrétti tíminn til að gera góðra hluti. Hún keypti jólaskraut fyrir u.þ.b. kr. 13.500 á 70% afslætti, og ef við reiknum töluna til fyrra verðs, þá hefur þetta sama jólaskraut kostað því sem næst kr. 45.000 fyrir fáeinum dögum síðan. Þetta gerði það að verkum að ég gat ekki látið hjá líða að kíkja aðeins á jólaskrautsrekkann og sá að sumt var á enn meiri afslætti. Ég horfði svolítið flóttalega í kring um mig en seildist síðan eftir stóru og alveg bráðfallegu jólahúsi og gekk aftur að kassanum með það undir hendinni, en horfði hikandi í kring um mig því það gæti verið að einhver sem ég þekkti væri þarna á staðnum og sæi til mín. Það væri þá viðbúið að viðkomandi teldi mig vera genginn af göflunum, því óneitanlega er það nú svolítið undarlegt að vera að kaupa jólaskraut í janúar þrátt fyrir áður fram komin rök. Jólahúsið kostaði kr. 598, en eldra verða var kr. 2.598 og þegar heim kom setti ég það beinustu leið inn í geymslu í hilluna þar sem jólaskrautið á heima ellefu mánuði ársins.

En nú eru flestir búnir að koma sínum "lifandi" jólatrjám sem eru í rauninni auðvitað alveg steindauð, út að lóðarmörkum þangað sem hirðusamir bæjarstarfsmenn hafa boðist til að sækja þau fyrstu dagana eftir þrettándann. Þau eru hvort sem er hætt að vera jafn fersk á að líta og í upphafi, farin að drita nálum sínum um stofugólfið sem berast um alla íbúð og barrilmurinn sem fitlaði við nasir okkar er orðinn daufur og alveg hættur að skemmta þefskyninu. Þau eru því best komin í kurlgræjunum þar sem þau geta öðlast sitt annað framhaldslíf. En nú vantar bara svolítið hressilega golu eða léttan storm til þess að þau geti rúllað fram og til baka um stræti og torg svo sem eins og einn eða tvo daga, nuddað sér vel og vandlega utan í rándýra lúxusbíla nokkurra nýríkra íslendinga og orðið jafnvel svolítið meira atvinnuskapandi en þau eru þegar orðin.

Ferli "lifandi" jólatrjáa er örugglega meira, lengra og flóknara en velflest okkar velta fyrir okkur yfir blá-hátíðarnar. Frá u.þ.b. 10 ára aldri og fram undir fermingu var ég ásamt hópi jafnaldra minna að planta trjám í skógræktinni heima á Siglufirði sumarlangt, og ég geri fastlega ráð fyrir því að það sama hafi verið uppi á teningnum víða um land allt frá því snemma á síðustu öld og til dagsins í dag.
Þetta eru sjálfsagt svo mörg handtök í það heila, að ef allt yrði talið yrði samtalan svo stjarnfræðileg að við myndum ekkert botna í þeim tölulegu upplýsingum sem hún fæli í sér. Vissulega er því hægt að halda því fram með réttu að ungmenni þjóðarinnar hafi í áratugi haft atvinnu af að stuðla að skógrækt á okkar ísa köldu landi.
Samt erum við ekki enn eftir öll þessi ár farin að geta framleitt öll þau jólatré sem þessi fámenna þjóð þarf á að halda ár hvert, því talsvert er einnig flutt inn af þessum græna barrvarningi. Og þess vegna leynast kannski einhvers staðar einhverjir jólatrésheildsalar sem hafa þá auðvitað atvinnu af að kaupa umræddan varning ytra og sjá til þess að hann komist heilu og höldnu yfir hafið og í hendur milliliða sem síðan selja hann áfram.
Svo má ekki gleyma flutningsaðilunum sjálfum, því það þarf því ýmist að flytja þau til byggða eða til landsins og koma þeim fyrir á sölustöðum. Einhver þarf sem sagt að annast flutninginn og það er vissulega atvinnuskapandi.
Þá er komið að einu af stóru málunum í ferlinu, þ.e. að sala trjánna vegur talsvert í fjáröflun skáta, björgunarsveita og annarra góðra og vel meinandi aðila og hjálpar drjúgt til við að halda starfsemi þeira gangandi. Það er líka atvinnusköpun en kannski svolítið óbeinni, því það kostar heilmikið að halda úti þessum sveitum ásamt búnaði þeirra og á endanum rennur ágóðinn af sölunni til þjónustuaðila svo sem olíufélaga og varahlutaverslana.
Þá er komið að því að safna saman öllu timbrinu, kurla það og framleiða afurðir sem nýtast munu á öðrum vettvangi og einhverjir fá auðvitað vinnu við það. Ja hérna, þetta er aldeilis ferli í lagi og sjálfsagt gleymi ég einhverju.

Jú annars... væri kannski bara best að eiga gervi-jólatré eins og Emil Páll og fleiri góðir menn...

Ég tæmdi nýju myndavélina í þriðja sinn á þessu ári og kom afurðunum fyrir í möppu merktri janúar 2008. Og vel á minnst, mér finnst mjög skrýtið að rita 2008 í stað 2007 eins og ég var nýlega orðinn vanur að gera. Það hefur líklega eitthvað með að gera hvað tíminn er farinn að líða miklu hraðar en hann gerði áður. En eftir að vera búinn að skoða jóla og áramótamyndirnar í krók og kring, datt mér í hug að hnýta einni léttri syrpu hér fyrir neðan og segja síðan frekari umfjöllun um þessa hátíð ljóss og friðar lokið að sinni.



Vigfús Bjarki aðstoðaði við piparkökubakstur í aðdraganda jóla. Mun betur útlítandi en afi hans (ég) var á hans aldri og jafnvel er til í dæminu að hann skáki líka hinum afanum (Gulla Sínu) og er þá mikið sagt.



Þóra Sóley stóra systir sem kann piparkökusönginn bæði afturábak og áfram, veit alveg hvernig á að búa til piparkökur og setur ekki kíló í staðin fyrir teskeið.



Á meðan piparkökur bakast getur að bíða ansi lengi að manni finnst eftir að fyrstu afurðirnar verði teknar til dóms og tilbúnar til smökkunar. Ég veit ekki hvor er spenntari sonurinn eða sonarsonurinn.



Minný tók virkan þátt í "eldamennskunni" og sá um liðinn "eftirréttir" yfir hátíðarnar með ágætum árangri. 



Það sem annars einkenndi jólin í ár öðru fremur voru helst og mest, myndir, myndatökur, myndaútprentanir, myndainnrammanir og flest það sem að úrvinnslu ljósmynda kom. Ég fékk Gunna Binnu til að prenta nokkrar valdar myndir frá Siglufirði og Dýrafirði í yfirstærð og allnokkrum eintökum, en þær voru síðan ýmist nýttar til jólagjafa, eigin þarfa og nota, en sumar seldar áhugasömum og burtfluttum sveitungum hér syðra.



Ingvar og Arna voru líka fjölfölduð og dreift til valins hóps sem samanstóð af öfum og ömmum. En það er nú stundum ekki einfalt mál að finna út hvaða jólagjafir hennta þeim sem fátt vantar eða þannig.



Ég skrapp  norður um miðjan desember eins og ég hef gert um árabil, en að þessu sinni með gylltu rammana sem ég hafði leitað svo lengi að. Ástæða númer eitt fyrir þessari árvissu ferð er eins og í gegn um tíðina að koma fyrir ljósakrossi á leiði afa og ömmu. Ástæða númer tvö er auðvitað að vitja sjálfra rótanna, hlaða batteríin og allt það. Ástæða númer þrjú voru síðan hinir nýfundnu gylltu rammar frá Europris og nokkrar hljómsveitarmyndir sem biðu þess að komast upp á vegg í stofunni. Rammana þurfti ég auðvitað til að þær hljómsveitir sem bæst höfðu við síðan síðast, tækju sig út með svipuðum hætti og þær sem fyrir voru.



Þar með eru raðirnar fyrir ofan sófann í stofunni orðnar þrjár, og ég er alltaf að rekast á fleiri sem ég vildi gjarnan koma fyrir á þessum vegg. Þarna eru myndir af Siglfirskum hljómsveitum svo og öðrum sveitum sem mannaðar hafa verið Siglfirðingum.
Einn ágætur vinur minn kom í heimsókn í des s.l. og gaf sér góðan tíma til að skoða hljómsveitarvegginn vel og vandlega án þess að mæla orð frá vörum.
En loksins þega hann talaði á ný sagði hann...
"Þú ert með mynd af honum Sturlaugi vini þínum í stofunni hjá þér."
Ég játti því en gat þess í leiðinni að ég teldi hins vegar hverfandi líkur á að hann væri með mynd af mér í stofunni hjá sér. Minn ágæti gestur horfði á mig, hnyklaði brýrnar og gerði sig hreint ótrúlega alvarlegan í framan.
"Vertu nú ekki of viss um það, ég held alveg örugglega að hann sé meira að segja með mynd af þér á náttborðinu hjá sér."
Ég velti fyrir mér hvort ég, hann eða við báðir værum allsgáðir, hreinsaði snöggvast úr eyrunum og hváði með stóru Há-i.
"Nei, kannski hefur hún verið Fanneyjar megin" bætti hann við, hrukkaði hátt ennið og skotraði til mín augunum. 
Hann þakkaði því næst fyrir sig og sagðist þurfa að hraða sér, en ég sá að flírulegt glott færðist yfir andlit hans á leiðinni niður stigann.
 



En ég fann alveg bráðfallega jólastelpu í tölvuheimum sem ég tók miklu ástfóstri við, eins og sjá má bæði á eldri pistlum svo og bannernum hér að ofan sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að fara að víkja innan tíðar. Hún hefur heillað mig svo upp úr skónum, að ég hleyp bara um á sokkaleistunum út um allar jarðir án þess að kunna fótum mínum nokkurt forráð.
Eins og sjá má er hún búin að koma sér fyrir í "word" og tilbúin til útprentunnar.



Og eins og sjá má, rennur hún ljúflega út úr prentaranum á "photo paper plus glossy" frá Canon sem var keyptur í Griffli fyrir eigi svo margt löngu síðan.



Það þarf að skera, mæla, skera aftur og snurfusa hina útprentuðu mynd í bak og fyrir.



Og skera kannski pínulítið meira...
 



Og hún er hér útskrifuð til innrömmunar.



Varast skal að skilja fingraför sín eftir á henni í bókstaflegri merkingu.



Og þar sem allt passar er kominn tími til að loka rammanum og þar með viðfangsefninu að sinni.



Og svo er jólastelpan komin upp í efstu hillu fyrir miðri stofunni.
En henni mun samt verða pakkað niður með öðru skrauti og geymd til næstu jóla, en þá mun hún upp rísa úr kassa sínum og gleðja augu mín og annarra.

En fleiri myndir er að finna á myndasíðu í möppu merktri jól og áramót 2007.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 131
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316563
Samtals gestir: 34530
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 07:07:31
clockhere

Tenglar

Eldra efni