10.02.2008 00:11

Þegar litirnir leika sér.



445. Þegar sólin er að setjast og dagurinn að breytast í nótt, geta litir náttúrunnar átt það til að sýna okkur mannfólkinu sínar sterkustu og fegurstu hliðar. Ofurrauðir, djúpbláir og logandi gulir blandast þeir saman, mynda óteljandi tilbrigði við áður óþekkt stef og leika sér glaðir í bragði innan um ljósgeisla og skuggamyndanir sem víða eru á sveimi.



Ég hef oft sagt að ef maður á myndavél, er alltaf með hana við hendina og notar hana mjög mikið, hljóta einhverjar afurðirnar að vera í það minnsta það þokkalegar og þeim sé hægt að flagga.



Ég átti leið til Reykjavíkur á dögunum um þann mund þegar sólin var að ganga undir. Sjóndeildarhringurinn sveiflaðist milli hins rauða og hins bláa, milli hins heita og hins kalda svo og milli dags og nætur. Ég fór lengri leiðina svo ekki sé tekið dýpra í þeirri árinni, því ég fór fyrst út á Álftanes. Og þar sem ég staldraði við til að horfa á sólarlagið, sá ég að sólin var einmitt stödd á vegferð sinni bak við turninn á Garðakirkju og tók sig bara vel út þar sem hún lýsti í gegn um hann. Við Perluna varð ég að stoppa aftur og mundi þá eftir að þrífóturinn var í skottinu. Hann kom því að góðum notum fyrst þar og svo aftur í bakaleiðinni þar sem ég staldraði við í Kópavoginum á þvottaplaninu á bak við N1.



En þrátt fyrir alla litadýrðina hér allt í kring um mig, er mig farið að langa að kíkja á heimaslóðir. Ég ráðgeri því að leggja af stað norður á Sigló eftir hádegi í dag (sunnudag) og staldra þar við í 2 - 3 daga.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 264
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317888
Samtals gestir: 34838
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 14:26:00
clockhere

Tenglar

Eldra efni