27.02.2008 12:35

EB.

451. Undarleg árátta er það að vera með augun sem límd á númeraplötum bifreiða sem leið eiga hjá, en þannig hefur það verið um nokkurt skeið og oft hef ég verið ofan í kaupið með myndavél á lofti. Og það sem verra er, ég er löngu hættur að skilja þessa vitröskun en mér finnst hún samt skemmtileg. Upp í hugann koma til að byrja með sauðheimskir smalahundar sem gelta að fretandi sjálfrennireiðunum sem flestar eru orðnar sjálfbíttaðar og með olíustýri í ofanálag nú til dags. En þær gætu auðvitað allt eins verið geitin Dáfríður og systur hennar komnar í sinn silfraða geimgalla, hver þeirra á tveimur settum af línuskautum, knúnar áfram af vindverkjum og metani á ferð sinni í leit að svarinu eina, - búkhreinsun. En þessi tiltekni smalahundur trampar ekki í vitinu og heldur áfram að gelta þar til honum hefur tekist að reka hina óboðnu gesti svo langt í burtu að ekkert sést til þeirra lengur.

Voff, voff, ég held ég sé svolítið að missa mig yfir strikið.

En ég á það reyndar til að sitja fyrir bílum, leita uppi bíla og svolítið kannski að elta bíla með myndavélina klessta upp við framrúðuna, en ég hef aldrei, aldrei reynt að reka þá í burtu. Þetta byrjaði allt saman snemma á síðasta ári en ég get ómögulega munað hvernig. En í dag hefur þessi áráttustreituundarlegheitaröskun orðið til þess að mér hefur safnast talsvert af einkanúmerum bifreiða í stafrænu formi og sumum ansi skondnum. Þar með getur það tæpast dulist nokkrum manni að flestu er nú hægt að safna. Maður hristir nú bara höfuðið og leyfir flösunni að fjúka yfir þessu öllu saman.

En hafandi rýnt í bílnúmer í tíma og ótíma við alls konar mögulegar og ómögulegar aðstæður, fór ég að velta fyrir mér skráninganúmerakerfi ökutækja og uppbyggingu þess. Er þetta virkilega algjörlega ?random? eða hvað? Mér fannst ég sjá suma stafi miklu oftar en aðra sem hluta af númeraplötunum, en einhverja jafnvel alveg sárasjaldan. A, P, U, X og Z fannst mér mun meira áberandi en margt annað ,en Z þó lang, lang algengust. Svo sá ég BO, OG, MU, DO, RE, MI og allan þann skala, en mest tók ég eftir EB.

Ætli það séu einhverjar pillur til við þessu?









Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 90
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306396
Samtals gestir: 33247
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 03:15:36
clockhere

Tenglar

Eldra efni