22.05.2008 05:40

Um íslensku SAUÐBÚFJÁRKINDINA.

476. Er ekki kominn tími til að við Íslendingar sem stöndum framar öllum öðrum þjóðum í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur, þróum og nútímavæðum þær afurðir og þá framleiðslu vora sem virðist allavega endrum og sinnum standa höllum fæti í grjóthörðu samkeppnisumhverfi dagsins í dag. Við höfum upplifað þá tíma að lambakjötið okkar með hinu óborganlega fjallalofts og náttúrubragði hefur ekki alltaf verið að seljast sem skyldi. Birgðir hlóðust upp um tíma og voru þær kallaðar kjötfjallið ef ég man rétt. Þá voru tvö fjöll mest, hæst og stærst í landslagi hins Íslenska bændasamfélags, þ.e. umrætt kjötfjall svo og smjörfjallið ógurlega. Nú eru bæði þessi fjöll uppétin m.a. af okkur Frónbúum, Færeyingum og öðru svöngu fólki sem hefur átt fyrir mat sínum. En það sem einu sinni hefur gerst, hlýtur að geta gerst aftur og vísa ég hér með til afbrigðis af lögmáli Murphy´s uppfært á Íslenskt samfélag.

Fyrir nokkrum árum átti sér stað merk tilraun í Japan sem ég mæli með að við lítum til. Þar voru kjúklingar fóðraðir á úrgangi og því sem af gekk úr verksmiðju sem framleiddi karrý. Hugmyndin var sú að framleiða kjúklingakjöt með karrýkeim, því eins og margoft hefur verið sagt: "Þú ert það sem þú étur." Ekki fara þó miklar sögur af árangri þeirra Japana, enda þykir þjóð mun hagkvæmara að stela hugmyndum annarra frekar en að uppdikta sínar eigin. Það sparar líka heilmikið sem lýtur að þróunarvinnu og tilraunastarfsemi svo líklega hafa þeir gefist upp á karrýkjúklingunum. En við Íslendingar erum ekki vanir að gefast upp og það jafnvel þó blási hressilega á móti. Margar af hinum vannýttu auðlindum okkar mætti með svolítilli hugkvæmni breyta í dýrmætan gjaldeyri s.s. evrur, svissneska franka og yen. (Mæli ekki með dollurum um þessar mundir.) Fjallagrösin sem reyndust þjóðinni svo vel þegar hún var horuð og vansæl, langt undir kjörþyngd og hafði danskan kóng, bíða þess að verða nýtt aftur. Söl og ýmis fjörusækinn þaragróður kemur svo auðvitað sterkt inn í myndina og jafnvel Skógarkerfilinn með sínu náttúrulega semi-lakkrísbragði og við þurfum hvort sem er að grisja hressilega í görðum landsmanna. Allt þetta og eflaust miklu fleira mætti hugsanlega nýta til að framleiða lambakjöt með hinum ýmsu bragðtegundum og hver veit nema þetta gæti orðið okkar næsta stóriðja.

Ullariðnaðurinn hefur sem kunnugt er átt undir högg að sækja en það hljóta að vera til einhver ráð við því. Íslenskt sauðfé hefur hingað til verið ræktað þannig að hinir ýmsu kostir þess hafa með tímanum komið enn betur fram en áður var. Getur ekki verið að það sé einnig hægt að rækta í það t.d. fleiri liti en það sem við þekkjum í dag sem íslensku sauðalitina? - Ég bara spyr?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 207
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 290
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 315856
Samtals gestir: 34419
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 15:19:47
clockhere

Tenglar

Eldra efni