19.07.2008 04:15

Paul Simon.

484. Um mánaðarmótin síðustu hélt stórtónlistarmaðurinn Paul Simon tónleika í Laugardalshöllinni. Ég kann í sjálfu sér litlar eða engar skýringar hvers vegna ég hafði ekki tryggt mér miða í tíma, Því ég hafði á einhverjum tímapunkti vrið ákveðinn í að berja þetta stórmenni á sínu sviði augum eða eiginlega frekar eyrum hvernig sem það er nú gert. Daginn sem tónleikarnir skyldu haldnir hafði ég enn ekkert aðhafst og var eiginlega búinn að sætta mig við eigin athafnaleysi. Þá hringdi síminn sem gerist svo sem oft án þess að það hafi nein sérstök áhrif á hið daglega líf mitt eða raski þeirri dagskrá sem fyrirhuguð var, en að þessu sinni gerðist það. Í símanum var stórvinur minn Birgir Jóhann Birgisson tónlistarmaður með meiru sem spurði mig hvort ég væri búinn að ráðstafa kvöldinu. Þegar ég kvað svo ekki vera spurði hann mig hvort ég vildi ekki koma með honum á tónleika í kvöld því það væri alltaf minna gaman að vera einn á ferð og svo ætti hann líka aukamiða. Ég spurði þá hvað væri að gerast í bænum og hvaða tónleikar megnuðu að draga hann út úr hýði sínu.
"Það er einhver karl sem kallar sig Palla Símonar og ég er svolítið forvitinn um hann."
"Hver er Palli Símonar" spurði ég án umhugsunar.
Þegar ég uppskar ekkert skellihlátur með spurningunni áttaði ég mig og varð svolítið kindarlegur.
"Af hverju fer ekki konan með þér" spurði ég aftur.
"Sko henni finnst þetta eiginlega meira tónlist fyrir gamalt fólk og telur sig ekki tilheyra þeim hópi."
Biggi hló aftur en núna mun lægra. Ég fékk á tilfinninguna að hann horfði flóttalega í kring um sig í leiðinni, rétt eins og hann vildi fullvissa sig að enginn hefði ekki heyrt þessa skýringu hans á áhugaleysi frúarinnar.
Ég lýsti efasemdum mínum um að nokkur gæti haft slíka skoðun á tónlist Paul Simon, en hver sem ástæðan var í rauninni þáði ég boðið og við Biggi urðum samferða í Höllina um kvöldið.

Um tónleikana má það segja að þeir voru vissulega góðir, en þeir voru samt allt, allt öðruvísi en ég bjóst við. Paul Simon er greinilega ekki ræðinn maður að eðlisfari, alla vega ekki í fjölmenni. Ég giska á að hann hafi ekki sagt mikið meira en á bilinu sex til átta setningar til áheyrenda meðan á tónleikunum stóð. Framsóknarguðni Ágústson myndi því líklega flokka hann sem einn af daufgerðu mönnunum í tilverunni. En þó að Paul Simon sé ekki besti söngvari í heimi komst hann ágætlega frá þeim þætti með smávægilegum undantekningum. Ég hef nefnilega alltaf haldið að hann væri alveg rosalega mikill og góður söngvari, en komst að því að það er eiginlega ekki þannig. Hann er jú mjög fínn til brúks sinna eigin laga sem hann semur auðvitað fyrir sjálfan sig og eru því sniðin að hans raddlegu getu og framsetningu. Og nú skil ég enn betur en áður hvað Art Garfunkel gegndi miklu hlutverki í dúettnum forðum þó svo hann hafi staðið félaga sínum langt að baki þegar kom að lagasmíðunum. Paul tók nokkur lög frá tíma dúettsins og söng þau einn. Ég sá að sumum fannst það greinilega hið besta mál en mér fannst eitthvað vanta í pakkann. Eitthvað sem ég tók inn á mig á sínum tíma að ætti og yrði að vera til staðar. Og þetta eitthvað er auðvitað hin háa, silkimjúka, kórrétta og eyrnavæna rödd hans fyrrum félaga í dúettnum Simon & Garfunkel.

 

Tónleikarnir fóru rólega af stað. Það verður ekki annað sagt en að mjúku lágstemmdu nóturnar svo og einfaldleikinn hafi verið alls ráðandi. Ég leit á Bigga sem sat í sætinu við hliðina á mér og sá að hann var búinn að loka augunum. Höfuðið seig fram á við og það var engu líkara en hann væri að gogga ofan í bringuna á sér eins og syfjaður lítill fugl á sólríkum sumardegi.
"Þú ert greinilega í banastuði" sagði ég og hann hnykkti til höfðinu.
"Hvað eru búin mörg lög" spurði hann á móti.
Svona á þetta ekki að vera á tónleikum eða hvað hugsaði ég með mér.

Ég man að ég sá haft eftir eftir Grammyverðlaunahafanum Paul Simon að hann færi sjálfur aldrei á tónleika hjá öðrum. Til þess væri hann einfaldlega of eirðarlaus og myndi eflaust í flestum eða öllum tilfellum fara snemma heim. En hann ætti kannski samt að gera eitthvað eða meira af því vegna þess að þá gæti hann lært heilmikið um hvernig má koma sínu til skila með líflegri framsetningu og markvissari uppbyggingu. Þegar á leið var að mestu leyti tekið fyrir efni af sólóferlinum og þá helst efni af Graceland plötunni. Þá kom best í ljós hvað hljómsveitin var góð auk þess sem hljóðfæraleikararnir sýndu mikil og góð tilþrif í bakröddunum.

Ég hafði fyrir tónleikana kynnt mér hvað myndavélin gat komist upp í mörg ISO sem mér skilst að sé mæling á hraða ljóssins inn um linsuna. Það varð til þess að ég gat tekið myndir af goðinu ásamt meðspilurunum yfir salinn alla leið aftan úr stúkusætinu þar sem ég sat framan af. En auðvitað varð ég að færa mig niður á gólf Hallarinnar þegar á leið og reyna að nálgast sviðið svolítið meira auk þess sem hljómburðurinn var mun betri niðri á gólfi.

Að tónleikunum loknum er ég ekkert frekar ákveðnari í því en áður að eignast disk með tónlistarmanninum Paul Simon frá sólóferli hans, en mig langar því meira að komast yfir þennan eina sem mig vantar í Simon & Garfunkel tímabilið

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 84
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 318
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 316051
Samtals gestir: 34450
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 05:08:35
clockhere

Tenglar

Eldra efni