20.07.2008 23:34

Dýrafjarðardagar.

7

488. Fyrstu helgina í júlí voru Dýrafjarðardagar haldnir svo sem hefð er að verða fyrir. Ég skal alveg viðurkenna að það varð vart svolítillar togstreitu einhvers staðar djúpt í hugarfylgsnunum því margt fleira togaði í. Það var auðvitað Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Flæðareyrahátíð inni í Jökulfjörðum og svo reyndar Markaðsdagar í Bolungarvík. En þetta hafði verið ákveðið svo það var haldið á Þingeyri á fimmtudeginum fyrir umrædda helgi. Morguninn eftir var svo skroppið á Ísafjörð og þaðan út í Hnífsdal, en þar var myndin af örþreytta ökutækinu hér að ofan tekin skammt frá Heimabæ og gamla Kaupfélaginu.



En tilgangur ferðarinnar út í Hnífsdal var að sjá hvernig framkvæmdum miðaði við Óshlíðargöngin eða Bolungarvíkurgöngin. Varðandi nafngift gangnanna gúgglaði ég eftirfarandi stubb úr Skutli.

Sl. þriðjudag voru opnuð tilboð í gerð Óshlíðarganga. Í tengslum við fréttaflutning af jarðgangagerðinni hefur komið fram að samgönguráðuneytið hefur kosið að kalla göngin Bolungarvíkurgöng og hefur það mælst misjafnlega fyrir meðal almennings. Telja sumir að nafngiftin sé góð og gild en aðrir að það nafn sem notað hefur verið hingað til, þ.e. Óshlíðargöng eigi að halda sér. Nú hefur umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar rætt málið og í gærmorgun komst nefndin að þeirri niðurstöðu að leggja til að nafnið Óshlíðargöng verði áfram notað.

Í útboðsgögnum Vegagerðarinnar hefur verið notað nafnið Óshlíðargöng en á fundi samgönguráðherra í Bolungarvík 8. janúar sl. kom fram að stefnt væri að því að nafn ganganna yrði Bolungarvíkurgöng. Ekki er þó að sjá að Vegagerðin hafi látið að stjórn ráðuneytis í málinu því að á vef Vegagerðarinnar er sagt frá opnun tilboða sl. þriðjudag og heita göngin þar enn Óshlíðargöng.

Telja verður viðeigandi að sveitarfélög hafi eitthvað um það að segja hvað opinber mannvirki í þeim heiti en svo er að sjá hvort bæjaryfirvöld í Bolungarvík hafa um málið að segja þar sem um helmingur ganganna liggur innan sveitarfélagamarka Bolungarvíkurkaupstaðar. Heppilegast verður þó að telja að samkomulag náist um að göngin heiti það sama báðum megin frá.




Þetta ku vera allra fyrsta kúluhús á Íslandi. Þar býr "málverjinn" Ásthildur Cesil og þarna var staldrað við um stund.



Um kvöldið knúði ég dyra á Kirkjubóli og bað leyfis að fara yfir landareignina áleiðis inn Kirkjubólsdal og upp á Kaldbak og var það auðfengið. Sigrún á Kirkjubóli var spjallgóð og skemmtileg. Við möluðum í fullan klukkutíma áður en ég hélt af stað eftir vegslóðanum sem lá inn dalinn.



Ég komst á Micrunni alla leið upp í Kvennaskarð, en þó munaði stundum ekki miklu að bílinn réði ekki við stórgrýttan og illfæran jeppaslóðan á köflum. En þaðan er best að ganga á Kaldbak sem gnæfir hér yfir önnur fjöll og dali.



Vel sést fram Kirkjubólsdalinn og út á Dýrafjörðinn.



Og nú var lagt af stað eftir fjallsöxlinni.

Skaginn eða fjallasalurinn milli Dýrfjarðar og Arnarfjarðar hefur oft verið kallaður Verstfirsku Alparnir er mér sagt og hann býður upp á mikla möguleika til gönguferða í fallegu umhverfi. Þessi mikli fjallasalur er ólíkur öðrum fjöllum á Vestfjörðum að því leyti að mun minna undirlendi er á fjallstoppunum, fjöllin almennt hærri, fjallseggin oft svo skörp að ekki er hægt að ganga hana og hreint ótrúleg formfegurð fjallanna minnir því um margt á Alpana. Kaldbakur  sem er 998 m. hár, er hæsta fjall Vestfjarða er miðpunktur þessa svæðis og gnæfir yfir umhverfi sitt. Fjallið er upp af Kirkjubólsdal, Meðaldal og Haukadal Dýrafjarðarmegin, en Fossdal og Stapadal Arnarfjarðarmegin.

Lengi hafði verið ætlunin að sigrast á Kaldbak, hæsta fjalli vestfjarða, og nú skyldi látið verða af því. Kaldbakur, sem er 998 m há eldstöð, er mun auðveldari að klífa en margan grunar. Hægt er að komast að honum upp eftir áðurnefndum dölum, en bestu og þægilegustu leiðirnar eru upp Kirkjubólsdal og Fossdal.



Áfram er gengið og framundan er Meðaldalsskarð.



Það styttist og styttist, smátt og smátt, skref fyrir skref.



Sagt er að Dýrfirskir skátar hafi á síðustu öld gengið á fjallið í því skyni að hækka það. Þeir munu ekki hafa verið sáttir við að það mældist aðeins 998 metrar á hæð og hlóðu tveggja metra háa vörðu þar uppi. En sé þetta rétt hefur tímans tönn, váleg veður eða hið íslenska fjallaloft (oft á mikilli og hraðri hreyfingu) náð að lækka hana aftur umtalsvert.



Og bara til að þetta sé á hreinu, ég var þarna...



Það er fjall við fjall. Hægra megin á myndinni sést ofan í Arnarfjörðinn.



Gláma á kafi í snjó lengst til vinstri á jaðri myndarinnar.



Meðaldalur framundan og Dýrafjörður.



Meðaldalur hægra megin en Haukadalur til vinstri.



Fyrr um daginn þegar ég kom frá Ísafirði tók ég mynd af þessu fjalli sem virtist vera vægast sagt hrikalegt að sjá. Það heitir Koltruhorn og er fyrir botni Haukadals.



Hér sést það af toppi Kaldbaks og er það sjónarhorn talsvert öðruvísi.
Ég var nokkra stund að átta mig á að þetta væri sama fjallið.



Fjöllin austan Kirkjudals. Hrafnseyrarheiði er þarna "bak við fjöllin háu."



Það var kominn tími til að skrifa í gestabókina og fá virðulegan stimpil í tilefni þesa áfanga.



Stapadalur í Arnarfirði. Þarna er mjög bratt niður og illa kleift.



Horft niður í Fossdal sem er einnig Arnarfjarðarmegin.



Og svo var skotið í allar áttir.



Og ég ætlaði aldrei að geta hætt.



Mér var starsýnt á þessa beittu fjallsegg milli Meðaldals og Haukadals.



Þetta er eiginlega bara næfurþunnur veggur.



Ég byrjaði að feta mig til baka. Þarna langt fyrir neðan beið bláa Micran.



En ég var ekkert að flýta mér of mikið.



Útsýnið var líka óviðjafnanlegt.



En þar kom að ég rölti af stað til baka sömu leið og ég hafði komið.



Ég ók fram hjá Kirkjubóli laust eftir miðnætti, réttum fjórum tímum eftir að ég lagði upp þaðan.



Í hádeginu daginn eftir var boðið upp á þessa orkuríku opg bragðgóðu Skötuselssúpu.



Ég rakst á klausu í bb.is þar sem sagði að Dýrafjarðar
dagar hafi nú verið settir í sjöunda sinn sem ég gúgglaði auðvitað þegar heim var komið.

Dýrafjarðardagar verða settir í kvöld, sjöunda árið í röð. Að venju verður dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt og skemmtileg, með áherslu á víkingatímann. Setning hátíðarinnar fer fram í Knapaskjóli, reiðskemmu hestamanna á Söndum, þar sem hestasýning fer fram. Í kvöld verður einnig opnuð myndlistarsýning Dagrúnar Matthíasdóttur í kaffisal sláturhússins á Þingeyrarodda og útgáfutónleikar sálmadisksins Lofgjörð til þín fara fram í Þingeyrarkirkju. Fyrir yngra fólkið verður boðið upp á sundlaugardiskó íþróttamiðstöðinni og er aldurstakmarkið er 12-17 ára.

Dagskráin á morgun hefst með morgungöngu í Haukadal, þar sem farið verður um söguslóðir Gísla Súrssonar. Rabarbaragrautur með rjóma bíður göngumanna að göngu lokinni. Því næst fer fram stigamót Blaksambands Íslands í strandblaki við íþróttamiðstöðina. Sú nýjung verður í ár, svokölluð að gestum og gangandi gefst kostur á að sækja íbúa heim í sérmerkt hús þar sem boðið verður upp á súpu. Gestir geta svo í leiðinni valið um fallegasta garðinn. Eftir hádegi verður komið upp sölutjöldum á víkingasvæðinu, þar sem andi víkinganna svífur yfir vötnum. Ýmislegt verður í boði til skemmtunar. Annað kvöld verður grillveisla á víkingasvæðinu, skemmtiatriði og hljómsveit, og dansleikur með hljómsveitinni Hunangi í félagsheimilinu.

Á sunnudag verður markaðsstemmning á víkingasvæðinu fram eftir degi. Búlgarska leiksýningin Chick with a trick verður sýnd í félagsheimilinu á Þingeyri, en það er hluti af leiklistarhátíðinni Act alone. Þá verður keppt í kassabílarallý á heimatilbúnum kassabílum og boðið upp á kaffihlaðborð að Hótel Núpi. Myndlistarsýningarnar Vestfirskir einfarar og Gísla saga Súrssonar í myndum verða í Haukadal auk leiksýningarinnar Aðrir sálmar. Seinnipart sunnudags lýkur hátíðinni með því að fluttir verða söngvar fyrir börn í félagsheimilinu í Haukadal.




Hún var löng biðröðin að grillinu í Víkingaþorpinu.



Enda margt um manninn á svæðinu.



Í og við tjöldin var ýmislegt að gerast. Hér er glóandi járnið hamrað á steðjanum



Ég fylgdist með þegar gömlum nagla var breytt í hring.



Hér var leikið á heimasmíðuð hljóðfæri þess konar sem voru notuð um og eftir Landnámsöld og sagt frá þeim.



Á sunnudagsmorgni var farið í göngu um þorpið og m.a. sögð saga margra gamalla húsa og íbúa þeirra. Í fyrstu heyrði enginn hvað sögumaðurinn Gunnlaugur Magnússon hafði að segja, en það lagaðist mikið þegar honum var fengið gjallarhorn.

Ljóst var að ekki hafði mikið verið lagt í undirbúning ferðarinnar og margar gloppur voru í heildarmyndinni, en samt var mjög gaman að henni svo langt sem hún náði. Hugmyndin er öldungis frábær og myndi án nokkurs vafa henta vel sem liður á Síldarævintýri, því ekki er svo litlu frá að segja á t.d. hringferð um eyrina.



Fróðleiksþyrstur hópurinn lagði upp frá Íþróttahúsinu ásamt leiðsögumanni sínum.
Gömgutúrinn var farinn fyrir hádegi og því nokkuð ljóst var að þarna voru nær eingöngu mættir þeir sem sleppt höfðu dansiballinu kvöldinu áður.



Kassabílarallý. Keppendur myndaðir frá hægri...



...og vinstri.



Þessi mun hafa laskast í hamaganginum.



En bílarnir voru að ýmsum gerðum...



...og stærðum.



Það hafði greinilega verið nostrað alveg heilmikið við smíði sumra þeirra.



Tveir menn með stórar myndavélar fylgdust með því sem fram fór. Auglýsingagúrúinn Jói Frank er hægra meginn, en slóðin á myndasíðuna hans er http://pbase.com/johannesfrank og þar er að finna margar alveg frábærar myndir.



Þetta er Solla Snorra (til vinstri) og er hún jafnframt einn nefndarmanna Dýrafjarðardaga. Hún hafði mikið að gera og síminn var óspart notaður sem stjórntæki. En því miður veit ég ekki hver stendur hjá henni, en hún gegndi sýnilega veigamiklu hlutverki í kassabílarallinu og var gjarnan með gjallarhornið á lofti.



Þegar kassabílarallýið var búið komu þessir mótorhjólatöffarar og stálu senunni.



Það er örstutt út í Haukadal og þangað var haldið.



Félagsheimili Haukadælinga er ekki stórt, en þar voru þó engu að síður haldin hin villtustu sveitaböll á árum áður. Nú var farið þangað til að skoða myndlistarsýningu. Það var annars komin þoka sem byrgði alla fjallasýn. Öðru hverju rofaði þó til sem kveikti í hvert sinn veika von um að nú færi að létta til. Ég hafði nefnilega hugsað mér að ganga á fleiri fjöll, en af því varð reyndar ekki.



Það er ekki bara á Fáskrúðsfirði þar sem franskan grafreit er að finna. Þetta er franski grafreiturinn í Dýrafirði en um hann eru því miður allt of litlar upplýsingar að hafa.



Á sunnudagskvöldið var haldið út í Svalvoga, en þeir eru yst á skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Leiðin þangað er oftast á mörkum þess að geta talist fólksbílafær, enda kemur fram á skiltinu að svo sé ekki.



En sumir taka lítið mark á slíku og leggja út í þokuna á Japanskri blikkdós.



Það er ekki mikið um beinar og eggsléttar hraðbrautir á þessari leið, en þeim mun meira af holum og nýlega hrundu grjóti á veginum.



Höfn er við mynni Dýrafjarðar, en þar hefur greinilega verið dyttað að húsakostinum.



Ætli það komi nokkuð Hvítabjörn þrammandi út úr þokunni. Sá þriðji sem spáð hafði verið að ætti eftir að koma hefur nefnilega ekki látið sjá sig enn.



Kannski á hann eftir að svamla að landi í þessari klettavík. En fyrir þá sem ekki vita, þá er ég haldinn bangsafóbíu. Oft slepp ég frá másandi bjarndýri sem er að elta mig með því að vakna kaldsveittur, lafmóður og með dúndrandi hjartslátt. Þessar martraðir hafa yfirleitt vitjað mín á nokkurra mánaða en stundum vikna fresti og þannig hefur það verið svo lengi sem ég man.



En þarna var bara ungamamma með afkomendur sína svamlandi í fjöruborðinu.



Það virðist vera erfitt að fá iðnaðarmenn út í Svalvoga og kannski það af því að vegurinn þangað er svo slæmur.



Í þessu húsi bjuggu á tímabili 16 manns svo ljóst er að einhvern tíma hefur verið þröngt á þingi á þessum bæ.



Og þó svo að framhliðin sé ögn reisulegri, vantar mikið upp á að ég gæti hugsað mér að deila þessum fáu fermetrum með 15 öðrum.



Sama iðnaðarvandamálið hrjáir fjárhúsið, en þakið af því fauk á haf út að ég held s.l. vetur. Þá sögu heyrði ég að húsið hafi verið vel tryggt en tryggingafélagið neitað að bæta tjónið á þeirri forsendu að húsið hafi verið ónýtt fyrir og vísað á málsgrein í smáa letrinu í skilmálunum máli sínu til stuðnings. 



Ég klifraði upp á vitann í Svalvogum og gægðist inn í ljósahúsið.



Þessi flotta og skjólgóða vík getur tekið talsverðum breytingum. Þarna er núna grýtt blágrýtisfjara en í fyrrasumar var hún þakin hvítum skeljasandi í ekta sólarlandastíl.



Skógrækt í Keldudal virðist ætla að takast vel og þarna er að verða til sannkallaður sælureitur.



Og ekki skemmir að annar gríður svo og hraunið setja skemmtilegan svip á heildarmyndina.



Ég náði mynd af þessum hringhyrnda hrút áður en hann hvarf út í þokuna.



Við vorum komnir inn undir Haukadal þegar við sáum til mannaferða og stöldruðum við. Finni (t.v.) þekkti þarna Óla Finnboga og tók hann tali. Óli sagði okkur frá vaðandi síld og í firðinum og stökkvandi laxi í fjöruborðinu. Reyndar urðum við vitni að því síðarnefnda þarna fyrir framan jeppann meðan á spjallinu stóð.



Aðeins utar með firðinum mátti sjá menn sveiflandi stöng.



Og innar líka.



Hvaða skrýtni fugl er þetta nú eiginlega spurði Finni og stoppaði bílinn. Ég átti engin svör við því en náði þessari mynd af honum. Það var ekki fyrr en heim var komið að fyrsta kenningin var sett fram um málið og leitt líkum að því að þarna hefði verið Jaðrakan á ferð.



Á mánudagsmorguninn vaknaði ég á undan öllum öðrum og smurði nokkrar brauðsneiðar með morgunkaffinu.



Viðdvölinni var lokið að sinni og leiðin lá upp úr þorpinu og yfir hálsinn innan við Sandafellið. En áður en Dýrafjörðurinn var kominn í hvarf var staldrað við og tekin mynd af þessari vaðandi síldartorfu sem var þarna kominn inn fyrir Þingeyri. Fleiri sáu ástæðu til að staldra þarna við og virða torfuna fyrir sér. það hafði líka heyrst að krakkar hefðu veitt síld á öngul við bryggjuna deginum áður.



Ferðin suður var hafin og landið hækkaði fljótlega, en fyrir aftan okkur grúfði þokan sig yfir láglendinu.

-

En um sama leyti og þessi Vestfjarðapistill er loksins "útskrifaður" eftir talsvert langa meðgöngu, er verið að leggja af stað á Síldarævintýri á Siglufirði. Það er nefnilega alltaf jafn gaman að vitja rótanna og sjá og hitta alla sveitungana sem á vegi manns verða á Ráðhústorginu, Aðalgötunni eða bara hvar sem er.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 290
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 315714
Samtals gestir: 34407
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 08:17:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni