31.10.2008 08:46

Hljómsveitin FEÐGARNIR.



509. Fyrir u.þ.b. hálfum mánuði heyrði ég eftirfarandi auglýsingu á Bylgjunni: Hljómsveitin FEÐGARNIR leika í kvöld, - Catalina Hamraborg. Það stækkuðu lítillega á mér eyrun því mér fannst þessi nafngift vægast sagt undarleg. Hljómsveitin FEÐGARNIR! Vááá...

Það rifjaðist upp svolítil saga frá Gaggaárunum heima á Sigló þar sem hljómsveitarnafn var mál málanna.

 

Þetta var á þeim tíma sem við nokkrir guttar úr fyrsta bekk vorum nýbyrjaðir að æfa saman og á hverri æfingu var rætt um hvað bandið ætti heita, en án þess þó að komast nokkru sinni að afgerandi niðurstöðu. Ég var svo eitt sinn á þessum tíma samferða einum skólabróðir mínum niður í Versló í löngu frímínútunum, en hann hafði sýnt hljómsveitarbrölti okkar mikinn  áhuga og ég er ekki frá því að hann hefði gjarnan viljað munstra sig inn í hópinn. Á leiðinni spjölluðum við um eitt og annað eins og gengur og ég sagði honum meðal annars að það vantaði nafn á hina verðandi hljómsveit. Hann svaraði því til að það þyrfti nú ekki að vera svo mikið vandamál því hann ætti frábær og alveg ónotuð hljómsveitarnöfn á lager, enda mikill áhugamaður um tónlist og tónlistarflutning. Ég gerðist auðvitað forvitinn og vildi endilega fá að heyra nokkur dæmi, en hann varð þá svolítið drýgindalegur og sagðist vilja grufla svolítið fyrst. Á morgun skyldi hann samt vera tilbúinn með nokkrar góðar tillögur handa mér sem ég gæti síðan lagt fyrir hópinn. Mér leist ekki illa á það því allar ábendingar voru vel þegnar og alveg sérstaklega ef þær væru góðar. Strax morguninn eftir fyrir fyrsta tíma vildi ég svo fá að heyra nokkur dæmi, en hann bað mig nú að vera rólegan því löngu frímínúturnar væru alveg gráupplagðar til slíkra umræðna. Ég mátti því sitja fyrstu tvo tímana af mér áður en ég ætti þess kost að fá svalað ört vaxandi forvitni minni. En þar kom að við gerðum okkur klára í röltið niður í Versló og nú vildi ég fá að heyra þessar boðuðu tillögur. Við röltum af stað og hann varð mjög ábúðarfullur á svipinn og sagði fátt í fyrstu. Ég spurði hann ítrekað út í nafnalagerinn, en hann var lengi að koma sér að efninu. Að lokum þegar við vorum a.m.k. hálfnaðir niður í bæ setur hann loksins upp sinn spekingslegasta svip og spyr mig hvernig mér lítist á kúlur.

"Hvernig kúlur" spyr ég á móti og veit ekki alveg hvert hann er að fara. Skyldi hann ætla að kaupa sér tyggjókúlur hjá Geira í Versló?

"Nei ég meina Hljómsveitin KÚLUR" hélt hann áfram og glotti út í annað vegna barnslegs skilningsleysis míns.

"Ha" hváði ég og var alveg viss um að hann væri að gera svolítið grín að mér og ætti eftir að koma með stóra smellinn.

"Já, hljómar það ekki bara vel? Hljómsveitin KÚLUR leikur í kvöld í Æskó, - mætum öll."

Ég sá nú að honum var fúlasta alvara og fór að hugsa til þess hvernig hægt væri að loka umræðuna umræðunni án þess að valda honum sálartjóni, því ég var nú búinn að átta mig á að málið var honum verulega hjartfólgið og hann var innilega sannfærður um ágæti hugmyndarinnar.

"Þú segir nokkuð" sagði ég hægt og var nú orðinn svolítið áhyggjufullur því ég vissi vel að þessi skólabróðir minn átti það til að vera svolítið viðkvæm sál ef á móti blés.

"Voru einhverjar fleiri góðar hugmyndir í gangi?"

"Ja, það var eiginlega bara ein önnur sem mér fannst virkilega góð. Hvernig líst þér á GANGAR. Hljómsveitin GANGAR, ha. Hljómar það ekki líka ágætlega?"

Ég svitnaði lítillega á enninu og var eiginlega sleginn út af laginu og vissi alls ekki hverju ég ætti að svara.

"Þú segir nokkuð" sagði ég að lokum eftir langa umhugsun og alveg jafnlanga þögn.

"Já, hvernig líst þér á?"

Við höfðum þegar þarna var komið sögu skyndilega eins konar hlutverkaskipti hvað varðaði vörn og sókn. Ég sá út undan mér að eftirvæntingin hafði tekið sér bólfestu í andliti hans, en framundan hjá mér var ekkert annað en bullandi vörn. Ég hugsaði með mér að líklega fyndist honum hálfur sigur unninn með því að geta sagt hverjum sem heyra vildi að hann hefði "fattað upp á nafninu" á bandinu fyrst hann fékk ekki að vera með í því. Ég skynjaði að ég var kominn í þess konar klemmu sem ég yrði að losa mig úr sem fyrst og það þyrfti að gerast með mikilli lægni og nærgætni.

"Þú segir nokkuð" endurtók ég, en hann beið ennþá óþreyjufullur eftir áliti mínu á hugmyndum sínum. Líklega var skásta leiðin úr því sem komið var, að reyna að hluta væntanleg vonbrigði hans niður í smærri einingar því þannig yrðu þau að öllum líkindum léttbærari.

"Sko þetta er ansi merkilegt" sagði ég og undirbjó fyrstu lotu.

"Það var einmitt búið að stinga upp á þessu með KÚLUR, en sumir vilja endilega að hljómsveitin heiti HENDRIX."

Ég sá að þessi innkoma hafði strax slæm áhrif svo ég ákvað að bakka aðeins til baka.

"Mér finnst reyndar KÚLUR betra en GANGAR en ég skal nú samt koma hugmyndinni að á næstu æfingu. Annars er ekkert er ákveðið ennþá svo allt getur gerst."

"Og hvenær er svo næsta æfing?" Vinurinn var óðamála og var búinn að varpa fram spurningunni áður en ég náði að ljúka við síðustu setningu.

"Hún er í kvöld" svaraði ég eins og satt var og vissi nú að umræðunni yrði alveg örugglega fram haldið morguninn eftir þar sem hart yrði gengið eftir niðurstöðu í stóra nafnamálinu.

"Viltu kannski að ég mæti og tali við strákana um nafnið?"

"Neeeei, það er alveg óþarfi" svaraði ég og snaraðist inn í Versló.


Um kvöldið sagði ég strákunum frá vandræðum mínum og þeir áttu greinilega mjög erfitt með að hemja fölskvalausa gleði sína. Þeir ýmist örguðu úr hlátri eða glottu allan hringinn. Mér var hins vegar ekki hlátur í hug því ég vissi að ég þyrfti að vinna í málinu til lengri tíma og finna því þann farveg sem leiddi til farsælla endaloka þess.

Morguninn eftir var svo auðvitað beðið eftir mér á tröppunum og ég vissi alveg hver spurningin yrði.

"Hvað sögðu þeir um nöfnin sem ég benti þér á í gær?"

"Það var nú eiginlega ákveðið að ákveða ekkert strax, því við erum hvort sem er nýbyrjaðir að æfa og ekkert að fara að spila neitt alveg á næstunni."

Ég sá að það dofnaði yfir hugmyndasmiðnum og ég er ekki frá því að það hafi myndast örlítill vottur af skeifu á andlitinu.

"En mér fannst þeir vera samt nokkuð jákvæðir," bætti ég við sem var á vissan hátt alveg satt.

Brúnin lyftist örlítið aftur og ég fékk að heyra að það yrði þá bara fylgst með málinu, en það var einmitt það sem ég vissi að myndi alveg örugglega verða gert.

Það varð líka þannig og alveg svikalaust, því næstu daga á eftir var spurt út í málið að minnsta kosti einu sinni á dag. Ég ítrekaði þá alltaf það sem ég hafði áður sagt þ.e. að engin ákvörðun yrði tekin í bráð, en stundum bætti ég því við að einn hljómsveitarmeðlimurinn væri mikið í mun að HENDRIX yrði fyrir valinu því hann væri mikill aðdáandi meistarans.

Leið nú fram á veturinn og til allrar hamingju fjaraði málið út smátt og smátt þar til það sofnaði alveg undir vorið.




Hljómsveitin HENDRIX 36 árum síðar.

Það var svo ekki fyrr en haustið eftir að hljómsveitin HENDRIX spilaði á sínu fyrsta balli í ÆSKÓ. Þar var vinurinn mættur, en eftir ballið gaf hann sig á tal við mig.

"Ég sé að þið hafið valið HENDRIX" sagði hann.

"Jú, jú. Kannski má segja að við tveir höfum tapað í baráttunni en svona er nú lífið."

"Já, svona er nú lífið" endurtók hann og glotti aulalega út í annað.

"Kannski er bara ágætt að eiga gott ónotað hljómsveitarnafn á lager því ég er að hugsa um að stofna hljómsveit sjálfur."

Því er svo við að bæta að atvinna nafnasmiðsins í dag er mjög tónlistartengd og þykir hann alveg sérlega frambærilegur á sínu sviði.



En ég ætlaði reyndar að skrifa svolítinn stúf um hljómsveitina FEÐGANA.

Um kvöldið hringdi ég í Axel meðspilara minn og sagði honum þau tíðindi að hljómsveitin FEÐGARNIR ættu að spila á Catalinu í kvöld. Nafngiftin segði mér að annað hvort væru þarna miklir húmoristar á ferð eða þá hreint ótrúlegt hallærisdæmi.

Væri málið ekki svo lítið forvitnilegt og full ástæða til að kíkja við og hlusta á eins og tvö eða þrjú lög?

Hann var eiginlega sammála skoðunum mínum í öllum atriðum og fannst nafngiftin vissulega svolítið á sérkennilegri nótunum. Það varð því úr að við litum inn rétt upp úr eitt og hittum þannig á að um leið og við gengum inn úr dyrunum var hljómsveitin sem reyndar er dúó, að fara í pásu. Eftir drykklanga stund mættu þeir aftur og hófu leik sinn. Þeir áttu greinilega ekkert erfitt að ná fólki út á gólf, en hvorki fór mikið fyrir húmor né hallæri eins og ég bjóst við. Þetta voru eiginlega bara tveir karlar að syngja og spila eins og gengur og fórst það alveg þokkalega vel bæði úr hendi og barka. En okkur félögunum dvaldist hins vegar lengur á staðnum en upphaflega stóð til eða allt fram yfir síðasta lag. Og ástæðan var jú auðvitað sú að það var bara ansi gaman. Þarna voru allir að heilsa upp á okkur og nú var hægt að spjalla við fastagesti staðarins sem við höfum hingað til aðallega séð hringsnúast á gólfinu fyrir framan pallinn.


Ég hef heyrt tvennar sögur af tilkomu nafngiftarinnar en svo sem ekkert fengið staðfest í þeim efnum, enda slétt sama.

Önnur útgáfan er sú að upphaflega hafi þetta verið fjögurra manna hljómsveit sem samanstóð af tvennum feðgum sem hlýtur að teljast nokkuð einstakt. Með tíð og tíma hafi mönnum svo fækkað, þ.e. annar sonurinn og hinn pabbinn ef svo mætti segja en enginn bæst við í staðinn. Eftir standi þessir tveir úr sitthvorum helmingnum, þ.e. þeir séu í raun alls ekki feðgar þrátt fyrir að vera nauðalíkir hvor öðrum. Engu að síður hafi verið ákveðið að halda nafninu og meira að segja hafi það verið prentað á hljómsveitarbolina eins og má sjá ef vel er gáð.

Hin útgáfan er sú að þetta sé saga sem þeir hafi sjálfir komið af stað í auglýsingaskyni. Þeir séu vissulega feðgar eins og greinilegt sé. Eina vafamálið sé bara hvor er pabbinn og hvor sonurinn.

Mér finnst þær báðar bráðskemmtilegar.



Jobbi (Prestley) var mættur, brosti sínu blíðasta þegar hann sá okkur og tók á móti okkur með útbreiddan faðminn.



Taktu mynd af okkur heyrðist úr einu horninu. Ég skaut út í loftið með það sama - og hitti...



Þetta par lítur undantekningalítið inn og heilsar þá innilega upp á okkur og helst með handabandi verði því við komið. En þau stoppa yfirleitt stutt við því þau eru mjög ráðdeildarsöm og nota gjarnan nótiina í að tína flöskur og dósir, eða það sögðu þau mér. Svo var því bætt við að það yrði lítið um svefn nú eins og oft áður því í morgunsárið færu þau síðan að bera út fréttablaðið.



Þetta par kom alla leið frá Keflavík til að "finna sig" á Catalinu.



Jói á hjólinu mætir flestar helgar í réttum búning og nýtur talsverðrar kvenhylli.



En sumir gestir eru hversdagslegrin en aðrir og lita staðinn jafn sterkum litum með nærveru sinni einni saman.
Gerða sem er önnur staðarstýran vildi fá sér eins og einn snúning með Axel sem svaraði með vel þekktum frasa. - Strákar dansa ekki, stelpur dans. En ég er hins vegar góður á loftgítar. 
Og þau fengu sér þá bara öllara saman í staðinn.



En mér hlotnaðist sá heiður að dansa við Birnu eins og tvö lög áður en ég skilaði henni til næsta. En Birna er einn af föstustu gestum staðarins.



En um helgina sem er að ganga í garð verðum það við (VANIR MENN) sem stígum aftur á pallinn á henni Catalinu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317483
Samtals gestir: 34750
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 08:39:27
clockhere

Tenglar

Eldra efni