06.02.2009 00:56

Óttar Bjarnason - minning.

                     
                      (Óttar Bjarnason - Úr ljósmyndasafni Siglufjarðar.)

536. Snemma á sjöunda áratugnum hófum við sem fædd erum árið 1955 norður á Siglufirði, skólagöngu okkar í barnaskólanum niðri á eyrinni. Einn af þeim sem þar mætti til að nema fræðin og gerast ferðafélagi okkar hinna á lífsins braut var Óttar Bjarnason. Til að byrja með fór ekki mikið fyrir honum, en eftir á að hyggja erum við ekki frá því að hann hafi verið feimnari inn við beinið en margur hugði þegar frá leið. En það átti eftir að breytast því með tíð og tíma óx hann af kerskni sinni og grallaraskap okkur krökkunum oftar en ekki til óblandinnar ánægju, en kennurum okkar öllu minna.

 

Eftir að samveruárin voru að baki og skólagöngu okkar á Siglufirði var lokið, þynntist hópurinn á heimslóðunum eins og gengur og mörg okkar héldu á braut, ýmist til starfa eða náms. Óttar fór ekki langt, heldur settist að á Sauðárkróki sem var svo mjög í leiðinni fyrir okkur sem bjuggum á suðvesturhorninu. Ósjaldan kom það því fyrir að eitthvert okkar rak inn nefið hjá honum og Gunnu þegar við áttum leið hjá og það er ekki ofsagt að þau hafi verið hinir mestu höfðingjar heim að sækja.

 

Árið 1995 hittist hópurinn á Sigló. Mæting var með ólíkindum góð og við sem stóðum þá á fertugu eyddum saman einni helgi, rifjuðum upp horfnar stundir og gamlar prakkarasögur. Ekki er ég frá því að nafn Óttars hafi oftar verið nefnt til sögunnar í þeirri upprifjun en margra annarra. Og þegar farið var yfir þessar gömlu skólasögur, er óhætt að fullyrða að sá hluti þeirra sem að honum snéri hafi vakið einna mestu kátínuna, verið uppspretta mestrar gleði og hlátraskalla og brosin í augnkrókunum eftir þær hafi lifað lengur. Af þessum toga voru bernskuminningarnar sem tengdust bekkjarbróður okkar og samferðarfélaga á uppvaxtarárunum. Þarna var líka hljómsveitin okkar frá Gaggaárunum endurvakin, en í henni gegndi Óttar veigamiklu hlutverki. Hápunktur tónleikanna sem hún hélt okkur var án efa þegar Óttar söng "Sem lindin tær" fullum hálsi og fór létt með það, en það var eitt af hans uppáhaldslögum alla tíð.

 

Tíu árum síðar kom hópurinn svo aftur saman og að þessu sinni í sumarbústaðnum þeirra Óttars og Gunnu. Í þessari gróðursælu vin sem er eins og lítið herrasetur, þessu skjóli frá erli dagsins sem er byggt upp af svo mikilli eljusemi og fagurlega blómum skrýtt. Þá komumst við að því hversu græna fingur Óttar hafði sem var alveg nýtt fyrir okkur. Við horfðum í kring um okkur á alla dýrðina sem við blasti og mörg okkar uppgötvuðu þarna nýja hlið á okkar manni sem sífellt gat átt það til að koma á óvart. Í þessari litlu Paradís áttum við svo góða stund og þegar leið á nóttina mátti heyra glaðan söng bergmála í fjöllunum í kring, en mest og best heyrðist þó í forsöngvaranum og herra staðarins.

 

Eftir að þau Óttar og Gunna fluttu suður urðu þau auðvitað strax ómissandi þegar kom að starfsemi saumaklúbbs árgangsins, en hann hefur starfað óslitið áratugum saman. Þannig hlaut það líka að verða, því þessi heiðurshjón voru svo drífandi og félagslynd í eðli sínu. Þegar árgangurinn kom saman fyrir fáeinum dögum, var rifjaður upp "hittingur" fyrir tveimur árum á heimili þeirra í Kópavoginum. Það var auðvitað góður og skemmtilegur dagur eins og allir aðrir slíkir þegar þessi ágæti hópur hittist, en Óttar hafði bakað risastóra súkkulaðiköku sem hann bar á borð fyrir okkur. Þegar horft er til baka var ekkert okkar í hinum minnsta vafa um að þarna hafði verið framreidd sú besta súkkulaðikaka sem nokkurt okkar hafði á æfinni smakkað. Já, honum var margt til lista lagt honum Óttari Bjarnasyni.

 

Óttar er fimmti bekkjarbróðirinn sem hefur nú kvatt okkur og flutt sig um set yfir á annað tilverustig. Við munum sakna hans sárt og getum illa fengið skilið ástæður þess að sumir eru kvaddir til svona allt of snemma. Svo fyrirvaralaust og óvænt þegar lífskrafturinn svellur og á gleðinni yfir því að vera til er engan bilbug að finna. Við kveðjum vin okkar og bekkjarfélaga, vottum Gunnu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur.

 

Árgangur 1955 Siglufirði.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 219
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316651
Samtals gestir: 34540
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 10:58:47
clockhere

Tenglar

Eldra efni