02.05.2009 09:20

SMS-skilaboð, íbúð í gíslingu, rúðubrot,óhóflegt ísát og vandræðagangur í umferðinni563. Skömmu eftir að klósettfréttin (hér að neðan) birtist á Mbl-inu fékk ég talsvert af sms-skilaboðum þar sem mér var m.a. bent á að ég hefði alveg mátt raka mig og greiða  "ljósa" hárið fyrir viðtalið, en aðallega þó baráttukveðjur með ósk um málið fái "farsælan endi". Ég vildi bara segja: Takk fyrir það.
Fyrir rúmu ári síðan keypti ég litla íbúð í húsinu við Bergþórugötu 51 í Reykjavík. Þannig háttar til að eina snyrtingin sem hún hefur aðgang að er staðsett í sameign hússins og er því á forræði húsfélagsins sem ber lögum samkvæmt að halda því í viðunandi ástandi. Þegar ég keypti íbúðina var ástand snyrtingarinnar svo slæmt að hún var með öllu ónothæf vegna langvarandi vanrækslu á viðhaldi. Ég fór því fram á það við húsfélagið að endurbætur yrðu gerðar en því var hafnað. Ég bauðst til að gera nauðsynlegar endurbætur á minn kostnað en því var einnig hafnað. Ég bauðst þá til að kaupa rýmið sem snyrtingin er staðsett í en því var hafnað eins og öðru.

Að lokum tjáði stjórn húsfélagsins mér að vilji stæði til að loka hreinlætisaðstöðunni endanlega, en slík aðgerð hefði gert íbúðina svo gott sem verðlausa. Ég kærði þá málið til Kærunefndar fjöleignarhúsamála sem úrskurðaði mér í vil og að lög hafi verið brotin. Sá úrskurður hefur nú legið fyrir síðan í október 2008 án þess að neitt hafi verið aðhafst að hálfu húsfélagsins og þrátt fyrir fjölmargar ítekanir af minni hálfu sem hefur yfirleitt ekki verið svarað. Íbúðinni hefur því í raun verið haldið í gíslingu og það þarf auðvitað ekki að taka það fram að fjárhagslegt tjón er orðið verulegt og óhagræði mikið eins og gefur að skilja vegna aðgerða eða öllu heldur aðgerðaleysis húsfélagsins.

 

Ég hef fram til þessa vonast til þess að sú lausn fyndist á málinu sem allir gætu sætt sig við en er nú orðinn vondaufur um að það gerist. Þolinmæðin er á þrotum og ég er svo sem ekkert mjög hissa á sjálfum mér að þessu sinni, því ég held að hún hafi enst mun lengur en oft áður.

En þess vegna hafði ég m.a. samband við fjölmiðla, en tveir þeirra sýndu málinu áhuga og fjölluðu um það þ.e. Mbl.is og Visir.is. Næsta skref hlýtur svo að vera að fara með málið fyrir dómstóla. Slóðin á frétt visir.is er http://www.visir.is/article/20090507/FRETTIR01/111374271 en http://mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/24450/ á Mbl.is
Auli getur maður verið
, en stundum gleymist hreinlega að hugsa. Ég var eins og sjá má að flytja þvottavél í bláa smábílnum, en vegna smæðar hans var ekki hægt að koma gripnum nægilega vel fyrir. Hann (gripurinn) eða (hún þvottavélin) stóð því út úr að aftan svo ekki var hægt að loka hleranum. En auðvitað gleymdist slíkt smáatriði og þegar hann skelltist aftur kurlaðist rúðan í smátt.
Það var því ekki um annað að ræða en að staga í gatið með því sem nærtækt og nýtilegt. En nú spurning hvort borgar sig að fá nýja rúðu eða hlerann með öllu saman á partasölu. Og þá verður spurning hvort sá litli blái verður rauður, hvítur eða áfram blár í afturendann.

Og enn og aftur... Auli get ég verið!
Mér finnst ís góður og þess vegna fæ ég mér oft ís. Kannski of oft, því það er með ólíkindum hvað ísát mitt er oft í umræðunni í kring um mig. Ég fæ það stundum á tilfinninguna að það sé verið að reyna að koma einhverjum ábendingum til mín á nærgætinn og jafnvel allt að því diplómatískan hátt. En þar sem ég er í talsverðum vafa um hvort svo er, held ég mínu striki og læt þessa freistandi mjólkurafurð í ótal  bragðtegundum svo og öllum stærðum og gerðum njóta vafans

 

Nýlega var opnuð ísbúð í Garðabæ rétt við Hafnarfjarðarveginn og skammt fyrir neðan Garðatorg. Það er því oftlega mikil freisting að staldra við á þessum nýja áningarstað því þarna er úrvalið í meira lagi. Þar fæst m.a. bananaís úr vél sem er mikil nýlunda fyrir mér og bragðast afburðavel bæði með með lúxus og lakkrísdýfu.  

 

En svo er önnur ísbúð vestur á Hagamel og þar fæst ís sem er engum líkur, því hann er einfaldlega hvergi seldur annars staðar. Ég er mikill aðdáandi hans og á það til að skreppa í bíltúr úr suðurbæ Hafnarfjarðar í vesturbæ Reykjavíkur til þess eins að fá mér akkúrat þannig ís. Stundum er reyndar svo löng biðröð þarna að röðin nær út úr dyrunum og langt út á gagstétt, en þar sem ég er ekki mikið fyrir biðraðir hverf ég frá í þau skipti en kem þá gjarna aftur næsta dag til að "ljúka erindinu".

 

Um helgina lagði ég einmitt upp við annan mann í slíka vesturbæjarferð, en þegar ekið var í gegn um Garðabæinn varð freistingin skynseminni yfirsterkari og það var því staldrað við í ísbúðinni í Garðabæ. Þaðan var svo haldið vestur í bæ og það stóð á endum að búið var að koma Garðarbæjarísnum fyrir þegar rennt var í hlað á Hagamelnum. Þar var keyptur annar ís sem kláraðist auðvitað á bakaleiðinni. Í Garðabænum spurði ég farþegann hvort við ættum að líta aftur við "á hinum staðnum" í bakaleiðinni en fátt varð um svör sem hentuðu mér að þessu sinni.

Ég staldraði því við en náði samkomulagi við sjálfan mig um að lítill ís væri það sem dygði mér að þessu sinni. Þegar út í bíl kom var mér bent á að líklega vantaði sárlega einhver úrræði eða jafnvel meðferð við ísfíkn.Hinn síðasta dag aprílmánaðar var umferð eins og hún gerist mest á föstudegi, enda rauður dagur framundan eða hinn hálfheilagi fyrsti maí. Síðdegis þennan dag átti ég leið til Reykjavíkur um gatnamótin í Engidal þar sem eru mörk Hafnarfjaðrar og Garðabæjar. Þar hafði orðið að því er mér virtist svolítið klaufalegur árekstur sem sjá má á myndinni hér að ofan og ég tók í gegn um framrúðuna þar sem ég beið á rauðu ljósi. Tjón var greinilega sáralítið og allir virtust hinir sprækustu þannig að ekkert benti til þess að slys hafi orðið á fólki. En vandræðagangurinn var hins vegar mikill og bílstjórar og farþegar gengu fram og til baka, töluðu í gemsana sína og funduðu þarna á staðnum með talsverðu handapati. Það kom grænt ljós og ég smokraði mér framhjá og hélt mína leið.

Ég lauk erindi mínu í Reykjavík og hélt til baka u.þ.b. hálftíma síðar. Flest var óbreytt á árekstrarstaðnum. Vandræðagangurinn og stressið var síst minna en áður, gemsar voru hátt á lofti og ökumenn og farþegar eigruðu um og skiptust á skoðunum með ýktum handahreyfingum. En nú hafði einnig myndast umferðarhnútur með hinu hrollvekjandi Frýgverska Gordionslagi.

Kannski hafa þetta verið Ítalir eða Frakkar. - Æ, æ...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123219
Samtals gestir: 297265
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 17:17:50
clockhere

Tenglar