02.05.2009 18:38

Um tilgangsleysi og endalok alls564. Ég hef rekist á nokkrar heimsendaspár nýverið sem valda mér talsverðum ugg í brjósti. Til þessa hefur slíkt og því um líkt ekki orðið að trufla vangaveltur mínar og þankagang, en núna er einhverra hluta vegna allt sett fram með þeim hætti að ekki er hægt annað en að taka þessar kenningar alvarlega.

 

Auðvitað hafa alltaf verið að koma fram vafasamir boðberar uppdiktaðra og heimatilbúinna tíðinda sem spáð hafa fyrir um endalokin svo langt aftur í tímann sem heimildir eru til um. Fæstir þeirra hafa getað stutt kenningar sínar vísindalegum og illhrekjanlegum rökum, en bera gjarnan við vitrun eða dularfullri upplifun þar sem þeir hafa meðtekið boðskapinn á einhvern óútskýranlegan hátt. Yfirleitt hafa verið á ferðinni falsspámenn sem boðuðu hið endanlega svartnætti í því skyni að öðlast völd og virðingu, komast í aðstöðu til að gerast fjölkvænismenn eða jafnvel aðeins til að auðgast. Þeim hefur oft tekist að safna um sig hirð hinna einföldu, trúgjörnu og leitandi, öðlast yfir þeim vald og undantekningalítið farið illa með það. En eftir á að hyggja er ég ekki viss um að þessum myrku prédikurum hafi alltaf verið fullkomlega sjálfrátt og þeir hafi jafnvel oft trúað þeim boðskap sjálfir sem þeir fluttu vesælum og fáfróðum áhangendum sínum. En hugmyndafræðin hefur oftast verið grundvölluð á forneskju og svartagaldri, hjátrú og hindurvitnum.

 

En nú eru runnir upp nýir og vonandi betri tímar og fólk er almennt meðvitaðra og upplýstara. Nútíma vísindi hefðu líka eflaust getað sýnt fram á að heimsendaspámenn fyrri tíma hafi ekki alltaf verið heilir á sálinni, vitranir þeirra gætu verið komnar til vegna ofneyslu eitraðra sveppa eða bráðaímyndunarveiki vegna sjúklegrar myrkfælni. En nýjum tímum fylgja líka nýjar kenningar og því miður einnig heimsendaspár. Að þessu sinni eru þær studdar rökum sem erfiðara er að hrekja og reyndar í mörgum tilfellum sýnist mér það vera með öllu ógerlegt. Nú er ekki hrópað um hálfvolga uppvakninga eða hringlandi beinadrauga, heldur endanlega eyðingu jarðar og alls þess sem lifir. Í þokkabót tala sumir vísindamenn um heimsendi eins og ekkert sé í sjálfu sér eðlilegra og sjálfsagðara, allt muni þetta gerast af náttúrulegum og eðlilegum örsökum.

 

Ég finn þyngslin leggjast ofan á axlirnar, mér verður erfiðara um andadrátt og hjartað slær þyngri högg og færri en áður.

En þetta er ekki allt, því segjum sem svo að við getum lifað í voninni um að einhver breytan í hinni risastóru jöfnu sé röng hjá hinum sprenglærðu vísindamönnum og spádómurinn gangi ekki eftir, þá mun annar dómsdagur koma eftir þann fyrsta og síðan annar og annar og annar og annar...
Heimurinn eins og við þekkjum hann finnst okkur undantekningalítið alveg ógnarstór, en samt er hann eins og agnarsmátt sandkorn á óralangri strönd þegar hann er borinn saman við t.d. sólkerfið okkar. Það er svo eins og næstum því ósýnilegur depill í allri Vetrarbrautinni sem er sú stjörnuþoka sem það tilheyrir. Hún er síðan ekki nema meðalstór innan um þúsundir þúsunda eða miklu frekar milljónir, trilljóna, skrilljóna slíkra í alheiminum sem er endalaust að stækka.

 

Á efstu myndinni hér að ofan er jörðin ásamt þeim plánetum sem eru minni en hún þ.e. Mars, Venusi, Merkúr og Plútó. Á þeirri í miðjunni er svo hinum bætt við sem eru stærri en hún þ.e. Júpíter, Satrúrnus Úranus og Neptúnus. Á þeirri neðstu er svo sólin komin inn á myndina og stærðarhlututföllin eru vissulega ógnvekjandi í mikilfengleik sínum. Allt er þetta forgengilegt og allt mun þetta hverfa að lokum og leysast upp að lokum í eitthvað allt annað en það er í dag.

 

Allt hófst þetta með Miklahvelli en mun enda með Heljarhruni eins og það er kallað í heimsfræðinni sem er andstæða hins fyrrnefnda.
Á tímum Kalda stríðsins vofði sú ógn yfir mannkyni að það yrði hreinlega þurrkað út ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Eyðingarmáttur sprengjunnar er ólýsanlegur, fjöldinn og magnið er líka slíkt í vopnabúrum kjarnorkuveldanna að dugir til að eyða öllu lífi á jörðinni margsinnis. Þó að hafi hlýnað í samskiptum austurs og vesturs er þó ekki öll nótt úti enn því ýmis ríki þar sem stjórnmálaástand er óstöðugt eru að þróa þessi ógnarvopn.Hér að ofan er mynd af reikistjörnunni Maldek eins og menn ímynda sér að hún hafi getað litið út. En þær kenningar hafa komið fram að fyrir hundruðum milljóna ára þegar jörðin var enn óbyggileg hafi verið reikistjarna á braut umhverfis sólu milli Júpíters og Mars. Þar hafi á sínum kviknað líf og þróast með líkum hætti og á jörðinni, enda skilyrði svipuð og hér eru nú. Þarna hafi vitsmunaverur að lokum farið að fikta við kjarnorkuna en talsvert skort upp á að ná nauðsynlegum tökum á þeirri tækni. Það hafi að lokum leitt til þess að plánetan sprakk í tætlur, en á þesum slóðum er nú mikið smástirnabelti.

 


Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær halastjarna, smástirni eða stór loftsteinn mun hitta okkur fyrir. Reyndar eru alltaf að falla inn í gufuhvolfið einhver lítil brot sem eyðast þá gjarnan upp á leiðinni til jarðar, en talið er að sending sem er u.þ.b. 100 metrar í þvermál lendi á jörðinni að meðaltali einu sinni á öld. Síðast hefur það líklega gerst í Tunguska í Síberíu.
Vísindamenn hafa fundið nokkur smástirni sem gætu rekist á jörðina í nálægri framtíð. Í desember 1997, tilkynntu þeir um fund á smástirninu 1997XF11, sem væri ef til vill ekki í frásögur færandi nema hvað að samkvæmt fyrstu útreikningum átti það að fara framhjá jörðinni í aðeins 800.000 km fjarlægð þann 26. október, 2028. Þetta smástirni er nokkrir kílómetrar í þvermál svo það gæti hæglega valdið miklum usla stefni það á jörðina.

 

Árið 2086 mun smástirnið 2340 Hathor koma enn nær jörðu. Fjarlægð þess frá jörðu verður þá aðeins 880.000 km. Þrátt fyrir að fjarlægðin sé sem betur fer mikil, gætu þau að lokum rekist á jörðina í framtíðinni.

 

Dagsetningin 16. mars, 2880, veldur mönnum hvað mestum áhyggjum. Samkvæmt útreikningum nokkurra bandarískra stjörnufræðinga eru um 0,33% líkur, eða 1 á móti 300, á að smástirnið 1950DA rekist á jörðina þann dag. Þetta eru svo sem ekki ýkja miklar líkur í daglegu lífi en engu að síður 100 sinnum meiri en áður þekktist.

 

Áður en braut 1950DA var reiknuð út, voru líkurnar nefnilega 1 á móti 30.000 að 1 km smástirnið 2002CU11 rækist á jörðina 31. ágúst, 2049.

 

Svo er það smástirnið 433 Eros sem geimfarið NEAR lenti á í febrúar 2001. Eros mun ekki rekast á jörðina í nálægri framtíð en nýlegir útreikningar þykja hins vegar benda til þess að braut Erosar breytist oft, eins og margra annarra smástirna. Samkvæmt því eru líkurnar um 1 á móti 10 að eftir nokkur milljón ár eigi Eros eftir að rekast á jörðina. Eros er frekar stórt smástirni, um 35 km að þvermáli, en það er miklu stærra en fyrirbærið sem rakst á jörðina fyrir 65 milljón árum. Við þekkjum afleiðingarnar sem urðu þá að nokkru og því ættu afleiðingar árekstrar milli jarðar og Erosar líklega þær að lífið myndi að mestu þurrkast út.
(Gúgglað af vísindavefnum).
Eftir fjóra til fimm milljarða ára hefur sólin brennt öllu eldsneyti sínu sem er vetni. Þá mun hún stækka margfallt og þenjast út, fyrst breytast í rauða risastjörnu en síðar skreppa aftur saman í svokallaðan hvítan dverg sem verður þá á stærð við jörðina. Hún mun þó áður gleypa þær reikistjörnur sem eru næst henni þ.e. Merkúr og Venus. Óvíst er hvort hún nær einnig til jarðarinnar enda breytir það ekki miklu þar sem heimaveröld okkar verður þá fyrir löngu orðin lífvana kolbrunnin klettur.

 

Þegar þanferlið hefst mun hiti sólarinnar fara hækkandi. Og þegar það er komið nokkuð á veg, mun hitastigið á jörðinni vera orðið það hátt að hún verður orðin óbyggileg. En þá opnast jafnframt önnur leið sem hingað til hefur ekki þótt raunhæfur kostur. Við þessar breytingar hækkar einnig hitastig á Mars sem mun örugglega sleppa við að verða gleyptur að sólinni í dauðateygjum sínum. Ef vísindin verða komin á það stig að hægt verður að flytja jarðarbúa á milli þessara reikistjarna, gætum við framlengt líf okkar um e.t.v. einhverja tugi milljóna ára. En eftir að slokknar endanlega á sólinni mun Mars ásamt þeim reikistjörnum sem utar standa, verða dæmdur til eilífðarvistar í hinni víðáttumiklu geimfrystikistu alheimsins.

 

Og spurningin verður þá hvert við getum svo farið eftir að hafa gerst alvöru Marsbúar um tíma.
Í fjarlægri framtíð gæti komið sér vel að getað pakkað saman og flutt sig til nýrra og lífvænlegri heimkynna. Myndin gæti allt eins verið tekin seinni part dags árið 4.240.512.169 og sýndi þá Siglufjörð langt inni í framtíðinni.
Alpha Centauri er næsta sólkerfi við okkar en engu að síður ansi langt í burtu eða í 4.3 ljósára fjarlægð. Við kæmumst því ekki þangað með góðu móti nema að vera búin að þróa með okkur álíka tækni sem hingað til hefur aðeins verið þekkt í vísindaskáldsögum.

En Alpha Centauri er að því leyti frábrugðin okkar sólkerfi að þar eru þrjár sólir eða Alpha Centauri A, B og C. 
Alpha Centauri A er að mjög lík Sólinni okkar. Hún er jafnaldri hennar eða aðeins 5-6 milljarða ára gömul, hún er næstum því nákvæmlega jafn stór og hún er með sama hitastig og sólin 
Alpha Centauri B er hins vegar appelsínugul og helmingi daufari. Hún snýst í kringum A á 80 ára fresti. 
Alpha Centauri C er miklu minni og er það sem kallað er rauður dvergur. Birta hennar er aðeins 0,00006 af okkar sól.

 

En líklega verðum við að horfa lengra til með áfangastað því að flest bendir til þess að Alpha Centauri verði útbrunnin um líkt leyti og okkar sól.
Allt bendir til þess að skömmu eftir að slokknar á sólinni muni Vetrarbrautin rekast á aðra stjörnuþoku.
Sú heitir Andromeda og er talsvert stærri en okkar og raunar sú stærsta í okkar hluta alheimsins (Grenndarhópnum). Ég segi skömmu eftir, því tímamunurinn er ekki nema u.þ.b. einn milljarður ára sem er varla nema eins og örstuttur kaffitími á geimsögulegan mælikvarða.
Áreksturinn mun standa yfir í milljónir ára eða jafnvel milljónatugi. Að lokum mun Andromeda gleypa Vetrarbrautina og þar sem hún var áður mun allsherjartómið eitt verða til staðar. Ljós stjarnanna sem hana mynduðu munu slokkna eitt af öðru þar til ekkert verður eftir.
Í dag er Andromeda 2.5 milljarða ljósára í burtu sem er dágóður spölur, en er samt sú stjörnuþoka sem er næst okkar.


Ein stjörnuþokan gleypir aðra

Dvergþokur eru í miklum meirihluta í Grenndarhópnum. En þrátt fyrir að sumir af nálægustu nágrönnum Vetrarbrautar séu dvergþokur, er einungis hægt að greina þær í nokkuð stórum sjónaukum. Dvergstjörnuþokur eru nefnilega að jafnaði einungis fáein þúsund ljósár í þvermál og innihalda nokkrar milljónir eða best rúmlega milljarð af stjörnum. Til samanburðar inniheldur Vetrarbrautin milli 200 og 400 milljarði stjarna. Þar sem ekki er lengur stjörnumyndum í þessum litlu stjörnuþokum samanstanda þær einkum af afar gömlum stjörnum, sem lýsa ekki mjög sterkt.
En það er hreint ekki auðvelt að vera dvergþoka. Hinar þrjár stóru stjörnuþokur í Grenndarhópnum stjórna þeim með harðri hendi og margar af dvergþokunum eru svonefndar fylgdarþokur hinna þriggja stóru. Þær stóru éta síðan smám saman upp minni stjörnuþokurnar.
Það eru teikn um að Vetrarbrautin sé nú að gleypa í sig hvorki færri en þrjár af um 20 dvergþokur, sem eru á braut um hana líkt og gervihnettir. Þekktust þeirra er nefnd Bogamanns-dvergþokan. Hún uppgötvaðist árið 1994 og hlaut nafn sitt þar sem hún sást í átt við stjörnumerkið Bogamanninn, en þar er einnig miðju Vetrarbrautar að finna. Þessi litla stjörnuþoka er alveg hinu megin við miðjuna í meira en 70 þúsund ljósára fjarlægð frá sólu. Það eitt og sér gerir örðugt að skoða hana, en áhugavert má teljast að hún er nú á leið í gegnum skífu Vetrarbrautar af stjörnugasi og ryki. Ennþá hangir Bogamanns-dvergþokan nokkurn veginn saman. En þyngdarafl Vetrarbrautar hefur í milljarðir ára unnið að eyðileggingu hennar með því að teygja hana og toga til. Nú þegar má sjá hluta Bogamanns-stjörnuþokunnar, sem ógnarlangan stjörnutaum sem er meira en milljón ljósár að lengd og með massa sem nemur um 200 milljónföldum massa sólarinnar. Það má teljast eins konar kraftaverk að Bogamanns-dvergþokan hangi saman eftir að hafa verið á braut um Vetrarbrautina í milljónir ára. Kannski er að finna allnokkuð af hulduefni í þessari litlu dvergþoku, sem veitir henni óvenju mikið þyngdarafl og auðveldar henni gegn öllum líkum að hanga saman.
Nú á dögum þekkjum við fjölmarga stjörnuhópa sem umkringja Vetrarbrautina og þetta eru allt leifar af litlum dvergþokum, sem fóru of nærri Vetrarbrautinni. Svo seint sem árið 2003 uppgötvuðu stjörnufræðingar gríðarlegan taum af stjörnum, sem í 50 þúsund ljósára fjarlægð frá miðjunni snýst í hringi um Vetrarbraut.

Eftir einungis 5 milljarði ára mun Grenndarhópurinn hins vegar verða gjörbreyttur. Tvær stærstu stjörnuþokurnar, Vetrarbrautin og Andrómeda, hafa runnið saman í eina og að líkindum í millitíðinni hámað í sig fjölmargar dvergstjörnuþokur, sem finnast í dag. En þetta er ekki endalok sögunnar um Grenndarhópinn.
Hópurinn er nefnilega umlukinn öðrum stjörnuklösum. Einna nálægastir eru Maffeiklasinn og Höggmyndaklasinn, ásamt hinum miklu stærri Meyjaklasa. Sá síðastnefndi, sem er í um 50 milljón ljósára fjarlægð og inniheldur ekki minna en 2.000 stjörnuþokur, hefur gríðarleg áhrif á Grenndarhópinn. Margar stjörnuþokur Meyjarklasans eru verulega stórar, en ein þeirra virkar sem leiðsagnarþoka og liggur í miðjunni. Það er þessi risavaxna sporvölulagaða stjörnuþoka, M87, sem að öllum líkindum inniheldur 2 - 3 milljarði stjarna og hefur þvermál nærri milljón ljósárum. Bæði Vetrarbrautin og Andrómedra eru sem dvergvaxnar í samanburði við þennan risa.
M87 hefur ekki náð slíkri stærð með dvergstjörnuþokum einum saman, heldur hefur trúlega gleypt í sig stjörnuþokur á stærð við Vetrarbrautina. Vegna þenslu alheims dreifast stjörnuþokur í Meyjarklasanum í burt frá okkur með meðaltalshraða nærri 1000 - 11.000 km/sek, en þyngdaraflið frá þúsundum af stjörnuþokum í klasanum getur yfirunnið útþensluna, og útreikningar sýna að við munum á endanum dragast í átt að Meyjarklasanum og að lokum mun Grenndarhópurinn verða hluti að Meyjarklasanum.
Enn eru ekki öll kurl komin til grafar, því Meyjarklasinn er nefnilega undir áhrifum enn stærra safns af stjörnuþokum sem kallast Togarinn mikli (The Great Attractor). Við vitum harla lítið um hann, enda liggur hann dulinn að baki Vetrarbrautarinnar. En greina má eitthvað sem hefur áhrif á hreyfingu stjörnuþoka á gríðarlegu miklu svæði. Trúlega er um að ræða mikið samansafn tugþúsunda stjörnuþoka í kannski 250 milljón ljósára fjarlægð. Rétt eins og grenndarhópurinn mun dag einn verða hluti af Meyjarklasanum, þá mun Meyjarklasinn kannski í fjarlægðri framtíð ganga inn í Togarann mikla.
Og kannski kann sá einhvern tímann að vera gleyptur af enn stærra fyrirbæri.
(Gúgglað að Lifandi vísindi).
Seint á síðasta ári var ræst mikið mannvirki sem er staðsett nálægt Genf í Sviss, en framkvæmdir og allur undirbúningur hafði staðið árum saman. Það er á okkar mælikvarða risastór öreindahraðall 100 metra ofan í jörðinni þar sem reynt verður að líkja eftir því sem gerðist eftir miklahvell. Miklar deilur urðu vegna þessa verkefnis eins og við mátti búast og margir þ.á.m. ýmsir fræðingar á sviði eðlisfræði og skyldra greina gagnrýndu þar harkalega. Óttuðust þeir m.a. að tilraunin gæti orsakað "keðjuverkun dauðans" eins og það var orðað, sem myndaði síðan eins konar svarthol sem síðar leiddi til eyðingu jarðarinnar. Ein kenningin gekk m.a. út á að jörðin gleypti sjálfa sig og massinn þéttist svo mikið að hún yrði á eftir ekki nema tæpir 9 millimetrar í þvermál, en það er sá þéttleiki sem talið er að sé í svartholum.

 

Stóri sterkeindahraðallinn í CERN (enska "Large Hadron Collider", skammstafað LHC) er stærsti eindahraðall í heimi og sá eini sem gerður er til að hraða sterkeindum. Hann er staðsettur á landamærum Frakklands og Sviss nálægt Genf í Sviss.

Í hraðlinum er róteindum og blýatómkjörnum (sínum í hvorri tilrauninni) hraðað nálægt ljóshraða. Helmingur eindanna hverju sinni fer réttsælis en hinn helmingurinn rangsælis og eru þær síðan látnar rekast saman. Agnirnar sem verða til við áreksturinn eru síðan skoðaðar og eiginleikar þeirra.

Í júlílok 2008 náði allur hraðallinn rekstrarhitastigi sínu eftir áralangan undirbúning, 1,9K (-271,25°C) sem er 0,8° kaldara en meðalhiti alheimsins (örbylgjukliðarins).

Fyrstu róteindageislarnir voru sendir í gegnum göng hraðalsins þann 10. september 2008. Fyrstu orkumiklu árekstrarnir eru væntanlegir 6-8 vikum síðar en þó með aðeins um 10 TeV (tera-elektrónuvolt). Engir árekstrar verða prófaðir á fullum krafti hraðalsins (14 TeV fyrir róteindir) fyrr en árið 2009.

Heildarkostnaður verkefnisins til þessa er áætlaður 3,5 milljarðar evra eða u.þ.b. 450 milljarðar ISK.

(Gúgglað af Wikipedia).

 

Öreindahraðallinn í CERN sem er stærsti öreindahraðall sem smíðaður hefur verið var gangsettur í gær. Með hraðlinum verður núteinda mun auðveldara að rannsaka þau ferli sem eiga sér stað þegar öreindir rekast saman á hraða sem nálgast ljóshraða en þegar fullt af kemst á hraðalinn getur hann hraðað trilljónum róteinda í einu á allt að 99.99% af hraða ljóss.
Lengi hefur verið deilt um hvort smíði hraðalsins hafi verið réttlætanleg vegna hættu sem getur mögulega stafað af honum. Mest hefur verið talað um þann möguleika að svarthol gæti myndast sem afrakstur af notkun hraðalsins en talið er að gagnsetning hans hafi þaggað niður í svartsýnisseggjum, a.m.k. í bili.
Augljóst er að það er spennandi tími framundan í í eðlisfræði öreinda og því um að gera að fylgjast vel með.

(Gúgglað af RAF101)

 

Þann 08.08.08 mátti m.a. lesa í Viðskiptablaðinu frétt sem tekin var af vef BBC undir fyrirsögninni "Heimsendir á morgun".

Á morgun verður tveimur öreindageislum skotið í gagnstæða átt í öreindahraðli evrópsku öreindarannsóknarstofnunarinnar (CERN). Því hefur verið haldið fram að við gangsetningu hraðalsins, sem ætlað er að endurskapa aðstæður sem ríktu í geimnum skömmu eftir Miklahvell (e. Big Bang) myndist lítið svarthol sem stækkar þar til það gleypir jörðina.

Aðrir hafa nefnt þann möguleika að notkun hraðalsins hrindi af stað keðjuverkun sem breytir kjörnum atóma og veldur því að allt efni jarðar breytist og hún verði heit og lin klessa.

Eðlisfræðingar á vegum CERN hafa þó bent á að á undanförnum milljörðum ára hafi sambærilegir árekstrar atóma og verða í öreindahraðlinum átt sér stað um milljón sinnum. Því sé engin ástæða til að óttast heimsendi.

Talið er að lítið svarthol geti myndast við árekstur öreindanna, en að líftími þess yrði afar stuttur.

Eðlisfræðingur við Háskólann í Cambridge, dr. Adrian Kent, hefur þó haldið því fram í skrifum sínum að vísindamenn hafi enn ekki rökstutt nægjanlega vel að gangsetning hraðalsins geti ekki haft hamfarir í för með sér. Hann benti einnig á að spurningu um hveru ósennilegur heimsendir þarf að vera til að réttlæta að haldið sé áfram með tilraunina hafi aldrei verið svarað.

 

Þessi heimsendaspá hefur ekki enn gengið eftir og ekkert bendir til þess að svo verði. En merkilega hljótt hefur verið um tilraunina eftir að hún hafði staðið yfir í tiltölulega skamman tíma. Einhverjir hæfilega frjóir í hugsun hefðu talið það til marks um að verið væri að leyna einhverju og sett saman einhverja skemmtilega samsæriskenningu, en málið er e.t.v. farið að gleymast. Meira að segja hjá samsæriskenningasmiðum sem oft hafa þó sett fram lífseigar tilgátur.Kenningar hafa komið fram um að sólkerfið okkar stefni inn í svarthol en þó ekki alveg á næstunni. Það er þó ekki alveg ljóst hve margir milljarðar ára eiga að líða þar til sá atburður á að eiga sér stað. Þeir ógnarkraftar sem í slíku fyrirbæri búa eru eiginlega svo óskiljanlegir og fráleitir að manni finnst eins og má lesa úr tilvitnunum hér að neðan.

En ef jörðin sogaðist inn í svarthol myndi hún þjappast í litla kúlu sem væri aðeins 8,9 mm í þvermál en þyngd hennar yrði eftir sem áður hin sama.

 

Rannsókn stjörnufræðinga, sem hefur staðið yfir undanfarin 16 ár, hefur nú staðfest að það er risavaxið svarthol í Vetrarbrautinni, sem er sú stjörnuþoka sem jörðin tilheyrir.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að þýskir stjörnufræðingar hafi komið sér fyrir í í evrópsku stjörnuathugunarstöðinni í Chile til að fylgjast með hreyfingum 28 stjarna sem ferðast í hring um miðju Vetrarbrautarinnar.

Niðurstöður vísindamannanna voru birtar í vísindaritinu The Astrophysical Journal og þar kemur fram að svartholið sé fjórum milljón sinnum þyngri en sólin.

Einnig er talið að í miðju sumra vetrarbrauta og dulstirna sé að finna feiknastór svarthol, með milljón- eða jafnvel milljarðfaldan sólarmassa. Ekki er talið útilokað að eitt slíkt sé að finna í miðri vetrarbrautinni okkar, í aðeins 28.000 ljósára fjarlægð frá jörðu. Þessi svarthol eru annars eðlis en þau sem áður var lýst að því leyti að þau rekja ekki uppruna sinn til einnar sólstjörnu, heldur til stærri efnisklumpa, en að öðru leyti haga þau sér svipað.

(Gúgglað af Mbl.is).

 

Stjörnufræðingar "sáu" svarthol gleypa stjörnu. Tvær stjörnuskoðunarstöðvar hafa fundið fyrstu beinu vísbendingarnar um það hvernig svonefnt svarthol tætir í sundur og "gleypir" stjörnu sem lent hefur í gríðarlegum þyngdarkrafti svartholsins. Stjörnufræðinga hefur lengi grunað, að þetta eigi sér stað en sú kenning hefur aldrei fengist staðfest. Stjörnufræðingar urðu varir við öfluga röntgengeislasprengingu sem varð í miðju vetrarbrautar í um 700 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðu. Stjörnufræðingar telja, að lofttegundir frá stjörnunni hafi valdið sprengingunni eftir að þær hitnuðu um margar miljónir gráða við að dragast að svartholinu.

Stjörnufræðingar segja, að stjarna á stærð við sólina, hafi nálgast svartholið eftir að hafa breytt um stefnu við að fara of nálægt annarri stjörnu. Gríðarlegt þyngdarafl svartholsins, sem er talið hafa milljón sinnum meiri massa en sólin, hafi síðan teygt á stjörnunni.

"Þetta eru hin endanlegu átök Davíðs og Golíats en þarna beið Davíð ósigur," sagði Gunther Hasinger, stjarnfræðingur hjá Max Planck stjarneðlisfræðistofnuninni í Þýskalandi.
"Áhrifin eru svipuð og þau þegar tunglið togar í höfin á jörðinni en afleiðingarnar eru mun öflugri. Talið er að svartholið hafi gleypt um 1% af stjörnunni og þeytt afganginum út í geiminn."
"Aumingja stjarnan var á ferð í röngu borgarhverfi," sagði Stefanie Komossa, sem einnig starfar hjá Max Planck stofnuninni.
Stjörnufræðingar notuðu Chandra stjörnuathugunarstöð bandarísku geimferðastofnunarinnar og XMM-Newton röntgengeislaathugunarstöð evrópsku geimferðastofnunarinnar til að fylgjast með þessum atburði. Talið er svipaðir atburðir verði á um 10 þúsund ára fresti í venjulegri stjörnuþoku.

(Gúgglað af Mbl.is).

 

Þegar massinn hefur fallið saman í einn punkt verður þyngdarkraftur svo sterkur að ekkert innan ákveðinnar fjarlægðar frá miðju sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós. Vegna þess að ljós sleppur ekki í burtu verður fyrirbærið algjörlega ósýnilegt og skýrir það nafngiftina.
Mörkin þar sem þyngdarkrafturinn verður nógu sterkur til að gleypa ljós eru aðeins í örfárra kílómetra fjarlægð frá miðjunni. Við þessi mörk er sagt að lausnarhraðinn sé meiri en ljóshraði. Þau nefnast sjónhvörf (e. event horizon) og má líta á þau sem yfirborð svartholsins. Ástand hins óendanlega þétta efnis í miðjunni er vissulega undarlegt. Staðurinn þar sem þetta gerist nefnist sérstæða (e. singularity) en það orð er fengið úr stærðfræði og táknar meðal annars punkt þar sem fall stefnir á óendanlegt. Ástandið í þessum punkti er svo framandi að allar viðteknar hugmyndir vísindanna bregðast. Allt í kring eru tími og rúm sveigð vegna hins gífurlega massaþéttleika, í samræmi við forsagnir almennu afstæðiskenningarinnar. Í sérstæðunni sjálfri er sveigjan óendanleg, það er að segja að jafnvel tími og rúm hætta að vera til í þeirri mynd sem við þekkjum.
Segja má að allt sem varðar svarthol sé lyginni líkast. Sem dæmi má nefna það sem við sæjum ef við fylgdumst úr fjarlægð með geimfari nálgast svartholið. Vegna sveigju tímarúmsins myndi okkur virðast sem geimfarið færi alltaf hægar og hægar og ef við sæjum klukkur um borð í því myndi okkur virðast sem þær hægðu sífellt á sér. Þegar geimfarið næði jöðrum svartholsns (sjónhvörfunum)  myndi okkur virðast tíminn í geimfarinu líða óendanlega hægt þannig okkur virtist það standa í stað og því sæjum við það aldrei falla inn. Ef ólánsamur geimfari væri staddur um borð mundi honum á hinn bóginn ekki virðast tíminn hægja á sér enda hefði hann annað og verra við að glíma. Sá hluti hans sem félli á undan inn í svartholið myndi verða fyrir mun meiri þyngdarkrafti en aðrir líkamspartar, og þessir missterku kraftar mundu sundra honum í frumeindir og jafnvel sundra frumeindunum sjálfum. (Þessir kraftar eru hliðstæðir svokölluðum sjávarfallakröftum).
Þrátt fyrir ýmsa undarlega eiginleika svarthola hefur komið í ljós að ytri eiginleikum þeirra má lýsa með þremur stærðum, massa, rafhleðslu og hverfiþunga. Þessar stærðir, sem fræðilega ætti að vera hægt að mæla, eru einu eiginleikar svarthola sem birtast umheiminum, allar upplýsingar um innri gerð eru að eilífu glataðar. Vísindamenn orða þetta stundum þannig að svarthol séu hárlaus!
Ef svarthol sleppa ekki einu sinni ljósi frá sér, hvernig geta stjörnufræðingar þá fundið þau? Helsti möguleikinn er að greina áhrif hins mikla þyngdarkrafts þeirra á nágrennið, sem er hægt ef svartholið hefur fylgistjörnu. Þegar gösin frá fylgistjörnunni dragast inn í svartholið hitna þau. Áður en þau týnast endanlega í svartholinu geta þau orðið svo heit að þau gefa frá sér röntgengeisla. Með því að mæla slíka röntgengeislun hafa vísindamenn fundið fyrirbæri í vetrarbrautinni okkar sem telja má líkleg svarthol.

(Gúgglað að vísindavefnum).
Andefni, hvað er nú það?

Og auðvitað er ekki til nein mynd af andefni. Ein af þeim heimsendakenningum sem komið hafa fram, hafa á einhvern hátt með andefni eða þá orku sem í því felst að gera. Andefni á að vera eins konar önnur vídd efnis, öfugt hlaðin efniseind eða spegilmynd atómsins. Því hefur verið haldið fram að það hafi verið framleitt í lokuðu rými hjá CERN og vísindamenn fylgst með þegar efni og andefni eyddu hvort öðru og leystu við það gríðarlega orku úr læðingi. Þetta á að hafa opnað sýn inn í nýja veröld þar sem tíminn líður aftur á bak, hægri er vinstri og jákvætt er neikvætt. En þó vantar enn skýringuna á því hvers vegna heimur okkar er aðeins gerður úr venjulegu efni.

 

Einnig hefur því verið haldið fram (en þó án allra sannana) að við hliðina á okkar alheimi sé annar alheimur. Hann sé spegilmynd af okkar hluta og allt hérna megin eigi sér samsvörun hinum megin. Tengingin á milli þeirra sé í gegn um "holin" sem hérna megin eru svarthol en á hinum endanum hvíthol. Á milli þeirra liggi svo "ormagöng" en ekki sé ljóst hvaða tilgangi þau þjóna.

 

Svo má bæta enn einni kenningunni við, en þar er því haldið fram að við séum andefnismegin í þessum tveimur alheimum. Við séum ásamt öllu því sem í kring um okkur er, gerð úr eins konar "mínus" efni, þ.e. auðvitað andefni en við höfum bara enga möguleika á að átta okkur á því að svo er.

 

En svarið sem ég las á vísindavefnum þegar ég spurði un andefni var svohljóðandi:

Orkunni í andefninu er lýst með jöfnu Einsteins, E = m c2, þar sem E er orkan, m er massinn og c er ljóshraðinn. Þar sem hann er afar stór tala felst í þessari jöfnu að það þarf aðeins lítinn massa til að skapa mikla orku.

Ef við hugsum okkur stórt svæði í alheiminum sem væri alfarið gert úr andefni, þá yrðu öll fyrirbæri innan þessa svæðis næstum eins og í umhverfi okkar. Þar á meðal mundi þessi orka andefnisins breytast á sama hátt og orka efnisins kringum okkur, til dæmis í efnahvörfum, kjarnahvörfum og í hvörfum öreinda þar sem massi þeirra breytist í orku sem berst burt til dæmis sem rafsegulgeislun eða sem fiseindir sem eru því sem næst massalausar. Í þessum hvörfum breytist yfirleitt aðeins lítill hluti af fyrrgreindri massaorku efnis eða andefnis í aðrar orkumyndir.

Sérstaða andefnis kemur fyrst og fremst í ljós ef það er innan um venjulegt efni og andeindir rekast á samsvarandi eindir (jáeindir á rafeindir, andróteindir á róteindir og svo framvegis). Þegar það gerist breytist allur massi beggja eindanna, öll massaorkan, í aðrar orkumyndir. Þess konar öreindahvörf kallast almennt tvenndareyðing (pair annihilation) en raftvenndareyðing þegar um er að ræða rafeind og jáeind. Segja má að í tvennd eindar og andeindar felist hlutfallslega meiri umbreytanleg orka en í flestu öðru efni sem við þekkjum og það er ein ástæðan til þess að höfundar vísindaskáldsagna hafa rennt girndarauga til andefnisins sem eldsneytis í geimferðum.
Voru guðirnir geimverur? Er kannski og hefur alltaf verið vakað yfir okkur jarðarbúum af æðri (geim)verum og fylgst með hverri okkar hreyfingu? Þegar vandamálin vaxa okkur mönnunum yfir höfuð og við kunnum fá ráð okkur til bjargar, er sú leið oftlega farin að fela okkur æðri máttarvöldum á vald og sameinast í trúnni. Það skyldi þó aldrei vera að við verðum bænheyrð einhvers staðar í upphæðum og langt inni í ókominni framtíð, "æðri" verur komi þá siglandi á geimskipum sínum og sagan um Örkina hans Nóa endurtaki sig í nýrri og endurbættri útgáfu. Eða voru það kannski einmitt þessar verur sem komu okkur fyrir á jörðinni í upphafi þar sem við höfum síðan þróast og þroskast í nokkur árþúsund, þeim renni nú blóðið til skyldunnar og færi okkur því til í alheiminum vegna þess að heimkynni okkar séu nú komin að fótum fram?

En svo er líka til sagan um geimverurnar sem heimsóttu jörðina í árdaga, villtust frá skipi sínu, fundu það aldrei aftur og þess vegna erum við hérna enn.
Kannski þessu alveg öfugt farið, verurnar sem sagt er að sveimað hafi allt í kring um okkur áratugum eða öldum saman, rannsakað lífið á jörðinni en þó haldið sig til hlés, verða jafn ráðalausar og við gagnvart yfirvofandi Ragnarökum þegar þar að kemur. Þær munu jafnvel gera viljandi vart við sig og leita á náðir okkar mannanna í von um björgun kynstofnsins. Við ættum þá sameiginlegra hagsmuna að gæta og myndum eflaust reyna allar mögulegar og ómögulegar leiðir til að forða okkur frá hinum grimmilegu endalokum.

Hugsanlega yrði mögulegt að rækta nýja tegund eða framkalla stökkbreytingu og búa þannig til margfallt hæfari einstaklinga þar sem það besta frá hvorum stofni myndi renna saman í eitt. En líklega yrði þó viðhöfð önnur og mun tæknilegri aðferð við ferlið en myndin hér að ofan sýnir. Þessi nýja tegund ásamt viðbættum og ígræddum vélbúnaði af einhverju tagi ætti e.t.v. möguleika á að gera það sem fyrirrennararnir væru ekki færir um þ.e.a. ferðast um langa vegu í óravíddum geimsins og finna sér ný heimkynni.Í tilefni af 50 ára afmæli geimumferðarstofunnar NASA mun Bítlaslagarinn Across The Universe verða spilað um heiminn og geiminn.
Já þið lásuð rétt, í næstu viku ætlar NASA að streyma laginu út í geim og þá í átt til pólstjörnunnar.
Fyrrum bítillinn Sir Paul McCartney sagði að þetta væri frábært framtak hjá NASA og bætti við:"Skilið ástarkveðju frá mér til geimveranna"
Yoko Ono sagði:"Ég sé þetta sem byrjun á nýjum tíma, nýrri öld þar sem við verðum í samskipti við billjónir pláneta út í geiminum"
Laginu verður streymt að miðnætti mánudagsins 4.febrúar en aðdáendur Bítlanna eru beðnir um að taka þátt í þessu með þeim með að spila lagið á sama tíma.

(Monitor.is 02.01.08.)

Geimverurnar tala með skandinavískum hreim og koma hingað til að gera kornhringi. Það má alla vega lesa úr tilkynningu konu sem hafði samband við breska flugherinn í Suffolk til að tilkynna að hún hefði hitt geimveru. Tilkynninguna er að finna í skjölum sem bresk stjórnvöld hafa gert opinber.

Konan sagðist hafa verið úti að ganga með hundinn sinn þegar maður með ljóst hár kom upp að henni og byrjaði að ræða við hana. Hún sagði manninn hafa tjáð sér að honum þætti mikilvægt að tala við mannverur þó honum hefði verið bannað að gera það. Jafnframt hefði hann sagt að hann væri kominn til jarðar í friði og til að gera kornhringi. Ekki virðist hann þó hafa fengið tækifæri til að segja konunni til hvers kornhringirnir væru því hún flýði eins hratt og fætur hennar báru hana. Skömmu seinna segist konan hafa heyrt mikinn hávaða og séð fyrirbæri rísa til himins þar til það hvarf.

Skjölin um tilkynningar um fljúgandi furðuhluti sem hafa nú verið gerð opinber eru frá árunum 1987 til 1993. Atvikið að ofan er frá árinu 1988. Þremur árum síðar tilkynntu tveir flugumferðarstjórar á Heathrow að þeir hefðu séð svart fyrirbæri sem leit út eins og bjúgverpill. Það hafi í fyrstu verið kyrrt en síðan flogið í áttina að sólinni.

(DV. 22.03.09.)

 

Edgar Mitchell, fyrrum geimfari og tunglgöngumaður hjá NASA, sem meðal annars tók þátt í Apollo 14 leiðangrinum, heldur því fram að geimverur séu til.

Hann heldur því fram að geimverur hafi ofsinnis heimsótt jörðina en að yfirvöld séu búin að halda því leyndu í sex áratugi. Þetta kemur fram á vefnum news.com.au.

Mitchell sem er orðinn 77 ára gamall sagði í útvarpsviðtali fyrir skömmu að heimildarmenn hans hjá NASA hefðu haft samskipti við geimverurnar sem væru litlar og undarlegar á að líta.

Þeim svipaði í raun til þeirra geimvera sem oftast birtust í kvikmyndum, litlar verur með stór höfuð og stór augu.

Hann bætti því enn fremur við að tækni þeirra væri margfalt lengra á veg komin en okkar eigin og hefðu verurnar verið okkur fjandsamlegar væru við horfin veg veraldar.

Mitchell á met í tunglgöngu ásamt fararstjóra Apollo 14, Alan Shepard, og gekk á tunglinu í 9 klukkustundir og 17 mínútur í för þeirra 1971.

"Ég er í þeirri forréttindaaðstöðu að vita af þeirri staðreynd að við höfum fengið heimsókn hingað á jörðina og að það eru til geimverur," sagði hann.

Stjórnandi útvarpsþáttarins varð furðu lostinn yfir yfirlýsingum geimfarans.

"Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað geimfaragrín en honum var fullkomin alvara með að það væri til geimverur og það var ekki hægt að draga í efa."

(Mbl. 25.07.08)
Þó flest virðist ætla að verða á móti okkur í framtíðinni og hver stórbömmerinn feta í slóð þess sem á undan gengur þá hlýtur alltaf að vera von.

Ég hef auðvitað talsverðar áhyggjur af framtíðinni eins og gefur að skilja...

En eftir allar þessar hyldjúpu og á köflum súru pælingar, tel ég heppilegast að fara norður á Sigló í nokkra daga og leggjast í hugleiðslu. Kannski mér batni þar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123219
Samtals gestir: 297265
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 17:17:50
clockhere

Tenglar