16.05.2009 04:19

Vorferð á Sigló565. Ég var á Sigló í síðustu viku og tók þá svolítið til á háaloftinu á Aðalgötunni, en þar virðist vera alveg endalaust af gömlu dóti sem sumt kemur mjög svo kunnuglega fyrir sjónir eftir misjafnlega mörg ár. Eitt af því sem endaði að þessu sinni á gámasvæðinu var grindin undan Silver Cross barnavagninum sem þjónaði þrem strákum sem nú eru orðnir 27, 29 og 31 árs. Yfirbyggingin hefur ratað í einhverja allt aðra átt fyrir margt löngu svo fátt annað liggur fyrir en að afskrifa það sem eftir stendur alla leið ofan í núll.Þetta æfingatæki sem búið var að stilla upp á svæðinu virtist vera í góðu lagi, en af augljósum ástæðum (ef grannt er skoðað) er ekkert sérlega freistandi að tylla sér á það.Og ekki vantaði blíðviðrið á Sigló meðan allt ætlaði að fjúka um koll syðra og þannig var það alla dagana meðan ég staldraði við. Eftir að ég fór suður snérist allt við og blíðan varð alveg yfirþyrmandi syðra en þoka og lágskýjað nyrðra.Og þar sem ég stóð þarna fyrir ofan Jóhannslund í skógræktinni varð auðvitað ekki hjá því komist að skotra augunum upp í Skarð. Þar var greinilega ennþá talsverður snjór fyrir skíðaiðkendur og ég velti fyrir mér hvenær "skíðavertíðinni" lyki. Fyrir hálfri öld eða svo voru Skarðsmótin haldin um Hvítasunnuna ef ég man rétt svo hér hefur líklega snjóað áður.Þriðjudaginn 12. maí komu þeir Haukur Þór og Gunni Óðins við hjá mér á Aðalgötunni og buðu til grills. "Sjaldan hef ég flotinu neitað" og þáði ég auðvitað þetta góða boð með þökkum. Eftir forkeppnina í "Júró" var auðvitað almenn kæti með að "við" komumst áfram og eitthvað var minnst á gítar og létta slagara. En þá mundi heimafólkið eftir píanóinu sem var geymt á neðri hæðinni undir stiganum. Það var því ekkert annað tekið í mál en að sækja gripinn og fjórir stæltir strákar lögðu á brattann með píanóið á milli sín en það vóg sennilega eitthvað á fjórða hundrað kíló.Erfiðust var "beygjan" í stiganum, en eftir talsvert bras, allmikinn blástur og útúrspegúleraða verkfræðilega útreikninga tókst að koma gripnum alla leið upp á efra plan.Hljóðfærið reyndist hið besta þó það þyrfti að vísu stillingar við og það var sungið og spilað fram eftir kvöldi.Daginn eftir frétti ég á einu bryggjuröltinu að Guðrún Jónsdóttir væri komin í eigu Rauðku ehf. og yrði væntanlega dubbuð upp og gerð út á sjóstöng á næsta ári.En eins og gengur leið að því að "heimsóknartíminn" væri á enda runninn og á leiðinni úr bænum var auðvitað litið um öxl.Ég hafði því miður ekki notið góða veðursins eins og ég hefði helst viljað, því ég var lengst af uppi á háalofti að einangra þakið, plasta og lekta. Það vantar nefnilega talsvert svefnpokapláss fyrir sumarið því eitt og annað stendur til.

Og hinum megin fjarðar bar austurfjöllin við bláan himininn böðuð geislum kvölsólarinnar. Ég var farinn í bili en var ákveðinn í að vera aftur á ferðinni innan tíðar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 473
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123249
Samtals gestir: 297266
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 17:52:46
clockhere

Tenglar