30.06.2009 08:59

Norðurferð í júní - þriðji hluti



575. Frá Flugumýri lá leiðin aftur á Siglufjörð og upp á háaloft í smíðavinnu næstu dagana. Það miðaði vel þessa daga og háaloftið tók sífellt á sig meiri og betri mynd. Stundum var þó ekki annað hægt en að koma sér út úr rykinu um stund og einn daginn rölti ég út að Bátadokk. Þar hitti ég fyrir Guðbrand Ólafs og Bjössa Sveins og tókum við tal saman. Bar þá að Gunnar Trausta og Dóru Jónasar sem spurðu hvort ég ætlaði ekki að mæta í gönguna þá um kvöldið, en ég hváði því ég vissi ekki um neina göngu.
"Það verður gengið yfir Dalaskarð í kvöld, ætlarðu ekki að mæta"?
Gunnar talaði eins og allar aðrar ákvarðanir en sú "að mæta" yrðu teknar á röngum forsendum og ég fann fyrir einhverju sem flokka mætti sem afar kurteislegan þrýsting.
"Auðvitað mæti ég" svaraði ég svolítið hikandi.
Á leiðinni heim sá ég auglýsinguna í glugganum á Pizza 67 þar sem auglýst var Sólstöðuganga yfir Dalaskarð.
Mæting var kl. 20.30 og það var ekið inn að bílastæðinu í Mánárdalnum þar sem þeir félagar Þórður og Bjarki gerðu ítrekaðar tilraunir til að reisa sér sumarbústað á áttunda áratugnum.



Það var gengið inn Mánárdalinn og gönguleiðin var mjög vel merkt. Fyrir miðri myndinni hér að ofan er Hádegisfjall en hægra megin við það rís Illviðrishnjúkur.

Ferðin var farin á vegum Ferðafélags Siglufjarðar sem mér virðist eiga svolítið undir högg að sækja um þessar mundir þar sem starfsemin er borin uppi af örfáum áhugasömum einstaklingum. Það væru ill tíðindi ef það legðist af því tilvist þess er í eðli sínu heilsusamleg, félagsleg vítamínsprauta fyrir þátttakendur, mannbætandi hvernig sem á málið er litið og túristavæn í þokkabót.



Þessi lækur heitir að ég best veit Máná rétt eins og bærinn, en Mánárdalur er syðri dalurinn af tveimur sem saman eru nefndir Úlfsdalur. Sagt er frá því í Landnámu að Ólafur Bekkur og Úlfur Víkingur hafi orðið samskipa´til Íslands, Ólafur hafi numið Ólafsfjörð en Úlfur Úlfsdali. Sagnir eru um að Úlfur hafi setið á Dalabæ en verið heygður í hón nokkrum niður við árbakkana þar sem hann gæti fylgst með skipaferðum um alla tíð.



Gönguleiðin upp Mánárdalinn er ágæt yfirferðar og alls ekki brött. Þegar upp á brúnina er komið er fjallið Snókur mjög áberandi í landslaginu enda örstutt í það. Á þessum slóðum er Styrbjarnardys, en um Styrbjörn eru til nokkrar og svolítið misvísandi sagnir.
Eftirfarandi má lesa á snokur.is

"Nálægt vegi þessum suðaustan við Dalaskarð er

vörðubrot eitt, er nefnist Styrbjörn halda sumir hér það dys þó ólíklegt sé; en sagt

er að þar hafi bráðdauður orðið Styrbjörn bóndi á Hóli á heimleið frá Dalabæ með þunga byrði matar stolna frá Rafni bónda og var dauði hanns kenndur göldrum Rafns. Aðrir segja þó Styrbjörn hafa búið í Úlfsdölum en stolið frá Höskuldi bónda á Meiri Höfn sem líka var mjög fjölkunnugur talinn og hafi hann valdið dauða Styrbjarnar. Trúlegra er þó að þá hefði hann farið utar yfir fjallið. Virðist sögn þessi vera frá fyrri hlut 17. aldar því þá voru þeir Rafn og Höskuldur kunnir bændur, en oft munu hér hafa verið gripdeildir útlendra og innlendra."
Einnig hef ég rekist á frásögn um að Styrbjörn hafi verið eltur uppi af Höskuldi sem hafi banað honum og síðan dysjað.



Þetta er hópurinn sem gekk yfir Dalaskarð, en á myndina vantar þó Gunnar Trausta og Stellu Matt.



Þegar upp á brúnina er komið blasir Siglufjörður við.



Eins og sjá má er örstutt að fara að Snót (lengst til vinstri á myndinni rétt fyrir ofan miðju), en þaðan á að vera kjörstaður fyrir fólk með myndavélar og í góðu veðri.



Eins og sjá má er enn talsverður snjór á skíðasvæðinu í Skarðinu.



Þegar upp var komið og búið að staldra við um stund skipti hópurinn sér. Sumir gengu niður Stóra-Bola en þessi hluti sem hér sést gekk til norðurs ofan við Leirdali.  



Þarna hækkar landið lítillega og áfram var haldið vestan við Hafnarhyrnu og að suðvesturbrún Hvanneyrarskálar.



Og áfram norður fyrir botn Skálarinnar. Hér pósum við Stella bekkjarsystir mín með sjálfa Hvanneyrarskál og hluta af bænum í baksýn.



Svo skemmtilega vildi til að gríðarlega langur og mikill snjóskafl náði frá efstu brún og alla leið niður á botn skálarinnar. Tóku þá ýmsir til þess ráðs að setjast niður og renna sér á rassinum upp á gamla mátann alla leið niður sem var hreint enginn smáspölur. Eins og sjá má er talsverð hreyfing í myndinni hér að ofan en mér finnst eiginlega ekki hægt annað en að láta hana fylgja þrátt fyrir það.



Og snjórinn bauð upp á fleiri möguleika. Hann var alveg hæfilega þéttur og gaf svo passlega mikið eftir að það var engum vandkvæðum bundið fyrir þá að renna sér fótskriðu sem það kusu.


Það var góður og skemmtilegur hópur sem þarna var á ferðinni þótt fleiri hefðu alveg mátt slást með í för. Veðrið var hið besta og það gerði ekkert til þótt svolítill rigningarúði og léttur goluþeytingur sæi "genginu" fyrir hæfilegri kælingu stutta stund.

Mig langar til að þakka þeim Gesti Hansa og Maresku alveg sérlega fyrir þeirra framlag í þágu félagsins sem heimamenn mættu að ósekju alveg sýna meiri áhuga og ræktarskap.
Fleiri myndir frá Siglufirði en einnig frá göngunni yfir Dalaskarð er að finna aftarlega í myndaalbúmi http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=141649


Kvöldið eftir var kominn tími til að kveðja norðurlandið og haldið af stað suður yfir heiðar. Það var þó ekki hægt annað en að smella af einni sólarlagsmynd út Skagafjörðinn á leiðinni eins og sjá má.

Síðan þessi ferð var farin er eitt og annað búið að bera til tíðinda og ég er kominn aftur norður á Sigló. - En nánar um það innan tíðar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 1020
Gestir í dag: 514
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 315252
Samtals gestir: 34324
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 16:32:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni