10.10.2009 00:06

Laufskálarétt 2009



588. Laugardaginn 26. sept.
var ég staddur á Flugumýri, en þann hinn sama dag var heilmikið að gerast í næsta nágrenni. Það er hefð fyrir því að Laufskálaréttir beri upp á síðustu helgi septembermánaðar og því var engin spurning um hvernig verja ætti deginum. Þar sem Bjarni B. sem var samferðarmaður minn þennan dag er mun meiri söngmaður en ég, var afráðið að ég settist undir stýri til þess að hann gæti tekið létta stemmu ásamt tilheyrandi með körlunum í réttunum.




Það var reyndar leiðindaveður þennan dag, hríðarhraglandi og skítakuldi. Það gerði nokkuð þétt él annað slagið fram eftir deginum og margir leituðu skjóls í heitum bílunum á meðan þau gengu yfir. Ég átti í endalausum vandræðum með myndavélina mina því linsan vildi hvorki opnast né lokast að fullu og kenndi ég kuldanum um.



Þarna voru samankomin um 500 hross og 2000 manns í þessum stærstu og mestu stóðréttum landsins sem jafnframt eru þær mest og best sóttu.




En það var mikið fjör í réttunum þrátt fyrir óheppilegt veðurfarið og ég hef aldrei séð eða upplifað neitt svipaða réttarstemningu og þarna var ríkjandi. Það var mikið sungið, trallað og svolítið sopið á.




Ég rakst á skemmtilegan greinarstúf efir Birgi Haraldsson bónda á Bakka í Viðvíkursveit og leyfi mér að hafa hann eftir í von um að ég komist upp með "glæpinn".
 

Frá ómunatíð hafa bændur í Hóla- og Viðvíkurhreppum hinum fornu rekið búfé sitt á Kolbeinsdalsafrétt. Elstu heimildir telja að búfé af þessu svæði hafi verið réttað í rétt sem stóð í Grófinni á milli dalanna (Kolbeinsdals og Hjaltadals) skammt vestan við núverandi afréttarhlið. Mikil dulúð hvílir yfir þessari rétt og sögur af henni með þjóðsagnablæ.

Árið 1818 er rétt byggð á Heljareyrum undir Heljarfjalli í Kolbeinsdal; var hún öll hlaðin úr grjóti með stórum almenningi og 15 dilkum. Upp úr 1920 fóru menn að ræða það af fullri alvöru að flytja réttina niður í byggð og smala til hennar af öllu svæðinu. Beindust augu manna fljótt að Laufskálaholti í landi Brekkukots (nú Laufskálar) en þrátt fyrir margra ára þóf náðist ekki að byggja hana þar. Sumarið 1929 var byggð timburrétt á Brekkukotseyrum (nokkru sunnar en núverandi rétt stendur) með 22 dilkum. Þessi rétt reyndist illa og var að verða ónothæf um 1950.

Aftur beindust augu manna að Laufskálaholtinu. Eftir fjögurra ára baráttu með ótal fundum, sendinefndum og viðtölum virtist allt komið í strand, en þá bauð Páll Jónsson, bóndi í Brekkukoti, land undir réttina og nátthaga á Laufskálaholti, endurgjaldslaust.

Bygging núverandi réttar hófst 2. júní 1954, en grunnur var jafnaður haustið áður. Byggingarnefnd skipuðu Sigurmon Hartmannsson, Kolkuósi, sem var formaður, Friðbjörn Traustason, Hólum og Pétur Runólfsson, Efra-Ási. Teikningu gerði Teiknistofa landbúnaðarins. Réttin er öll steinsteypt og stendur á stólpum en annars holt undir veggi, almenningur er láréttur en dilkarnir 23 halla lítilega frá miðju.

Áætlaður kostnaður var 150.þúsund en sú áætlun stóðst ekki og var endanlegur kostnaður kr. 201.989,55.

Heimamenn sáu um grunnin undir verkstjórn Hermanns Sveinssonar á Miklahóli . Svitnuðu margir við það verk því handgrafa þurfti fyrir öllum stöplum svo og almenningi og voru verkfærin skóflur, hakar og járnkarlar. Stöplarnir voru steyptir í mótum sem smíðuð voru úr gömlu réttinni, öll steypa var handhrærð á flekum og vatn sótt í mjólkurbrúsum.  Um veggjabyggingu sá Kaupfélag Skagfirðinga og var yfirsmiður Guðmundur Sigurðsson.

Margir spáðu illa fyrir þessu verki, töldu að það yrði aldrei búið og svo myndi réttin hrynja. En með þrotlausri vinnu tókst að ljúka verkinu á réttum tíma og var réttin vígð þann 20 september 1954 að viðstöddu miklu fjölmenni.

Einn góðviðrisdag, á meðan á verkinu stóð, kallaði Friðbjörn á Hólum okkur saman, sem þarna vorum að störfum, og sagði: "Piltar. Þessi rétt á að heita Laufskálarétt, ekki Laufskálaholtsrétt. Þið heyrið það".

Síðan hefur Laufskálarétt staðið undir nafni í 50 ár, sér og sínum til sóma. Mjög hægur stígandi var í gestakomu í réttina framan af, en smátt og smátt laðaði stóðréttin að sér fleira fólk og um tíma var hrossaverslun allfjörleg þótt dregið hafi úr því á seinni tíð. Gestir sem nú koma í stóðréttina árlega skipta þúsundum , enda er Laufskálarétt af mörgum talin drottning stóðréttanna.



Líklega eru þessir að hita upp fyrir réttarballið sem var haldið um kvöldið í reiðhöllinni að Svaðastöðum þar sem mættu á þriðja þúsund manns.




Svo eru alltaf einhverjir sem finna sig best í þjónustuhlutverkinu og ekki skemmir ef hægt er að skrapa saman nokkrum aurum í leiðinni. Þessi opnaði afturhlerann á bílnum og seldi grimmt, enda er góður harðfiskur ómissndi við aðstæður sem þessar.



Strákurinn með möppuna snéri sér að mér og spurði hvort hann mætti leggja fyrir mig nokkrar spurningar. Hann kvaðst vera nemandi við Hólaskóla og yfir stæði könnun sem tengdist ferðamennsku. Ég var auðvitað alveg til í það og svaraði í kjölfarið nokkrum spurningum, m.a. hvort ég væri hestamaður.




Einn kaldur á mann í skítakulda. Brrrrrrrr...




Og það voru ekki bara hestar og menn sem sóttu Laufskálarétt.




Við Bjarni hittum vin okkar og félaga úr hestaferðinni miklu frá liðnu sumri sem farin var um Snæfellsnes sem fagnaði okkur vel og innilega. Þarna var Þórólfur bóndi, hið gangandi vísnasafn og gleðimaður frá Hjaltastöðum mættur, en hann lætur sig aldrei vanta við Laufskálaréttir.




Þessum piltum virtist ekki vera neitt átakanlega kalt, enda líklega ýmsu vanir ef það var rétt sem einhver nærstaddur hafði á orði þ.e. að þarna væru Grænlendingarnir mættir. Og þá er líklega fullkomlega eðlilegt að þeir haldi fast í baukana sína, því á dögunum var kynnt verðkönnun á bjór á veitingahúsum víða um lönd. Þar sagði að ölið væri dýrast á Grænlandi af öllum löndum í "Evrópu" eða 1500-2000 kr. Reyndar tilheyrði Grænland Ameríku í landafræðinni sem ég lærði í denn, en er að vísu undir stjórn gömlu herraþjóðarinnar okkar þ.e. Dana svo málið verður því e.t.v. pínulítið loðið og teygjanlegt fyrir vikið.




Er þessi ekki með réttu græjurnar eða kannski "réttargræjurnar" þ.e. hatt, lopapeysu og svo auðvitað peli innan seilingar.




Þeir kunnu sér ekki læti fyrir kæti þessir drengir og hoppuðu saman hring eftir hring. Fyrir vikið var alveg ómögulegt að ná þeim óhreyfðum á mynd, en við látum hana nú samt fljóta með þrátt fyrir augljósa annmarka.



Bogga og vinkonur hennar voru líka á of mikilli hreyfingu fyrir myndavél eins og sjá má. En það verður að hafa þær með, enda eru þarna á ferðinni kátar stelpur í góðri sveiflu.




Hann guðaði á gluggann Bjarna megin og var "hleypt inn" en kíkti bara aðeins í gættina af því að hann var með hest með sér. Ég tel mig hins vegar vita að hann sé Pálsson og frá Varmahlíð.




Þegar líða tók á daginn fór bæði mönnum og hestum fækkandi. Þeir tíndust í burt einn og einn rétt eins og jólasveinarnir þegar jólin eru búin og allt tilstandið er að baki.



Norpað við að kveikja í nagla í norðangarra og næðingi.




Við Bjarni vorum komnir inn í bíl og bjuggumst til heimferðar þegar honum datt í hug að gaman væri að fá eina mynd af sér inni í réttinni. Það var auðvitað hin ágætasta hugmynd og við fórum aftur út til að hrinda henni í framkvæmd. Þegar þangað kom stökk Bjarni inn fyrir réttarvegginn en ég setti mig í stellingar og skaut nokkrum léttum linsuskotum að honum. Að því loknu gengum við aftur til bíls og ég sá Bjarna setjast farþegamegin inn í silfurlitaða Land cruiserinn sinn. Ég leit í síðasta sinn yfir þetta stórfenglega svæði og settist síðan í bílstjórasætið. En Bjarni hafði greinilega brugðið sér aftur út og ég sá að ég hafði skilið lyklana eftir í bílnum þegar við fórum út að mynda sem kom mér svolítið á óvart. Ég var eiginlega alveg viss um að ég hefði tekið þá og sett í vasann, en svona er maður bara orðinn gleyminn. Ég leit í baksýnisspegilinn og sá að bílarnir sem hafði verið lagt fyrir aftan okkur fyrir stuttu síðan voru allir farnir og aðrir komnir í staðinn. Ég leit yfir gólfið fyrir framan farþegasætið og sá að Bjarni hafði greinilega tekið aðeins til hendinni því að þar höfðu alveg örugglega verið tvær tómar bjórdósir og gott ef ekki kuðlað sælgætisbréf líka.
Hann Bjarni er svo sannarlega snyrtilegur og tiltektarsamur. Bíllinn var nú kominn í gang og ég setti í drive, en það kom ekkert dauft ljós á "D" í mælaborðinu lengur sem mér fannst svolítið skrýtið. Þá var bankað létt á hliðarrúðuna og ég leit upp. Fyrir utan stóð þéttvaxinn maður með andlit sem var eins og tungl í fyllingu nema bara miklu rauðara. Hann brosti því breiðasta brosi sem ég hef séð vikum ef ekki mánuðum saman og sagði eitthvað sem ég heyrði ekki. Ég setti aftur í parkið, renndi niður rúðunni og hváði.

"Heldurðu að þú eigir nokkuð að vera að keyra bíl svona á þig kominn? Viltu ekki bara koma út fyrir og fá þér einn gráan með mér"?

Hann lyfti pelanum eins og hann vildi skála fyrir einhverju, en ég skildi ekkert í hvað hann var að fara. Reyndar fannst mér þessi athugasemd hans svolítið kjánaleg því ég er þess fullviss að ég lít ekkert mjög brennivínslega út.

"Komdu nú og fáum okkur einn léttan, því það er miklu betra að ég láti konuna keyra en þig".

Nú læddist að mér illur grunur og ég horfði betur í kring um mig. Í bílnum við hliðina sat Bjarni hinn rólegasti, talaði í gemsann sinn og beið eftir bílstjóranum sínum. Ég fann fyrir skyndilegri hitaaukningu í andliti og vissi satt best að segja ekki alveg hvernig ég ætti að reyna að afsaka mig. Ég steig út úr silfurlitaða Troopernum og skotraði augunum að silfurlitaða Land cruisernum þar sem Bjarni sat enn hinn rólegasti og malaði í símann. Gerðarleg kona sem hafði staðið svolítið til hliðar við manninn gekk nú að bílnum og settist inn þar sem ég hafði áður setið. Maðurinn rak upp mikla hláturroku og sló létt á bakið á mér.

"Fáðu þér nú einn og hafðu hann stóran" sagði hann og rétt mér pelann.

"Veistu að ég er edrú í alvörunni" sagði ég lágróma.

"Ha, ertu edrú í alvörunni"? Maðurinn horfði vantrúaður á mig.

"Já ég er bara svona vitlaus að ruglast á bílum" bætti ég við.

Ég man að ég sagði eitthvað fleira, en það var bæði svo ruglingslegt og vandræðalegt að engu tali tók.

Meðan ég talaði mjakaðist ég að rétta bílnum og kvaddi manninn með pelann og bað hann enn og aftur margfaldlegrar afsökunar.

Hann virtist enn svolítið vantrúaður á svipinn en um það leyti sem ég settist aftur undir stýri skellti hann upp úr og sagði eitthvað sem ég heyrði ekki. Ég ók af stað, heilsaði honum með týpískri bílstjórakveðju og var engan veginn hlátur í hug.

Það sem maður getur nú verið verið vitlaus hugsaði ég með mér, en rosalega tók hann þessu nú létt blessaður karlinn. Tómu dósirnar tvær vögguðu í takt á gúmmímottunni við fætur Bjarna og ég er ekki frá því að ég hafi verið hálf feginn að sjá þær þarna á sínum stað, en þegar ég var svo kominn úr augsýn fann ég að steinninn í maganum var byrjaður að léttast.



Við ókum síðan ofan Hjaltadalinn sem gekk ágætlega í fyrstu, en urðum þó fljótlega að slá af því á undan okkur fór Guðný kúabóndi alveg löturhægt á græna bílnum sínum. Hún myndaði í sífellu reksturinn og e.t.v. eitthvað fleira sem fyrir augu bar, ýmist út um framrúðuna eða gluggann farþegamegin. Ég er alveg viss um að Guðný hefur komið heim með mikið af myndum.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306500
Samtals gestir: 33252
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 07:39:33
clockhere

Tenglar

Eldra efni