18.10.2009 04:36

Axel kveður



589. Um nýliðna helgi var komið að enn einum vendipunktinum í tónlistarbröltinu, því "Vanir Menn" þ.e. dúóið Axel Einarsson og ég spiluðum saman á Catalinu að öllum líkindum í síðasta sinn. Ástæðan er sú að Fáskrúðsfirðingurinn Axel hefur pakkað saman öllum sínum pjönkum og sent til Svíþjóðar þar sem hann hyggst setjast að. Hann hefur einnig fest kaup á húsi þarlendis sem er því sem næst við enda Eyrarsundsbrúarinnar gegnt Köben og er þessar vikurnar að koma sér þar fyrir.

Öll tæki og tól sem tilheyrðu Stúdeó Stöðinni voru skrúuð í sundur og þeim pakkað í gám, en nú er unnið að því að koma því aftur saman úti í Svíaríki.



Ekki er hægt að segja annað en að samstarfið hafi gengið afburða vel og afraksturinn hafi verið verulegur miðað við hvað fyrir hlutunum var haft. Algengt var til dæmis að annar hvor okkar kæmist yfir texta sem var prentaður út í tveimur eintökum (eitt á mann), síðan var farið yfir hljómagang lagsins í bílnum á leiðinni á áfangastað og lagið spilað um kvöldið. Annað sem var svo skemmtilega jákvætt við Axel var óttaleysi hans við að prófa nánast hvaða lag sem var undirbúningslítið eða laust, hvort sem það var gert á fámennu skralli eða fjölmennri og virðulegri samkomu í fagurlega skreyttum salarkynnum. Skipti þá litlu hvort um var að ræða eitthvað sem hann hafði spilað fyrir 30 árum og þurfti að sækja inn í mistur hugans og lágþokubakka löngu liðins tíma, eða eitthvað splunkunýtt sem var að ganga þann daginn.



Eitt af lögunum sem við Axel höfum tekið fyrir undanfarið er "Nú er gaman" með hljómsveitinni Deildarbungubræðrum sem voru geysivinsælir upp úr 1970. Það er hins vegar ekki fyrr en fyrst núna að ég las þennan óborganlega texta og velti fyrir mér "hinni dýpri merkingu" hans. Niðurstaðan er að það er líklega auðveldast að hafa bara gaman af og komast í gott skap við lesturinn.



Deildarbungubræður gáfu út plötuna "Saga til næsta bæjar" árið 1976 og "Enn á jörðinni" ári síðar.

 

En til að fleiri en ég geti notið þeirrar ánægju að finna sér svolítinn húmorsvott í kreppunni er auðvitað nauðsynlegt að skjóta umræddu ljóði hérna að.

 

Nú er gaman.

 

Ég held ég elski Stínu samt er ég ekki viss,

því aðra fallegri ég sá í gær.

Ég arka nú um bæinn og vonast hana að sjá,

og viti menn brátt stendur hún mér hjá.

 

Og nú er gaman,

kærastan og ég hér saman,

leiðumst um bæinn hönd í hönd,

um draumalönd, - nú er gaman.

Því nú er gaman,

kærastan og ég hér saman,

leiðumst um bæinn hönd í hönd,

um draumalönd, - nú gaman er.

 

Ég reyti af mér brandara og hvísla ástarorð,

hún segist vera til í að fara á fast

Þó langt sé liðið kvöldið á er hvorugt okkar þreytt,

og hún segist vera afslöppuð hjá nér.

 

Ó hve unaðsleg,

þessi stund er mér,

er ég hugsa til þín.

Finn mig knúinn til,

til þess að faðma þig,

hamingjan mér hliðholl er.


Hmmm... Er hægt að finna svolítinn gelgjutón einhvers staðar?
Það er auðvitað skondnara en flest annað þegar maður hugsar til þess að þeir sem þetta "frömdu" á sínum tíma eru nú um sextugt...

Textann gerði annars Árni Sigurðsson sem var söngvari Deildarbungubræðra en lagið er danskt.

Um þessa vinsælu sveitaballahlómsveit sem stundum hefur verið talað um sem eins konar grínband er ýmislegt hægt að segja. Til að byrja með var tilurðin og upphafið mjög sérstök, því hljómsveitin var stofnuð á Jökuldalnum þar sem Eikin átti að spila í Valaskjálf á Egilstöðum um kvöldið. Á þessum tíma var Axel umboðsmaður Eikarinnar og hugmyndin var þróuð svolítið nánar síðasta spölinn austur. Hún fólst í því að þeir sem í bílnum voru flestir nýttir til verksins og spiluðu þá Eikarmenn á önnur hljóðfæri en þeir gerðu alla jafna. Til dæmis settist gítarhetjan Steini Magg við trommusettið, umoðsmaðurinn Axel tók til við gítarinn og bílstjórinn lék á bassann. Þegar á áfangastað var komið voru menn nokkurn veginn tilbúnir með u.þ.b. 20 lög, en uppistaðan voru laufléttirléttir rokkslagarar og mikið af kæruleysi og glensi. Þetta var eins og þeir sem þekktu til Eikarinnar vita, eins langt frá tónlistarstíl hennar eins og vera má en svínvirkaði. Um nafngiftina er það að segja að á leiðinni austur var ekið fram hjá sveitarbæ sem heitir Deildartunga og var nafninu lítillega breytt til að framkalla það sveitalega "bomsufíl" sem hugmyndin um Deildarbungubræðraþemað gekk út á. Það er skemmst frá því að segja að bandið sló í gegn þegar það kom fram í pásunni og svo fór að það kom fram aftur þegar lengra leið á ballið sem það kláraði og gæðasveitin Eik komst ekki aftur að á pallinum. Eftir þetta varð ekki aftur snúið og þróaðist sveitin á sínum eigin forsendum til frægðar og frama.

Nokkrir harðir poppnaglar hafa haft lengri eða skemmri viðdvöl í þessu "bræðrabandi" og má þar t.d. nefna Lárus Gríms, Jón Ragnars, Harald Þorsteins, Óla Kolbeins, Óla Garðars og bassaleikarann Kristinn Sigurjónsson eða Didda sem núna rekur ísbúðina í Kringlunni.

Hins vegar vil ég geta þess að ágæta umfjöllun um Eikina er að finna á vef Steins Skaptasonar en slóðin þangað er...
http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/entry/391618/ og http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/entry/401563/

 

En í beinu framhaldi af þessum textapælingunum hér að ofan kemur eftirfarandi vísa upp í hugann, en hún hefur verið eignuð ekki ómerkari eðaltöffara en Ragga Bjarna.

 

Diddi litli datt í dý

og meiddi sig í fótnum.

Hann varð aldrei upp frá því

jafngóður í fótnum.

 

Menn eiga það nefnilega til í þessum bransa rétt eins og í öðrum "brönsum" að fara annað slagið á svolítið flug.
En nú er ég kominn langt frá efninu eins og ég á svo sem vanda til.


                     

Ég hef áður minnst á að Axel á sér talsvert skrautlegan feril að baki í poppinu og reyndar mun fjölskrúðugari á allan hátt en margurinn veit af. Hlómsveitin Icecross (1973) var líklega fyrsta íslenska poppútrásin, en með honum í þeirri sveit voru þeir Ómar Óskarsson (Pops) og Ásgeir Óskarsson (Stuðmenn). Þeir æfðu sitt prógram sem innihélt eingöngu frumsamið þungt rokk, sigldu út með Gullfossi og gerðust þar hústökumenn í fríríkinu Krisjaníu. Þeir spiluðu talsvert á hinum merka tónleika og veitingastað Revolution og m.a. á móti danska stórrokkbandinu Gasoline þar sem aðalmaðurinn var sjálfur Kim Larsen. Algengt var að erlendar hljómsveitir kæmu á þennan stað eftir tónleika til að kynna sér hina "dönsku" rokkmenningu. Axel sagði mér m.a. frá því að eitt sinn þegar hann leit upp eftir langt inproviserað gítarsóló sat hljómsveitin "Who" eins og hún lagði sig á borði næst sviðinu og fylgdist grannt með þessu íslenska bandi. Einhverju síðar eftir annað sóló sátu fjórir félagar við þetta sama borð og sperrtu eyrun. Það voru þeir Crosby, Stills, Nash og Yong.
Icecross starfaði í u.þ.b. 8 mánuði en leystust síðan upp og komu aftur heim með Gullfossi. Þegar þeir fóru út höfðu þeir keypt sér gamlan Benz sendibíl, en við heimkomuna lagði tollurinn hald á bifreiðina og hélt henni í þrjá daga til skoðunnar. Mun hið "rokksýrulega" útlit þeirra félaga eflaust hafa haft sitt að segja og sagt var að þeir ágætu enbættismenn þar á bæ hafi tekið þrjá daga að skrúa bílinn í sundur og setja hann saman aftur.

Eftir Icecross ævintýrið fór Axel til BNA og túraði þar m.a. um nokkurra mánaða skeið með hinni einu sönnu Shady Owens.

Næst tók við Tilverutímabilið en hljómsveitina Tilveru (1969-1971) stofnaði hann ásamt Engilbert Jensen sem kom úr Hljómum, Rúnari Gunnarssyni úr Dátum, Jóhanni Kristjánssyni bassaleikara úr Flowers og Ólafi Garðarssyni sem hafði verið í Óðmönnum. Fleiri höfðu einnig viðdvöl í Tilveru s.s. Gunnar Hermannsson bassaleikari og Herbert Guðmundsson söngvari.

Axel gerðist umoðsmaður Eikarinnar en út úr því ofurbandi spruttu áðurnefndir Deildarbungubræður fyrirvaralaust og því sem næst fullskapaðir.

Þá hefur hann starfað um lengri eða skemmri tíma í Sálinni (hinni eldri), Persónu, Landshornarokkurum, Haukum, Freeport og núna síðast Vönum mönnum. En flestir þekkja líklega Axel vegna samstarfs við Jóhann G. Jóhansson þegar þeir sömdu saman lagið "Hjálpum þeim", en svo undarlegt sem það kann að vera þá samdi Axel lagið en lagahöfundurinn Jóhann að þessu sinni textann.


Hebbi Guðmunds með okkur Axel á Catalinu í gærkvöldi (17.okt.)

Í lokasprettinum á Catalinu í gærkvöldi fengum við óvæntan gest upp á pall. Þar var mættur Herbert Guðmundsson í sínu besta formi og var þá snarlega skipt yfir í Bítla og Stones sem söngvarinn kann utan að rétt eins og Faðirvorið, en það má gjarnan geta þess að hann kann það alveg upp á tíu. Það var ekki að sökum að spyrja að dansgleði gestanna sem var þó ærin fyrir, jókst enn meira og það um talsvert margar "stuðeiningar". Ég er ekki frá því að klukkan hafi eitthvað "litilsháttar" verið farin að halla í fjögur þegar síðustu tónar Lennonlagsins "Imagine" dóu út.

 

Ég vil þakka Axel Einarssyni samstarfið sem staðið hefur undanfarin þrjú ár og verið einkar ánægjulegt og farsælt í alla staði, þó svo það sé auðvitað aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 249
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317873
Samtals gestir: 34837
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 13:01:16
clockhere

Tenglar

Eldra efni