14.12.2009 00:13

Hálfdrættingar við Húsafell

599. Endrum og sinnum þegar verið er að leita að einhverju tilteknu efni í leyndum afkimum harða disksins, kemur ekki ósjaldan fyrir að eitthvað allt annað og með öllu óskylt poppar upp, grípur athyglina heljartökum og vill alls ekki sleppa henni aftur. Eitthvað slíkt og þvílíkt var einmitt að gerast akkúrat núna þegar ég rakst á nokkrar myndir úr fullnaðarprófsferðinni sem farin var um vorið 1968.

Sérlegir gæslumenn krakkaskarans voru þeir Hlöðver skólastjóri og Benni kennari. Þessir miklu heiðursmenn og lærifeður sem við krakkarnir mátum því meira sem árunum fjölgaði, við þroskuðumst og lengra leið á lífsins braut.

Barnaskólagöngunni var nú lokið og næsta haust myndum við setjast að í sjálfum Gagganum uppi á Hlíðarvegi. En þetta var mikið ferðalag á þess tíma mælikvarða og einn af þeim fjölmörgu stöðum sem árgangur 1955 heimsótti meðan á því stóð var Húsafell þar sem myndirnar hér að neðan voru teknar.

En þar eru þeir Fullsterkur 154 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 54 kg og Amlóði 23 kg sem svo margir hafa reynt sig við.



Það mun vera Hálfdrættingur sem Guðni Sveins hefur hér á loft við mikinn fögnuð bekkjarfélaganna. Aðrir sem sjá má á myndinni eru Viðar Jóhannsson (bróðir Kristjáns myndlistakennara), Árni Haralds (vörubílsstjóri á Sigló), þann sem þetta ritar (LRÓ) og svo er sýnileg svolítil rönd af Friðriki Má Ásgrímssyni (Frigga Guggu friðargæsluliða).

Það mun hafa verið Magga Steingríms sem tók myndina.



Ég hefði líklega seint fengist til að yfirgefa staðinn öðruvísi en að a.m.k. jafna afrek Guðna. Það reyndist ekki mjög erfitt, enda var ég á þessum tíma heldur meiri að vexti en jafnaldrar mínir, þó þeir næðu mér og sumir gott betur á árunum sem á eftir komu. Auðvitað reyndum við báðir við Hálfsterk sem við gátum auðveldlega reist upp á rönd en ekkert umfram það, og svo Fullsterk sem við fengum alls ekki bifað hvað sem við reyndum. Það mun vera Ingi Hauks rafvirki sem er lengst til vinstri á myndinni, en get ekki með nokkru móti áttað mig á hver sæta stelpan er fyrir aftan okkur. Þessi mynd mun vera úr safni Gunnólu bekkjarsystur minnar í Sparisjóðnum sem væntanlega mun hafa tekið hana.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 255
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317879
Samtals gestir: 34838
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 13:22:33
clockhere

Tenglar

Eldra efni