01.04.2010 03:51

Gamla Max & Max hin síðari



623. Á árunum 1968-69
starfaði hljómsveit sem nefndi sig Max. Hún æfði um tíma í Gránugötu 14 og spilaði m.a. á Ketilásnum, Allanum svo og auðvitað vítt og breitt um norðurlandið við góðan orðstýr.

Á myndinni eru frá vinstri talið...

Óli Ægirs (sólógítar) Ægirs rakara á Kambi.

Stjáni Hauks (rythmagítar) bróðir Finna Hauks (líka á Kambi) og því náfrændi Óla.

Sverrir Elefsen (bassi) pabbi Hilmars Elefsen í Max-2

Rabbi Erlends (trommur) sem fleiri þekkja sem Rabba í Gautum, en hann er neðan til á myndinni.

Framan af spilaði Hjálmar Jónsson (harmonikkuleikari) sem nú spilar í bílskúrsbandinu Heldri mönnum einnig með þeim á orgel.

Ef mig misminnir ekki þá eru þessir drengir af 1950 árganginum.

 

Sagan um hljóðfærakaup þeirra félaga í upphafi ferilsins svo og fjármögnun þeirrar fjárfestingar, var bæði nokkuð lífseig og mjög skemmtileg hvort sem hún var heimatilbúin haugalýgi eða algjörlega sannleikanum samkvæmt.

Þegar þeir höfðu ákveðið að stofna bandið var allur hljóðfærapakkinn keyptur alveg splunkunýr og greitt fyrir að mestu með víxlum langt inn í framtíðina. Síðan var lagst í æfingar og komið upp vænlegu dansprógrammi. Rabbi var aðalsöngvarinn en þeir Óli og Stjáni voru báðir mjög liðtækir í milliröddum. Þegar fært þótti var Ketilásinn tekinn á leigu og fyrsti dansleikurinn auglýstur. Hvort vindarnir hafa einfaldlega blásið úr yfirmáta hagstæðri átt eða eftirvæntingin svona mikil, þá var mæting með ólíkindum. Sagt var að um eða yfir 500 miðar hafi selst og fólk síðan borist með straumnum ýmist inn eða út um dyrnar í þessu ofurlitla samkomuhúsi án þess að hafa nokkra möguleikla á að geta neinu ráðið um ferðir sínar. Maxararnir voru því orðnir mjög fjáðir eftir helgina en fóru vel með, því í vikunni sem á eftir fór greiddu þeir upp alla víxlana og áttu þar með öll hljóðfærin skuldlaus.

 

Á þeim tíma sem hljómsveitin Max æfði í samkomusalnum í Vökuhúsinu voru aðrir pottormar að stíga sín fyrstu spor á tónlistarbrautunni í æfingarherbergi sem þeir höfðu á loftinu í sama húsi, en það band nefndist Hendrix eftir gítargoðinu fræga. Þá sveit skipuðu Óttar Bjarnason (trommur), Viðar Jóhannsson (bassi), Þórhallur Benediktsson (sólógítar), Guðni Sveinsson (rythmagítar) og sá sem þetta ritar, Leó R. Ólason (orgel). Og þrátt fyrir allgóðan ásetning af okkar hálfu, minnir mig að mun meiri tími hafi farið í að hlusta fullir lotningar á Maxarana en sinna okkar eigin æfingum.

Hljómsveitin Max lifði hratt þó hún lifði kannski ekkert sérlega hátt, en hún var verulega skemmtilegt ballband. Mér vitanlega hefur hún komið saman a.m.k. einu sinni eftir að hún hætti fyrir 40 árum, en það mun hafa verið á bekkjarsamkomu á Siglufirði fyrir allnokkrum árum. Undirbúningur þeirrar uppákomu mun hafa farið mjög leynt og urðu því margir hissa þegar hljómsveitin Max var kynnt sem eitt atriði kvöldsins. Þó mun eiginkona Óla gítarleikara hafa orðið meira hissa en aðrir, því samkvæmt mínum heimildum hafði hún ekki hafa fregnað af "hljómsveitatöffaratímabili" hans fyrr.

 

                        

 

Tuttugu árum síðar eða rúmlega það var önnur hljómsveit komin á kreik með sama nafni. En hvort sem það var til aðgreiningar frá Max hinni fyrri eða af einhverri annarri ástæðu sem mér er ekki kunn, fóru þeir drengir að kenna sig við "hina hugrökku brauðrist" sem mér hefur alltaf fundist hljóma eins og undirtitill við fyrirsögn.

 

En þeir eru, talið framan frá og aftur úr... 

Rúnar Sveinsson, sonur Svenna Þorsteins og Bertu

Sveinn Hjartar, bróðir Írisar (trúbadors) Hjartardóttur.

Hlöðver Sigurðsson, sonur Sigga Hlöðvers

Hilmar Elefsen, sonur Sverris Elefsen og Köllu

Örvar Bjarnason, sonur Bjarna Harðar og Möggu Vals

Allir þessir drengir eru úr árgangi 1973 nema Sveinn sem er árinu eldri.

Samkvæmt mínum heimildum kom Max fram í allra fyrsta sinn á 6. bekkjar skemmtun Grunnskólans sennilega árið1988. Þá var Sveinn ekki tekinn við trommunum og Pálmi var söngvari. Upprunalegi trommarinn í Hugrökku brauðristinni Max var Jón Pálmi Rögnvaldsson (sonur Rögnvalds Jóns og Systu Óla), en hann staldraði örstutt við og hugsanlegt er að þetta hafi verið í eina skiptið sem hann kom fram undir merkjum Max.

Einhvern tíma mun þó bandið hafa spilað söngvaralaust, en til að leysa það vandamál spilaði Örvar Bjarna allar laglínur á hljómborðið.

Pálmi Steingrímsson stórfrændi Jóns Pálma (sonur Steingríms Jóns og Hörpu Gissurar) söng með sveitinni eitthvað framan af, en Hlöðver tók svo við af honum. Hann hefur svo aftur komið við sögu í seinni tíð en þá sem gítarleikari.

                        

 

Ég hef nokkrum sinnum heyrt í þessu ágæta bandi og verð að segja að það er ekkert síður jafn þrælskemmtilegt, þétt og velspilandi en það gamla.

Þeir hafa átt það til að koma saman við valin tækifæri undanfarin ár þó svo að ekki hafi verið um að ræða "reglubundna starfsemi" um árabil. Síðast mér vitanlega tróðu þeir upp á Siglfirðingakvöldi á Spot í Kópavogi 9. jan. s.l. Með þeim voru auglýst númerin Cargo, Gotti og Eisi, Our lives ásamt gleðisveitinni Jói Samfestingur.

Því er svo við að bæta að ég hleraði að Maxararnir verði aftur á SPOT þ. 16. apríl nk.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 161
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 317294
Samtals gestir: 34695
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 21:07:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni