18.08.2010 01:39

Og örlítið frá Pæjumótshelginni



643. Ekki get ég sagt að ég hafi fylgst um of með þeim íþróttapakka sem Pæjumótið er, þrátt fyrir að það sé hafið yfir allan vafa að það er mjög svo uppbyggilegt og bráðhollt fyrir líkama og sál bæði þeirra sem taka þátt og hinna sem fylgja sínu fólki. En það er hins vegar ekki nokkur leið að láta það fara fram hjá sér, enda engin ástæða til þess.

Ingó veðurguð, Jogvan og Jóhanna fyrrum barnastjarna sáu um að syngja fyrir börnin og foreldra þeirra á Ráðhústorginu föstudags og laugardagskvöld.
Jogvan hinn Færeyski kyrjaði m.a. braginn hans Bubba þar sem sprautufíklarnir Rómeó og Júlía voru í aðalhlutverkum og Rómeó kvaddi síðan þetta líf vegna ofskamts "inni á klósetti á óþekktum bar". Ég lagði við hlustir og velti fyrir mér innihaldi textans og því erindi sem hann gæti átt við samkomuna. Stór hluti áheyrenda var jú á aldursbilinu 8-12 ára.



Þetta fannst mér svo skondið að ég snéri við til að taka mynd af þessum "fáheyrða atburði".
Ætli Víkingahandklæðin hafi verið hengd út til þerris eða var bara verið að auglýsa liðið?
En hvort sem er, þá hafa þau líklega verið bæði grilluð og reykt þegar þau hafa verið tekin niður af snúrunni.


Vignir úr Írafárinu og Jogvan hinn Færeyski áttu flotta spretti á Rauðkutorginu. Jogvan kom svo skemmtilega á óvart þegar hann tók upp fiðluna og þeir félagarnir tóku saman Norska Júróvisjónrisasmellinn.



Kærustuparið Davíð Sigurgeirsson og Jóhanna Júróprinsessa stigu einnig á sama pall, og eins og við var að búast voru þau ekkert annað en bara flott saman. Eitthvað fannst mér ég kannast við gítarleikarann og að leik þeirra loknum áttum við svolítið spjall saman. Fyrir mörgum árum síðan var hann mjög tíður gestur hjá mér í Laugarásvideó ásamt föður sínum sem er mikil gítarhetja. Sá heitir Sigurgeir Sigmundsson, situr í stjórn FÍH (Félagi íslenskra hljómlistamanna) og er gjaldkeri sama félags. Hann hefur starfað í ýmsum þekktum hljómsveitum á undanförnum árum og áratugum og þar má nefna Gildruna, Hunang, Start, Drýsil, ásamt því að vera ávalt tiltækur þegar félagi hans Eiríkur Hauksson hefur átt leið á skerið og stigið á pall. Hann er einnig oft kallaður til ef vantar gítarleikara í hljóðveri og skiptir þá litlu hvort hann strömmar kassagítar, framreiðir rafmagnaðann metal eða laðar fram ljúfa fetilgítartóna. Svo verður auðvitað geta þess að hann spilar á gítar í laginu "Sem lindin tær" á geisladisknum "Svona var á Sigló" sem Hlöðver söng hér um árið.



Þessa helgina var það m.a. hún Valdís sem stóð dæluvaktina og ég fékk náðarsamlegast að smella mynd af henni innan við "barborðið".



Einn ágætur maður benti mér á þennan mann og sagði mér að hann væri líklega náfrændi minn frá Ísafirði. Ég varð auðvitað að rannsaka málið, gefa mig á tal við hann og rekja úr honum ættargarnirnar. Og viti menn, eitthvað var nú til í þessu. Hann heitir Guðmundur Friðrik Matthíasson og er sonur Matta Villa sem ég vann með í Norðurtanganum á Ísafirði forðum og Gunnu Valgeirs. En afi hans Valgeir sem bjó lengi á Gemlufalli við Dýrafjörð en síðar á Húsavík, er bróðir Leós afa míns á Siglufirði. Við áttum auðvitað langt og mikið spjall, en því er svo við að bæta að Júlía hin glæsilega kona hans er dóttir Nonna Fönsu og fæddur Siglfirðingur.



Hún var ekki svo lítið flott myndasýningin við bókasafnið og mörg glæsileg augnablik hafa greinilega verið fönguð í hita og leikjum Pæjumótsins. Myndin kostaði þúsundkall og ég gat ekki betur séð en að salan væri býsna góð.



En allt tekur enda og þegar sunnudeginum tók að halla fór að þéttast umferðin úr bænum.



Þegar kvöldaði horfði ég út fjörðinn og óskaði þess með sjálfum mér að þetta ágæta fólk sem heiðrað hafði bæinn með nærveru sinni um helgina færi ekki með allt góða veðrið með sér.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 31
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 290
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 315680
Samtals gestir: 34395
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 03:49:37
clockhere

Tenglar

Eldra efni