30.09.2010 06:23

"Rifrildið" á Njarðarplaninu



654. Þó nokkrar vikur séu liðnar síðan hluti af Njarðarplaninu var rifið og umfjöllun um framkvæmdina flokkist tæpast sem fréttir lengur, langar mig samt að skjóta þessum myndum hér inn ásamt nokkrum línum.

 

Þeir bræður Óli og Pétur sem hafa árum saman haft aðstöðu í skúrnum, eru horfnir á braut með sitt hafurtask og stóra gula tækið með ógnvænlega krumluna er tilbúið til að hefja niðurrifið.

Á þessu plani voru á árum áður saltað í þúsundir tunna af síld, sumar eftir sumar. Þarna var silfri hafsins umbreytt í dýrmætan gjaldeyri sem gerði þjóðina frjálsa og skapaði velsæld í landinu.

En um svipað leyti og einum kafla í sögunni lýkur, er annar að hefjast. Það er á vissan hátt athyglisverð tímasetning að þegar gamli tíminn er að kveðja smátt og smátt, er sá nýji að taka undir sig stórt stökk inn í samfélagið í nyrsta kaupstað landsins. Þau rök hafa oft verið notuð af okkur Siglfirðingum þegar landinn hefur gagnrýnt gerð Héðinsfjarðarganga vegna kostnaðarins, höfum við gjarnan bent á að það sé fyrir löngu búin að leggja inn fyrir þeim.

 

Árið 1963 voru 23 síldarplön starfrækt á Siglufirði og nam heildarsöltun 68.608 tunnum. Nöf var hæst með 8100 tunnur, Pólstjarnan h.f. með 7286 tunnur,

Haraldarstöð h.f. með 5665 tunnur, Njörður h.f. með 4905 tunnur,

O. Hinriksson með 4792 tunnur, Hafliði h.f. með 3951 tunnur,

síldarsöltun ísfirðinga með 3760 tunnur, Jón Gíslason og Ásmundur s.f. með 3546 tunnur, fsafold s.f. með 3493 tunnur, Kaupfélag Siglfirðinga með 2850 tunnur og Hrímnir h.f. með 2849 tunnur. Aðrir voru með minna.

Séu fleiri ár skoðuð meðan síldarævintýrið stóð yfir er Njörður yfirleitt vel fyrir ofan miðju í magni saltaðrar síldar.



Tækjamaðurinn hefur vakið athygli og aðdáun margra bæjarbúa fyrir undraverða lagni sína við að rífa húsin nánast spýtu fyrir spýtu og flokka bæði timbur og járn í hauga eða jafnvel ofan í gáma. Það er svo auðvitað ekkert verra að hann er af Siglfirsku bergi brotinn þar sem afi hans var Laugi Gosa.




Það er engu líkara en gömlu snurparastefnin gægist upp úr jarðveginum, en um leið aftur úr fortíðinni til að forvitnast um hvað sé að gerast á gamla síldarplaninu þeirra. Þar sem áður fyrr allt iðaði af lífi og söltunarstúlkurnar í olíusvuntunum kölluðu eftir meiri síld, meira salti og tómri tunnu.




Kiddi G. var einn af þeim fjölmörgu sem stöldruðu við og fylgdust með því sem fram fór af miklum áhuga.




En hér var látið staðar numið og er það vel. Gömlu bryggjustaurarnir sem gægjast upp úr lygnum haffletinum ríma vel við söguna um ævintýrið mikla, minningar þeirra sem upplifðu og lögðu gjörfa hönd á saltan og hreistraðan plóg aldarinnar sem leið, svo ekki sé talað um glæsilegan bakgrunninn sem nýlega hefur gengið í endurnýjun lífdaga.



Snyrtimennin Þór Jóhanns og Sigurjón Páls hreinsuðu svo fjöruna eftir að stórvirka vinnuvélin hafði lokið sínum verkþætti.



(Ljósmynd Sigurjón Jóhannsson)

Þessi mynd er líklega u.þ.b. hálfrar aldar gömul og rétt vinstra megin við miðju hennar má sjá skúrinn sem verið var að rífa. Njörður er þó ekki allur því að fyrir utan staurana sem eftir standa, er skemman undir bökkunum enn í notkun og verður væntanlega áfram. Hún er nú hluti af þeirri byggingu Síldarminjasafnsins sem hýsir bræðsluverksmiðjuna og kenndur er við Gránu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 580
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 128
Samtals flettingar: 306146
Samtals gestir: 33228
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 15:06:38
clockhere

Tenglar

Eldra efni