11.10.2010 08:22

Ný og miklu skemmtilegri vegaskilti657. Ég hafði hugsað mér
að setja upp heilmikinn myndskreyttan pistil um Héðinsfjarðargöng þar sem farið væri yfir aðdragandann, hinar skiptu skoðanir landsmanna á framkvæmdinni, meðan verkið stóð yfir og svo auðvitað opnunina. En eftir á að hyggja taldi ég eiginlega alveg nóg að slíku efni hafa þegar verið á ferðinni bæði í bili í netmiðlum sem og öðrum.

"Það má nú líka éta yfir sig að góðum graut" mælti kerlingin forðum og skulum við hafa þau orð til hliðsjónar að sinni. Nokkuð er nú liðið frá opnuninni, ég hef ekki komist í tölvu svo "vel" sé síðan og það getur tæplega talist spennandi að vera alltaf að segja gamlar fréttir. En allmargar myndir frá opnunninni er eigi síður af finna inni á "myndaalbúm" aftarlega í möppu merkt "Sigló 2010" ef áhugi er fyrir skoðun.
Þetta skilti vísar leiðina frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Lágheiði án þess að það komi fram að önnur mun styttri leið er beint framundan. Það stóð enn á sínum stað tæpri viku eftir opnunina og viðbúið að það gæti skapað óþægindi og misskilning. Ég veit eitt dæmi þess að fólk sem ekki er staðkunnugt og ætlaði að skoða hið mikla mannvirki, tók vitlausa beygju og var komið langleiðina upp á Lágheiði þegar mistökin uppgötvuðust.

Ég fór daglega til Ólafsfjarðar fyrstu dagana eftir opnun, hvort sem ég átti þangað erindi eða ekki og stundum jafnvel oft á dag. Mér fannst eins og hinn þekkti hluti veraldarinnar hefði stækkað lítillega og sá ókannaði hefði minnkað að sama skapi. Vissulega hafði samfélagið stækkað þrátt fyrir að hin formlega sameining hefði farið fram fyrir nokkrum árum, en núna var það orðið áþreifanlegra fyrir alla íbúa Fjallabyggðar. 

Fyrir nokkrum árum spurði kunningi minn mig hvað þessi Héðinsfjarðargöng styttu leiðina mikið milli Siglufjarðar og Reykjavíkur.

Mig langaði mest að fara nokkrum orðum um landafræðikunnáttu hans í stað þess að svara spurningunni, en stillti mig og sagði eins og var að þau breyttu engu um hana.

"Til hvers er þá verið að gera göngin" spurði hann undrandi og ég skal viðurkenna að ég varð kjaftstopp í góða stund. 

En á tíðum ferðum mínum milli austur og vesturbæjar Fjallabyggðar undanfarna daga kom þessi spurning aftur upp í hugann og ég sá að eiginlega hafði aðeins verið spurt um bæjarhluta á sínum tíma en ekki allan bæinn. Segja má að tæknilegri útfærslu hennar á sínum tíma hafi verið ábótavant.


 

 

Þetta skilti er við Ketilás og ef vegalengdinni til Siglufjarðar er bætt við vegalengdina milli bæjarhlutanna, kemur í ljós að leiðin milli Ólafsfjarðar og Reykjavíkur hefur lengst um 5 km. sé farið um Héðinsfjarðargöng. Ekki batnar sá hluti málsins í eyrum þeirra sem aðeins hugsa í tölum og vita lítið eða ekkert um ónógt viðhald malarvegum, ófærð á heiðum uppi, djúpar holur og endalaus þvottabretti. En nú geta Ólafsfirðingar þó farið alla leiðina á malbiki og ekki ætti veðurhæðin að trufla aksturinn þá 12 km. sem hún liggur "innandyra" ef þannig mætti að orði komast.

En líklega munar mest um að þeir spyrja sig sjaldnar eftirleiðis hvort hægt að komast suður eða ekki.


En síðan styttist leiðin auðvitað enn meira þegar næstu göng (milli Hólsdals og Fljóta) verða gerð, en þau munu væntanlega leysa hin einbreiðu og  meira en 40 ára gömlu Strákagöng af hólmi sem vissulega var barn síns tíma.

Ekki er ólíklegt að vegastæðið verði þá lagt um hlaðið á Bjarnagili...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar