28.10.2010 02:20

Aumingja Kalli greyið



662. Mér brá ekki svo lítið
þegar ég rakst á eftirfarandi "frétt" á netinu. Mig setti hljóðan, ég drakk í mig hvert einasta orð og hreinlega saup hveljur svo gott sem í hverri einustu línu.
Greinin fer hér að neðan.

 

"Biskup gekk berserksgang - Kalla þurfti til lögreglu

Starfsmenn biskupsstofu þurftu að kalla til lögreglu um helgina eftir að biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, gekk berserksgang á skrifstofu sinni. Var biskup svo ósáttur með tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, um takmarkanir við aðgangi trúfélaga að skólastarfi, að hann trylltist.

Þegar lögregla kom á vettvang var biskup búinn að brjóta niður hurðina á skrifstofu sinni, auk þess sem hann hafði fleygt skrifborði sínu út um gluggann. Starfsfólk var flest búið að leita sér skjóls utandyra og að sögn lögreglu var það mjög skelkað.
Þurfti fjóra lögreglumenn til að koma biskupi í handjárn en hann var mjög ósáttur með vinnubrögð lögreglu og barðist um á hæl og hnakka.
Einn lögreglumaður kjálkabrotnaði í atganginum.

Þegar lögreglan leiddi biskup út í lögreglubíl, streittist hann á móti og öskraði móðursýkislega, "Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna!"

Að öðru leyti var helgin róleg hjá lögreglu."

 

Þegar ég var farinn að jafna mig eftir lesturinn, fór ég að velta þessu máli betur fyrir mér. Það hefur greinilega allt fjölmiðlafólk lagst á eitt með að halda umfjöllun um þessa uppákomu í lágmarki og auminginn hann Kalli er líklega lokaður inni á einhverri stofnum núna því hann er auðvitað mikið veikur maðurinn.

En eftir að ég fór að skoða vefinn betur og lesa meira, fóru efasemdarhrukkur að myndast á enninu og ég fitjaði annað slagið upp á nefið. Þarna bar ýmiskonar vægast sagt skrautlegt "fréttaefni" fyrir augu sem vakti athygli mina og það ekki svo litla. Fyrir þá sem vilja kynna sér ýmis mál sem aðrir miðlar "þora ekki" að fjalla um, þá er slóðin http://sannleikurinn.com/heim/


Þetta er sagður vera guð á ferð í Breiðholtinu, en hann mun þó hafa gefið sér tíma til að setjast niður í örlitla stund fyrir ljósmyndarann.

Í þráðbeinu framhaldi af ofangreindri frétt er auðvitað við hæfi að hnýta þeirri eftirfarandi við, en hún er ættuð af "fréttasíðu" Baggalúts. 

"Meðal þeirra fjölmörgu rita sem útgáfurisinn Baggalútur sendir frá sér fyrir þessi jól er ævisaga Guðs Almáttugs, skapara. Ævisagan ber titilinn "Guð minn almáttugur: Frá sköpun til snjallsíma" og rekur hún merkilega ævi þessa merkilega hugsjónamanns, sigra hans og ósigra. Guð segir bókina bæði einlæga og hugaða, en í henni fjallar hann um ástina, frægðina, flókið fjölskyldulíf, markaðssetningu og erfiðan fyrirtækjarekstur - trúna á sjálfan sig og auðvitað edrúmennskuna. Er ljóst að bókin mun veita fróðlega innsýn í líf þessa dula markaðssnillings og margt mun koma lesendum á óvart. Það er tónlistarmaðurinn ástsæli Megas sem skrásetur."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 395
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 318
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 316362
Samtals gestir: 34495
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 20:19:31
clockhere

Tenglar

Eldra efni