04.11.2010 05:08

siglfirdingafelagid.is



667. Ég kom við í ísbúðinni í Garðabæ í gær
og fékk mér ís í brauði með lúxusdýfu. Þetta var alveg splunkuný tegund, reyndar svo ný að þetta var fyrsti dagurinn sem hún var í sölu. Við erum að tala um bláan hindberjaís úr vél og þar höfum við það. (Blúæs)
En til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, þá hefur málið ekkert með Geir Ólafsson að gera. Ef svo hefði verið, þá hefði ég líklega frekar fengið mér karamelluís eða bananaís (einnig úr vél) en örugglega líka með lúxusdúfu.

 

En þetta með ísinn er svolítill útúrdúr því það var eiginlega allt annað sem mig langaði að minnast lítillega á.
Ég hef stundum kíkt inn á vef Siglfirðingafélagsins til að aðgæta hvort þar beri ekki hugsanlega eitthvað fyrir augu sem ekki var þar síðast þegar ég gáði, og auðvitað alveg sérstaklega þegar eitthverra viðburða hefur verið von.


Til vefsins var stofnað 27. okt. 2009 og í opnunarfærslunni mátti m.a. lesa eftirfarandi:


"Stjórn Siglfirðingfélagsins vonast til að sem flestir Siglfirðingar finni eitthvað við sitt hæfi enda annað ekki við hæfi vegna þess að efni síðunnar verður eingöngu um Siglufjörð, með Siglfirðingum í öllum aðalhlutverkum, í lit og cinemascope. Hér verða gömul fréttablöð Siglfirðingafélagsins aðgengileg á tölvutæku formi. Hér verða myndir af uppákomum félagsins sem ekki komust á síður Fréttablaðsins og hér ætlum við að gera Siglfirskum listamönnum hátt undir höfði. En fyrst og fremst þurfum  við að hjálpast að við að gera þessa heimasíðu Siglfirðingafélagsins að vettvangi fyrir það sem okkur þykir ávallt vænst um: Samskipti við aðra Siglfirðinga."

 

Næsta færsla er frá 23. febrúar 2010 og má ennþá lesa titilinn "Málverk Sigurjóns," en færslan sjálf er horfin.

19. mars er auglýst myndakvöld í samvinnu við Ljósmyndasafn Siglufjarðar í Kornhlöðunni. Daginn eftir þann 20. mars er svo skerpt á sama atburði.

Engu hefur verið bætt við eftir það, þrátt fyrir að út hafi komið tvö fréttabréf á vegum félagsins síðan, samkomur tengdar Siglufirði haldnar svo og núna síðast sjálfur aðalfundurinn.

 

Samt er tæplega mjög sanngjarnt að gagnrýna þá sem lengi hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. En ég myndi engu að síður vilja benda því góða fólki á að í stað þess að ætla sér meira en hægt er að komast yfir með góðu móti, hlýtur lausnin að vera fólgin í því að kalla einfaldlega fleiri til verka. Ég er nefnilega alveg sannfærður um að það er mikið af óbeislaðri og vannýttri orku að finna í þessu ágæta félagi. Nú hefur ný stjórn verið kosin og ég vil óska Rakel Björns til hamingju með nýja embættið. En þar sem ég komst ekki á aðalfundinn þrátt fyrir góðan vilja og einlægan ásetning, var ég einmitt að aðgæta umræddan vef enn og aftur ef ske kynni að þar væri einhvern fróðleik að finna um hann.

Útkoman varð því miður eins og svo oft og svo lengi: "Minnum á myndakvöld félagsins 23. mars 2010 í Kornhlöðunni."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 279
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317586
Samtals gestir: 34775
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 20:35:42
clockhere

Tenglar

Eldra efni