14.07.2011 01:49

Dagur tvö

732. Á föstudagsmorguninn var enn þoka. Innlit á vedur.is gaf hins vegar tilefni til að ætla að "hann rifi það af sér" eins og stundum er sagt, eða að þokunni létti og það sæist jafnvel til sólar. Ekkert hafði þó breyst þegar leið að hádegi og þá var ákveðið að taka til áætlunar "B" sem reyndist hið besta mál eftir á séð. Það var ekið rétt upp fyrir skíðaskálann í Skarðsdal og þaðan gengið út á Leyningssúlur neðan þokurandarinnar. Það er stutt ganga og þaðan er frábært útsýni út fjörðinn, svo ekki sé talað um sjónhorn fyrir myndavélaeigendur.


Hér eru þau Edda, Ingi Gunnar og Kristjana frammi á Súlnahaus.


Magnús stillti myndavélina sína á 10 sec. og hljóp af stað til að geta verið með á myndinni.


Hann nálgaðist hratt.


Horfði aðeins til baka og hikaði.


En náði, og nú á ég bara eftir að fá að sjá afraksturinn þar sem ég fékk líka að vera með.


En áfram var gengið til suðurs og talsvert ofan við svonefndar Súlnabrúnir, inn í Selskál og út hana sunnanverða milli kletta. Þar sáum við forvitnilegan klettaskúta skammt fyrir ofan okkur sem okkur langaði reyndar til að skoða svolítið nánar, en eftir stuttan fund um málið var ákveðið að láta það ógert að sinni og haldið áfram. Eitt af því sem átti þó alveg örugglega að gera "næst".


Myndin hér að ofan er tekin fyrir ofan neðstu klettana norðan í Selfjalli og eins og sjá má er útsýnið ekki af verri endanum.


Eftir talsvert labb til viðbótar stóðum við undir hinum bráðmyndarlega Blekkli (Blekkill í nefnifalli) og gengum í átt að brún Lágblekkils. Það var líkast því að ganga á sléttlendi þar til við komum að brúninni þaðan sem innsti hluti Hólsdalsins lá fyrir fótum okkar eins og landakort.


Það var ekki laust við að sumir göngumenn hryggju frá brúninni, því svo óvænt breyttist landslagið úr sléttlendi í þverhnípi.


Frá Lágblekkli er líka frábært skotstæði fyrir myndavélar og áðurnefnda eigendur slíkra gripa.


Hvort er þetta steinn eða bein? Það var skotið á fundi og sitt sýndist hverjum. Það var svo ekki fyrr en "einhver" hafði bitið í, smakkað og smjattað svolítið, að úrskurður lá fyrir. Þetta var bein.


Það var stutt upp í Hólsskarð og sumir höfðu á orði að það væri freistandi að ganga örlítið hærra.


En niðurstaðan varð sú að það var gengið suður fyrir og niður. Bærinn hvarf næstum því sjónum okkar, en kom aftur í ljós þegar neðar dró. 


Svo var gengið niður með Hólsánni og næsta stopp var við Gálgafoss, en hann er u.þ.b. helmingi hærri en Leyningsfoss sem er höfuðdjásn Skógræktarinnar.


Skammt fyrir neðan hann eru nokkrir smærri fossar og sumir býsna laglegir, en ég hef ekki heyrt þá nafngreinda þótt þeir hafi líklega einhvern tíma borið einhver nöfn.


Sumir eru í Hólsánni sem heitir opinberlega Fjarðará, en aðrir í misjafnlega vatnsmiklum hliðar ám og lækjum.


Áfram var gengið í átt til byggða og fyrrverandi byggða.


Skammt ofan við stífluna gengum við fram á gamlar tóftir, líklega sels frá fyrri öldum. En á snokur.is er eftirfarandi klausu að finna um fornt býli norðan Blekkilsár og sunnan Selár: "Innarlega í Siglufjarðardal, vestan ár, gengt Hólsseli hefir bær verið á fyrri öldum. Er þar byggðarstæði eitt hið fegursta. Grundir miklar og breiðar, hallandi frá hlíð að á niður, túnefni því hið besta, slétt og víðlent mjög. Hefur bærinn staðið upp við rætur hlíðarinnar sem mjög er þar gróðurrík. Útsýn er og héðan sem best má vera, um byggð þessa og fjörð. Hefir tún verið slétt og allmikið. Takmarkar það lækjargil að sunnan, en túngarður mjög forn er skammt ofan bæjartófta vel skýr út hlíðarrætur; sér og nokkuð til hans norðan túns niður að á. Út frá honum eru hinar sömu sléttu engjabreiðar allt milli ár og fjalls, hefir býli þetta átt innri hlut þeirra en haglönd mikil og góð hið efra og innra til háfjalla.

Svo snemma hefir býli þetta í auðn farið, að ekki verður fundið nafn þess, þó hér sé því af staðháttum þetta nafn valið. Mun hér ekki hafa byggð verið eftir Svartadauða (1402) og máske lítil eða engin eptir 1300".


Fyrir ofan tóftirnar má svo greina hlaðinn garð.


Það var óvenju mikið vatn í Blekkilsánni sem er yfirleitt aðeins vinalegur og hjalandi lækur þegar liða fer á sumarið, en það reyndist svo sem ekkert stórmál að komast yfir hann að þessu sinni.


Stíflan og efri hluti Gálgafoss. Neðsti hlutinn sést ekki fyrr en komið er alveg að honum og sömuleiðis eru hinir minni fossar örlítið neðar í ánni alveg í hvarfi.


Næsti og jafnframt lokaáfangastaðurinn var skógræktin sem er nyrsti "skógur" á Íslandi. Það er spurning hvort ekki er kominn tími til að finna eitthvert virðulegra og mikilfenglegra nafn á þetta svæði en skógræktin. Eitthvað nafn sem endar t.d. á SKÓGUR. Þegar sá sem þetta ritar var að vinna í unglingavinnunni á árabilinu 1965-70, náðu allra hæstu trén honum u.þ.b. í axlir, en núna teygja þau hin sömu vel á annan tug metra upp í loftið.


Skógræktin í Skarðsdal er algjör perla og Leyningsfoss sem einnig nefndist Kotafoss er eins og vel þroskað jarðarber ofan á dýrindis rjómatertu.


Ekki gátu þó sumir setið á sér, heldur klifruðu upp fyrir fossinn og settust á klettabrúnina þar sem hann fellur fram af brúninni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og dingluðu fótunum fram af henni.


Ekki er hægt að sleppa því að nefna að á leiðinni að bílastæðinu "gleymdu menn" einni beygjunni á stígnum sem liggur þangað og var þeirri sök klínt á Magnús sem fór fyrir hluta hópsins, að hann hefði villst í skóginum. Þó lá fyrir að sá hluti göngumanna hefði hvorki rekist á Rauðhettu né úlfinn, en nánar um það í næsta hluta.


1. Upphaf ferðar ofarlega í Skarðsdal.

2. Leyningssúlur.

3. Neðstu klettarnir í norðanverðu Selfjalli.

4. Lágblekkill.

5. Gálgafoss (í hvarfi).

6. Skógræktin.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316610
Samtals gestir: 34534
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:00:17
clockhere

Tenglar

Eldra efni