25.07.2011 03:12

Hestamannatrússferð sem var botnuð með Botnaleið

734. Vildi bara að láta aðstandendur og skyldmenni vita að menn eru komnir af fjöllum. Og til að sýna fram á þeir (ég) hafi verið þar en ekki einhvers staðar allt annars staðar, tel ég rétt að famvísa nokkrum gögnum um hestaferðina upp á hálendið sem stóð í heila viku og sjá má hér að neðan.


Agnar oddviti í Akrahreppi og "prestsmaddama" á Miklabæ flutti mjög hátíðlegt og tilfinningaríkt ávarp í Miklabæjarkirkju og opnaði, ef þannig mætti að orði komast ferðina. Agnar sem er guðfræðingur að mennt rétt eins og eiginkonan Dalla, hreif alla viðstadda með stuttorðu en ótrúlega gagnorðu ávarpi sínu þar sem hvert einasta atkvæði var þrungið innihaldsríkum boðskap. Víða mátti sjá tár á hvarmi viðstaddra eftir að Agnar hafði lokið hinni tilfinningaþrungnu ræðu sinni.


Til að fullkomna þessa hátíðlegu stund hafði Kjartann (faðir Sigurjóns Kjartanssonar leikara) sem er fyrrverandi organisti Bústaðarkrikju, verið fenginn til að leika nokkur valin verk á hljóðfæri kirkjunnar. Ýmsir fleiri komu að athöfninni, m.a. með upplestri og hljóðfæraslætti, en þar sem ég ekki fengið samþykki þeirra fyrir mynd og nafnbirtingu, læt ég alla vega bíða að minnast á annars mikið og gott framlag þeirra.


En til að gera langt mál mjög stutt, þá var riðið þaðan upp Austurdal og yfir Merkigil. Þaðan lá leiðin yfir jökulsána og yfir Vesturdal, fram hann og síðan upp úr Skagafirði um Gilhagadal sem er nokkru innan við Mælifell. Þá var gert stutt stopp við Buguvatn á Eyvindarstaðaheiði, en eftir það var haldið að Galtará sem er vestan Blöndulóns. Þaðan sést vel yfir miðhálendið s.s. til Hofsjökuls, Kerlingafjalla, Langjökuls og Eiríksjökuls. Þar var staldrað við í tvo daga og síðan riðið svipaða leið til baka. Komið var niður Mælifellsdal.


Sigurður Hansen skáld á Kringlumýri drakk mikið magn kókómjólkur í ferðinni, en á myndinni má einmitt sjá hann með eina slíka fernu.


Dragspilið var þanið við hvert tækifæri sem gafst og hinir Skagfirsku hetjutenórar tóku þá vel undir og hljómuðu eins og englakór hálfguðlegra vera. Við sem ekki vorum af rammskagfirsku kyni, reyndum sem við gátum að fyllta bassann og sungum aðrar milliraddir sem ekki kröfðust jafn mikilla raddgæða.


Það var líka safnað í minningasjóð með aðstoð kísilflögu og tölvutækninnar. Það er bæði gott og veitir vissa öryggiskennd að hafa bæði sálfræðing og lækni með í ferð, þó að ekki hafi þurft að leita verulega mikið til þeirra í ferðinni. En til gamans má geta þess að Viðar læknir og saxófónleikari spilaði með Miðaldamönnum  árið 1981 þegar Erla Stefáns söng með okkur "Eftir ballið" inn á plötu:


Lagt var upp með hvorki meira né minna en 130 hesta frá Miklabæ, en 40 þeirra urðu eftir við Gilsbakka í Austurdal. Það voru því u.þ.b. 90 hross sem fylgdu reiðmönnunum alla leið. Ferðin var aðstandendum hennar í alla staði til mikis sóma.

Hér er Þórólfur bóndi (t.v.) á gangi ásamt sr. Sigfinni. Mér reiknast til að það hafi verið 1,36 guðfræðingur með í för á hverja 10 reiðmenn, en það skal tekið fram að lítið er vitað um trúarlíf og kirkjurækni Þórólfs.


Þessari frábæru og ég verð að segja mannbætandi ferð, lauk formlega hvað mig áhrærir á miðnætti að loknum föstudegi, en akkúrat þá gekk ég í hús á Siglufirði. Strax á laugardagsmorguninn var svo farið að búa sig af stað í þá næstu, sem var að vísu öllu styttri en reyndist þó ekkert sérlega auðveld þeim sem hafa trassað að hreyfa sig nægilega og bætt heilum 10 kg. af óvelkomnum "aukafarangri" utan á sig á síðustu mánuðum.


En nánar má lesa um þá ferð á siglo.is og slóðin þangað er... 

http://www.sksiglo.is/is/news/ganga_ferdafelagsins/ 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 321
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 469
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 2137733
Samtals gestir: 299265
Tölur uppfærðar: 15.12.2018 23:03:29
clockhere

Tenglar