29.07.2011 15:31

Síldarævintýrið að bresta á


Svona tók Siglufjörður á móti þeim sem komu í bæinn aðfararnótt föstudagsins 29. júlí. Það er ekkert hægt að setja út á móttökur af þessu tagi. 

735. Það var í meira lagi fúlt að þurfa að þeysa suður á bóginn á þriðjudaginn s.l. frá Siglufirði úr glampandi sólskini, hægviðri og steikjandi hita, suður yfir heiðar í rigningarúðann og þokuslæðinginn sem þar lá yfir öllu. En það var ekki hjá því komist og stærsti kosturinn við að vera kominn suður, var sá að það var strax hægt að fara að láta sig hlakka til næstu norðurferðar. Dvölin á suðvesturhorninu átti nefnilega að verða stutt sem og varð. Fram undan er Síldarævintýrið sem virðist ætla að verða eitt hið fjölmennasta frá upphafi og strax við komuna norður sá þess þegar merki sem stefnir í og glöggir spámenn höfðu þá íað að um tíma. Fjöldi húsbíla, tjaldvagna, fellihýsa og alls kyns færanlegra vistarvera er nú þegar orðinn mun meiri en oftast hefur sést á miðjum laugardegi þegar fjöldinn hefur vanalega verið mestur. Í síðdegisútvarpinu í gær var ferðafólk beðið um að sýna sérstaka aðgát á Siglufjarðarvegi þar sem útlit væri fyrir að þar myndi verða óvenju mikil umferð farartækja af fyrrnefndum gerðum, en í hádegisfréttum á rás 2 í dag (föstudag) var aðeins talað um strauminn sem lægi til Vestmannaeyja, Akureyrar og Egilstaða. (Veit fólkið á þeim bæ ekki hvar er í gangi?) Svo hefur frést af óvenju miklum flutningum á vistum og fleiru ( t.d. fljótandi brauði) til bæjarins allra síðustu dagana, því Finni Hauks vill ekki lenda í þeim bömmer eina ferðina enn að hillur tæmist og veitingamenn vilja auðvitað geta látið dæluna ganga alla helgina.


Veðurspákort Bigga Inga frá því fyrr í vikunni. Það er líka ætlað þeim sem eru haldnir valkvíða og til að efla rétthugsun.

Á myndin hér að ofan segir okkur af þeim væntingum og spám sem voru gerðar til veðursins fyrr í vikunni, en því miður virðast veðurguðirnir ætla að verða eitthvað fýlugjarnari en við hefðum helst kosið. Það er svo önnur spurning hvort nokkuð betra sé að fara nokkuð annað? Svarið við því hlýtur að vea NEI, þar eru útlit og horfur ekki betri og sólin er líka til í fleiri birtingarmyndum en þessari heiðgulu sem hellir stundum brennheitum geislum sínum yfir okkur mannfólkið. Við mætum því bara með hana í sjálfri sálinni og sinni, og eigum saman frábæra helgi hvort sem við fáum svolitla gróðrarskúr eður ei.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 321
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 469
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 2137733
Samtals gestir: 299265
Tölur uppfærðar: 15.12.2018 23:03:29
clockhere

Tenglar