11.08.2011 00:01

Rednex, fjallahugleiðingar og krúttlegir hlaupaskór


739. Fyrir þá sem eru fjarri "góðu gamni" eða öllu heldur góðu veðri, skal upplýst að hér á Sigló var einmuna veðurblíða í dag. Ekki sást svo mikið sem fjaðurskýtutla á himni, sólin gat því hellt geislum sínum yfir síldarbæinn alveg óhindrað og gerði það líka alveg svikalaust. Hitamælirinn á Sparisjóðnum sýndi 22 stig eftir hádegið, en var komin ofan í 19 stig þegar leið að kvöldmatartíma.




Ég horfði mikið til fjallanna í dag og ekki síst Pallahnjúks, Dísarinnar og Móskógarhnjúks, en mig hefur lengi langað til að ganga frá Hestskarði til Hólsskarðs.




Margir hafa þó latt mig til þeirrar ferðar og sagt mér að ekkert vit sé í að klífa Pallahnjúk frá Hestskarði. Ég veit svo sem allt um það því ég hef staðið í skarðinu og horft upp eftir fjallsegginni. Samt langar mig til að þó ekki sé nema að skoða málið aðeins áður en ég tek undir slíkar skoðanir.




Það sem varð þó til þess að ekkert var gert í neinum slíkum málum, var að ég hafði meira en nóg að sýsla við að færa til og endurbyggja "gömlu" tröppurnar við Suðurgötu 46. Reyndar eru þær ekki svo mjög gamlar, en fyrri hönnuður og samsetningarmaður þeirra viðurkenndi nýlega fyrir mér að allmargir "baukar" hefðu verið hafðir við hönd við gerð þeirra á sínum tíma. Það sést líka ágætlega ef menn renna "smiðauganu" eftir kjálkunum. Áður var þó búið að "nýsmíða" efsta hlutann og færa miðhlutann þó nokkuð marga sentimetra til suðurs. Í framhaldinu verður svo  væntanlega ráðist í gerð handriðs.




En svo  má ég ekki láta hjá líða að minnast á þessa geggjuðu "hlaupaskó" sem ég sá í dag á fótum upprennandi íþróttakempu. Þessi útfærsla fékkst alla vega ekki í skóbúðinni hjá Óla Tóra hér í denn, svo mikið veit ég.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 305
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317612
Samtals gestir: 34779
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 22:43:45
clockhere

Tenglar

Eldra efni