08.03.2012 21:52

Vafasöm umboðssala


805. Á enn einu flakkinu um netheima rakst ritari þessa greinarstúfs á eftirfarandi auglýsingu:

"Umboðssalan husgogn.net er netverslun sem hefur vöruhúsnæði í Miðhrauni 15. 210 Garðabæ, þar sem hægt er að nálgast þær vörur sem eru á heimasíðu verslunarinnar.

Til að koma með vöru í sölu hjá okkur biðjum við um að eigandi þeirra sendi myndir og ítarlegar upplýsingar um vöruna á netfangið husgogn@husgogn.net einnig eru skilmálarnirnir sem hér segja:

Umboðslaun eru 25% af söluverðmæti vörunnar að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti. Söluandvirði vörunnar að frádregnum sköttum og kostnaði legst inn á reikning eiganda vörunnar.

Umboðssalan skuldbindur sig til að hafa vöruna í umboðssölu og skráða á heimasíðunni husgogn.net í 7 vikur. Seljist varan á því tímabili skal umboðssalan greiða andvirði hennar inn á reikning eiganda vörunnar.

Seljist varan ekki innan tiltekins tíma skal umboðssalan tilkynna eiganda með tölvupósti um endanlok samnings þessa og eigandi vörunnar sækja hana innan 4 daga eftir að samningi lýkur. Ef varan er ekki sótt innan tiltekins tíma telst umboðssalan eigandi vörunnar og getur ráðstafað henni að vild.

Umboðssalan ber enga ábyrgð á hugsanlegum göllum á vörunni né skemmdum sem varan getur orðið fyrir.

Umboðssalan skuldbindur sig til að vera með vöruna til sýnis á heimasíðuni husgogn.net meðan að þessi samningur er í gildi.

Eigandi getur ekki rift samningi þessum á ofangreindum gildistíma en óski eigandi að taka vöruna úr umboðssölu innan tímaramma samningsins skal hann greiða 15% af söluandvirði vörunnar að viðbættum virðisaukaskatti til seljanda".

Eftir að hafa lesið auglýsinguna vel og vandlega yfir og sumar málsgreinar hennar reyndar oftar en einu sinni, var ekki laust við að svolítill pirringur gerði vart við sig vegna þess sem þar bar fyrir augu. Tökum nokkur dæmi.

"Umboðslaun eru 25% af söluverðmæti vörunnar að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti".

Seljandi heldur því eftir 68.625% af andvirði hins selda. Það má auðvitað hafa mismunandi skoðanir á því hvað sé sanngjarnt og hvað ekki, en kannski er þarna um að ræða þokkalega útkomu fyrir seljandann ef varan selst á annað borð, því varla er hægt að halda því fram með góðri samvisku að ásett verð sé á lægri nótunum.

Svo er sett fram áætlun um söluferli sem miðað er við að standi í sjö vikur. Það er auðvitað ágætt að vera skipulagður og hnitmiðaður í athöfnum sínum, en böggull fylgir skammrifi og skemmda rúsínan í pylsuendanum lætur sig ekki vanta.

"Seljist varan ekki innan tiltekins tíma skal umboðssalan tilkynna eiganda með tölvupósti um endanlok samnings þessa og eigandi vörunnar sækja hana innan 4 daga eftir að samningi lýkur. Ef varan er ekki sótt innan tiltekins tíma telst umboðssalan eigandi vörunnar og getur ráðstafað henni að vild".

Þarna er seljanda og eiganda sett frekar þröng tímamörk. Reyndar svo þröng að telja verður líklegt að margir sofni á verðinum og vakni síðan upp við vondan draum á fimmta degi eða enn síðar. En ef þeir þekktu réttarstöðu sína þyrftu þeir ekkert að óttast, því að einhliða sett regluverk eins og þau sem fela í sér eignaupptöku í einhverri mynd eru kolólögleg. Reynt hefur á slíkt m.a. í sambærilegum málum þar sem verkstæði í ýmsum geirum, innrömmunarfyrirtæki og fatahreinsanir hafa átt í hlut, en þeir aðilar tapað svoleiðis málarekstri í öllum tilfellum. Enginn getur tekið sér rétt til að leysa til sín ósóttar eigur annarra nema að undangengnu opinberu uppboði. En það eru alltaf til einhverjir óprúttnir aðilar sem eru tilbúnir að nýta sér vankunnáttu fólks og svo er auðvitað hugsanlegt er að þeir viti ekki betur sjálfir í mörgum tilfellum.

"Umboðssalan ber enga ábyrgð á hugsanlegum göllum á vörunni né skemmdum sem varan getur orðið fyrir".

Jafnvel ekki einu sinni ef hún skemmist í hennar vörslu eða af völdum starfsmanna hennar?

".óski eigandi að taka vöruna úr umboðssölu innan tímaramma samningsins skal hann greiða 15% af söluandvirði vörunnar að viðbættum virðisaukaskatti."

Allt er á eina bókina lært og fært. Annar aðilinn seilist ansi langt í að tryggja sig og ber alltaf eitthvað úr býtum nánast sama hvernig málum lyktar, axlar enga ábyrgð og hefur í hótunum um eignaupptöku, en hinum eru settir þröngir kostir og ber allan þann skaða og/eða kostnað sem fallið getur til. Ekki beint sanngjarnt.

Ég mæli með því að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það nýtir sér þjónustu af þessu tagi.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 428
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306734
Samtals gestir: 33259
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:29:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni