12.07.2012 09:20

Úti að aka



826. Það er ekki orðum aukið að undanfarna mánuði hafa flestar gerðir bíla, akstur og umferð, öryggismál, vegamál, að ógleymdum atvinnumálunum, verið það sem flest hefur snúist um allt þar til í þessari vikur sem nú er að líða. Sá tími sem farið hefur í nám við Ökuskólann í Mjódd frá því snemma í aprílmánuði sl., hefur verið aldeilis frábær og skemmtileg upplifun að sitja á skólabekk eftir 35 ára hlé. Þá er ekki verra að uppgötva að það sem hræddi einna mest var ekki það vandamál sem óttast var, en það var að hæfileikinn til að nema eitthvað nýtt væti að mestu fyrir bí vegna aldurs. Það var bóklegi þátturinn og það sem ég hef kallað teflonheilkennið sem fer venjulega vaxandi með árunum, sem var sérstaklega óttast að ætti alveg sérléga illa saman.




En síðan kom í ljós að það var einmitt bóklegi þátturinn sem heillaði. Umferðarsálfræði og Saga umferðar og ökutækja var eitt af því sem kom skemmtilega á óvart og í hinu síðar nefnda átti skrifarinn nokkra létta spretti í kennslustofu þar sem hann miðlaði m.a. myndinni hér að ofan, en þar er verið að leggja veginn yfir Siglufjarðarskarð þar sem verkfærinn eru aðallega haki, skófla, járnkarl og hjólbörur. Þeir sem yngri voru áttu svolítið erfitt með að trúa því að slík vinnubrögð hefðu nokkru sinni tíðkast svona í alvörunni og það mátti sjá einstaka enni hrukkast í forundran og einhverja setti hljóða. Því miður man ég ekki hvar, hvenær eða hvernig þessa sögulegu mynd rak á fjörur mínar, en hún segir segir okkur mikla sögu.




Og svona auglýsu menn í upphafi bílaaldar á Íslandi, eða nánar tiltekið árið 1926.




Ég rakst á þessa athyglisverðu grein þegar ég átti leið um netslóðir nýlega og leit eftir einhverju gömlu og kannski svolítið sögulegu þar sem umjöllunarefnið var bílar og umferð fyrir hart nær öld síðan. Hún birtist í Vísi þ. 19. júlí árið 1929 og ef til vill eru þarna á ferðinni fyrstu hugrenningar um nauðsyn þess að bílstjórar sé vel undirbúnir undir akstur sem meiri ábyrgð fylgir og fari ekki of snemma af stað í slíkt, eða það sem við köllum í dag meiraprófið.




S.l. þriðjudag tók ég "trailerprófið" eða próf á bíl með eftirvagn og gæti því samkvæmt myndini hér að ofan stuðlað að dreifingu hákarla um land allt, en CE prófið svokallaða var síðasti áfanginn í prófaröðinni. Var þar með þessum kafla lokið og tími til kominn að leta fyrir sér og nýta nýfengna þekkingu.




Það tók hvorki langa stund eða kostaði mikla fyrirhöfn að leita sér að vinnu, því á mánudaginn sl. byrjaði ég að aka strætó innanbæjar í Kópavogi af öllum leiðum og stöðum og það varð auðvitað að skella einu skoti á karlinn þegar hann smellti sér í búninginn fyrsta daginn. Það er margt sem erfitt er að sjá fyrir og ein lítil beygja á lífsleiðinni getur breytt öllu því sem á eftir fer. Í byrjun árs sá ég fyrir mér að ég yrði að vinna á Siglufirði a.m.k. eitthvað fram eftir árinu, fáeinum vikum síðar munaði minnstu að ég hæfi verslunarrekstur á Laugaveginum, en í aprílmánuði skráði ég mig í meiraprófið, eiginlega í hálfgerðu bríaríi. Nú er bara að bíða spenntur og sjá til hvert þessi ákvarðanataka leiðir.



Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 312
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317936
Samtals gestir: 34857
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 19:09:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni