19.11.2013 01:42

Gluggahlerar með boðskap897. Þetta hús stendur á horni Bergþórugötu og Frakkastígs. Ef horft er beint á þær hliðar hússins sem snúa að umræddum götum, virðist þetta vera að öllu leyti eðlilegt og óskup venjulegt hús. En ef gengið er fyrir horn þess, koma þessir rauðu gluggahlerar í ljós og af þeim má lesa mjög svo skorinorðan boðskap eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Þarna hefur hún Auður farið á flug.

-

Hér undir er nýr gjörónýtur gluggi

frá Trésmiðju Stálsmiðjunnar

og

Hér undir eru ¾ af vanefndum, 

fullgreiddum, nú ónýtum glugga 

frá Trésmiðju Stálsmiðjunnar.

-

Á efri hæðinni býr rithöfundurinn Auður Haralds sem óhætt er að segja að sé þekkt fyrir að hafa munninn fyrir neðan nefið, fátítt sé að hún liggi á skoðunum sínum um nær hvaða málefni sem er og eigi það til að tjá hug sinn allan alveg svikalaust ef henni býður svo við að horfa.

Fyrsta skáldsaga hennar "Hvunndagshetjan: Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn" kom út árið 1979" vakti mikla athygli. Síðan komu út "Læknamafían" 1980 og "Hlustið þér á Mozart" 1982.

Eftir það skipti hún alveg um gír og skömmu síðar komu út þrjár bækur hennar um Elías sem byggðu á innslögum sem hún skrifaði fyrir Stundina okkar sem Sigurður Sigurjónsson lék og svo unglingabókin "Baneitrað samband á Njálsgötunni" 1985, en síðar var gerð leikgerð af því og það flutt m.a. í Íslensku Óperunni.

Árið 1987 kom svo út síðasta skáldsaga hennar til þessa í hinu hefðbundna bókarformi "Ung, há, feig og ljóshærð", en undir aldamótin skrifaði hún svo söguna "Hvað er Drottinn að drolla" sem var birt á bókavefnum á Strik.is árið 2000

Einhvern tíma milli 1990 og 2000 sá Auður um þáttinn "Sunnudagslærið" ásamt blaðakonunni og bókmenntarýninum Kolbrúnu Bergþórsdóttir sem við þekkjum m.a. úr Kiljunni hans Egils Helgasonar. Þær virtust eiga vel saman í þeim þætti, enda báða hæfilega "kjaftforar" (afsakið orðbragðið) og voru lítið fyrir að skafa utan af hlutunum. Í þeim þætti sagði Auður eitt sinn "þegar ég verð ekki lengur fyrir kynferðislegri áreitni, verður lítið gaman að vera til". Kolbrún hefur oftar en ekki átt það til að segja eitt og annað sem fer misjafnlega í menn. Hún varð m.a. mjög undrandi á sterkum viðbrögðum knattspyrnuáhugamanna við ákvörðun Sir Alex Ferguson að hætta störfum sem knattspyrnustjóri Manchester United og skrifaði þá í Moggann: "Þeir voru hágrenjandi allan daginn og ræddu þetta frá níu til fimm. Það var ekki vinnufriður fyrir karlmönnum sem voru í tilfinningalegu uppnámi. Ég er orðin mjög þreytt á þessu". Og það var auðvitað ekki að sökum að spyrja, allt varð hreinlega vitlaust og netheimar loguðu.

En á neðri hæð hússins við Bergþórugötu býr Páll Björgvinsson og hafa þau Auður eldað saman grátt silfur allt frá því að hann keypti hæðina fyrir fáeinum árum.

Ég á hús við Njálsgötu og liggja lóðir okkar því sem næst horn í horn. Eitt sinn ákvað Auður að breyta þakinu hjá sér og setja á það glugga. Þá var henni sagt að til væri eitthvað sem héti "grenndarkynning" og hún þyrfti að fara eftir ýmis konar reglugerðum o.þ.h. ef hún vildi gera hlutina rétt. Það fannst henni svo sem ekkert stórmál og í framhaldinu hringdi hún m.a. í mig og ég leit við hjá henni til að setja nafnið mitt á blað sem var auðsótt mál. Það fór annars vel á með okkur, ég staldraði við í 2 og ½ tíma og við kepptumst við að hafa orðið hverja einustu mínútu. Gleymi þeirri heimsókn líklega aldrei. En þegar farið var að eiga við þakið kom eitt og annað í ljós eins og gengur, allmargar fúnar spýtur hér og eitthvað af haugryðguðu bárujárni þar. Allmargir hundraðþúsunkallar voru því farnir í aðgerðina umfram kostnaðaráætlun áður en yfir lauk. Þá rukkaði hún Pál nágranna sinn um hans hlut en hann neitaði að borga. Og þar sem hún var meirihlutaeigandi hússins í rúmmetrum talið taldi hún sig geta tekið þær ákvarðanir sem henni þóknaðist í krafti atkvæðahlutfalls upp á heil 65% af heildareign, enda vildi hún helst ekki eiga nein samskipti við Pál og talaði reyndar aldrei við hann ótilneydd. En þar sem hún taldi af sömu ástæðum hinn mesti óþarfi að boða Pál á húsfund þó ekki væri nema formsins vegna, tapaði hún auðvitað málinu.

-

Andri Freyr og Gunna Dís tóku vægast sagt MJÖG hressilegt svokallað Drottningarviðtal í maí sl. í þætti sínum Virkir Morgnar þar sem Auður lætur hreinlega allt vaða.

Slóðin þangað er http://www.youtube.com/watch?v=6eXzOLQ0f8k

-

Og Auður Haralds mér og öðrum aðdáendum sínum til mikillar gleði, er um það bil að hefja aftur störf á rás 2 eftir allt of langt hlé, en þar mun hún væntanlega verða með vikulega jólabókaflóðskrídik í þættinum "Virkir Morgnar" næstu vikurnar eða allt fram að jólum. Hún var í eins konar kynningarviðtali í morgun, en fyrsti eiginlegi þáttur hennar verður næsta þriðjudag væntanlega skömmu fyrir hádegi.

En hún verður líklega þrátt fyrir allt að teljast vera svolítil frekjudós svona í eðli sínu, en hún er líka frábær rithöfundur, var stórskemmtileg útvarpskona hér í denn og verður það eflaust aftur, svo og ein þeirra sem mun alltaf standa bæði út úr og upp úr, - eða þannig.

Hún verður 66 ára þ. 11. des. nk.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar