08.12.2013 03:48

Kótilettukvöld togarajaxlanna



900. Síðast liðið fimmtudagskvöld hittust Hafliðaguttarnir á nítjándu hæðinni í Turninum og gerðu sér gott af algjörlega ófituhreinsuðum kótilettum ásamt tilheyrandi og raunar bráðnauðsynlegu meðlæti, þ.e. brúnuðum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli, brúnni sósu, súrsuðum gúrkum og rabarabarasultu að ógleymdri blessaðri laukfeitinni sem átti það til að vella úr munnvikum átfundarmanna ef þeir voru ekki þeim mun settlegri.

Hljómar þetta annars ekki hæfilega virðulegt, ákaflega heilsteypt, passlega forvitnilegt og verulega seðjandi?

Eins og sjá má af disknum MÍNUM  sem myndin er af hér að ofan, var tekið hraustlega til matar sins. Og ég er hreint ekki frá því að hann hafi alls ekki verið ofhlaðinn, heldur miklu frekar dæmigerður fyrir línuna og lýsi beinlínis skoðunum "Jaxlanna" á hvernig taka á til matar sins þegar almennilegt fóður er á borðum.

Kótilettur hafa átt æ meira undir högg að sækja eftir því sem árin hafa liðið og því miður orðið að lúta í lægra haldi fyrir ýmis konar ruslfæði sem mun minna hefur þurft að hafa fyrir að matreiða, en full ástæða er til að gera átak í að halda heiðri hennar á lofti meira en gert hefur verið um árabil. Nokkuð hefur borið á því undanfarin misseri að stofnað hefur verið til kótilettukarla og kvennafélaga sem er vel. Kótilettan var nefnilega að verða eins konar "antikréttur" á þeim matseðlum veitingahúsa þar sem hún sást ennþá, en það var reyndar orðið svo óvíða að segja má að stefnt hafi í útrýmingarhættu hennar.

En nú er sem betur fer að verða vakning meðal þjóðarinnar og þessi mjög svo þjóðlegi réttur er að öðlast sinn virðingarsess á ný sem hann á svo sannarlega skilið, og svo virðist sem eins konar kynslóðaskipti séu að verða, þegar kemur að hinni íslensku matargerðarlist og hefð. Kótilettufélög eru að verða til í hverju plássi rétt eins og þorrablótin með sínum pressuðu pungum, kjömmum og súrhveli voru endurvakin í Naustinu fyrir um það bil hálfri öld.

Sjá nánar á: http://www.siglo.is/is/frettir/herrakvold-kotilettufelags-haflidaguttanna

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 500
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 128
Samtals flettingar: 306066
Samtals gestir: 33225
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 09:51:37
clockhere

Tenglar

Eldra efni