09.02.2014 04:17

Við Reykjavíkurtjörn




910. Í gærmorgun þegar sólin var að koma upp, opnaði dagurinn sig í mikilli litadýrð yfir snjóhvítum Bláfjöllunum. Skýin tóku á móti birtu nýs dag og endursendu okkur mannfólkinu hana löngu áður en við gátum numið þau beint og milliliðalaust frá ljósgjafanum mikla þegar hann lyfti sér upp fyrir sjóndeildarhringinn.

Gult, bleikt, rautt og appelsínugult á heiðblárri festingunni. Ég bölvaði í hljóði. "Hvað það getur verið skítt að eiga ekki almennilega myndavél".

Svo vaknaði allt.

Eftir vinnu fór ég í aðra vinnu, en eftir hana hélt ég áleiðis heim. Dagur var að kvöldi kominn og sólin að setjast í engu minni litadýrð en um morguninn. Ég ók fram hjá Tjörninni og dáðist að því sem fyrir augu bar. Ég var næstum því kominn fram hjá henni þegar ég fékk bakþanka og snéri við, fann mér laust stæði eftir svolitla leit og gekk fram á völlinn vopnaður gömlu, þreyttu og löskuðu myndavélinni sem varð bara að duga rétt eina ferðina enn því ekkert annað var í boði.

Það ríkti einhver undarleg og lotningarfull kyrrð yfir öllu. Mest heyrðist í fuglunum við bakkann. Skvamp, vængjasláttur, kvak. - Agndofa útlendingar með myndavélar á lofti. - Hljóðlátir Íslendingar horfðu út á tjörnina og nutu kyrrðarinnar. - Einhverjir útdeildu brauðmeti til fiðraðra vina sinna. - Ungmenni voru á rölti úti á ísnum.

Heildarmyndin nálgaðist fullkomnunina svo mikið að nær því takmarki verður vart komist.











Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 277
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317901
Samtals gestir: 34843
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 15:41:19
clockhere

Tenglar

Eldra efni