07.03.2014 09:34

Borgarafundur um áfengismál
915. Margt var svo mikið öðruvísi hér í denn að það þarf að setja sig í sérstakar stellingar til að meðtaka það sem fyrir augu ber þegar grúskað er í gömlum blöðum. Ég rakst á greinina hér að neðan í Siglfirska kratablaðinu NEISTA frá 29 nóv. 1945.


Almennur borgarafundur um áfengismál var haldinn s.l. sunnudag. Að fundi þessum stóðu helztu félagssamtök hér í bæ. Ræður fluttu: Frú Þóra Jónsdóttir, Guðmundur Hannesson bæjarfógeti, frú Sigurbjörg Hólm, Einar Albertsson verkamaður, Hlöðver Sigurðsson skólastjóri og Jóhann Þorvaldsson kennari. Ennfremur: Jón Jóhannesson, Jóhann G. Möller og Gunnar Jóhannsson. Fundarstjóri var Pétur Björnsson og ritari Nils Ísaksson.

Eftirfarandi ályktanir voru gerðar á fundinum:

"Almennur Borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945, skorar á hin ýmsu félagssamtök í bænum að hefja samstarf um að vinna gegn áfengisneyzlu, meðal annars á eftirfarandi hátt:

1. Að sjá um, að áfengi sé eigi um hönd haft á skemmtunum, sem félögin standa að, eða ölvuðum mönnum leyfður inngangur.

2. Að félögin vinni að því, að meðlimir þeirra hafi ekki áfengi um hönd á opinberum skemmtistöðum.

3. Að félögin, hvert í sínu lagi, ræði áfengismálin á félagsfundum og hvetji meðlimi sína til að vinna gegn áfengisneyzlu. Jafnframt hafi félögin samstarf um þessi mál.

"Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945 lítur svo á, að brýna nauðsyn beri til að í öllum skólum landsins séu haldnir fræðandi og hvetjandi áminningarræður um nauðsyn bindindis og reglusemi nemenda."

"Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945 lítur svo á, að áfengisneyzla þjóðarinnar sé nú svo mikil, að stórkostleg menningar og fjárhagsleg hætta stafi af.

Fundurinn telur það algjörlega óhæft að mikill hluti tekna ríkisins sé ágóði af áfengissölu, og

skorar því á alþingi og ríkisstjórn að vinna að því í náinni framtíð, að íslenzka ríkið byggi ekki afkomu sína á slíkum tekjum."

"Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945, skorar á ríkisstjórnina að láta koma til framkvæmda lög um héraðabönn. Ennfremur lýsir fundurinn því yfir, að hann telur óhjákvæmilega nauðsyn að áfengisútsölu ríkisins á Siglufirði sé lokað yfir síldveiðitímann.

 

Svo mörg voru þau orð.

 

En mér þykir rétt að láta kauptaxtann frá sama ári og fundurinn var haldinn fylgja þessari upprifjun, svona rétt til að minna á að full ástæða var að hafa ráðdeild og sparsemi að leiðarljósi þegar hugað var að áfengiskaupum.Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123256
Samtals gestir: 297267
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 18:17:43
clockhere

Tenglar