15.03.2014 02:46

Umhleypingar

916. Vér Frónbúar munum eflaust verða seint þreyttir á að spá í veðrið, velta fyrir okkur hvenær það breytist næst, hvernig og hvað geti hugsanlega verið handan við hornið í þeim málaflokki. Við erum ýmsu vön og stundum höfum við leyft okkur að henda gaman að því að einn og sami dagurinn geti vel átt það til að sýna okkur sýnishorn að flestum þeim veðurafbrigðum sem á annað borð eiga það til að sýna sig hérna á skerinu.

Nokkuð sem gerist ekki alls staðar í henni veröld.

Í vikunni sem nú er senn liðin fengum við sem búum hérna á suðvesturhorninu svolítinn skammt af umhleypingum.
Dagur 1.

Síðustu dagana hafði tekið upp snjóinn sem síðast kom og það var orðið því næst sem autt.

Allt í einu en þó ekki aðlveg að óvörum fór að snjóa og þær voru svo sannarlega ekki af minni gerðinni flyksurnar sem svifu til jarðar og þöktu hana hvítu teppi á skammri stundu.

Að kvöldi hafði teppið þykknað það mikið að mun réttara orðalag yfir úrkomu dagsins var jafnfallinn snjór upp á einhverja tilgreinanlega þykkt samkvæmt viðeigandi mælieiningum.
Dagur 2.

Snjórinn síðan í gær var á hröðu undanhaldi, enda rigndi eins og enginn væri morgundagurinn. (Þó hann væri auðvitað tiltölulega skammt undan, - alla vega ef horft er til jarðsögulegra tímaviðmiðana).

Ég kom við í Bónus á Hrauninu í Hafnarfirði á leiðinni heim. Öðru megin við húsið eða þeim megin sem ég er vanur að leggja, var ekki mikið um nýtileg bílastæði eins og á stóð. Niðurfall hafði greinilega stíflast eða það hafði ekki undan flaumnum og svæðið ekki skótækt. Það mæta nebblega sárafáir í búðina á vöðlum. Allir voru því hinum megin og þar var algjört bílakraðak.
Dagur 3.

Það var næstum því eins og sumarið væri komið. Engin rigning lengur og allir búnir að gleyma að það hefði snjóað nokkuð að ráði þennan veturinn. Aðeins vantaði þó enn upp á græna, rauða, gula og bleika litinn í gróðrinum.

Þetta er nú meiri tíðin sögðu menn hver við annan og nutu veðurblíðunnar á stutterma.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 574
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123350
Samtals gestir: 297269
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 20:12:19
clockhere

Tenglar