17.03.2014 09:57

Lítill flutningabíll með mikla flutningsgetu917. Það er stundum haft á orði um ýmsar tegundir smábíla að þeir séu stærri að innan en utan. Auðvitað er þetta oftar en ekki sagt í léttu grínu og þá væntanlega helst af eigendum þeirra sem tala þá upp veg þeirra, getu og gagnsemi og gera heldur meira úr öllu saman en útlitið bendir til. Sennilega bera þessar línur vott um að sá sem þetta ritar er engin undantekning á reglunni því ég er bæði ánægður og upp með mér af mínum smáa en rýmisgóða, burðarmikla (þó ekki íburðar), ólseiga og notadrjúga "flutningabíl".

Þannig bar til að ég keypti eitt eurobretti af varningi af innflytjanda sem hafði ákveðið að leggja niður þann hluta starfseminar sem tiltekin vörulína tilheyrði. Haldin var heilmikil útsala þar sem ég mætti og verslaði í nokkra meðalstóra pappakassa. Þegar ég hafði þakkað fyrir mig og gekk til dyra, kallaði eigandinn á eftir mér.

"Viltu ekki bara taka andsk. brettið á fimmtíu þúsund kall".

Ég snarsnérist þá á hæli og áður en ég vissi af hafði ég svarað hátt og skýrt með afgerandi "Jú takki".

En þar sem ég var þá á leið til vinnu varð að samkomulagi að ég kæmi í hádeginu daginn eftir og gengi frá mínum málum.

Ég mætti nokkuð stundvíslega og hitti þá fyrir meðeiganda þess sem ég hafði átt viðskiptin við deginum áður og sá var greinilega vel upplýstur um málin.

"Komstu ekki með einhvern bíl með þér" spurði hann".

"Ég er á bíl" svaraði ég og bennti á Micruna.

"Ég meina sendibíl undir dótið" sagði hann og brosti til mín og það var eins og það örlaði aðeins fyrir vorkunsemi bæði í röddinni og brosinu. Maðurinn hafði greinilega verulegar efasemdir um þann hæfileika sem liggur að vísu nokkuð misvel fyrir mönnum og er stundum kölluð "rýmisgreind".

"Heldurðu að þetta fari ekki nokkuð langt í þennan" spurði ég á móti en maðurinn hló.

"Ég er líka á bíl og gæti kannski tekið eitthvað af þessu og skotist með þér".

Þetta var þá vinalegur karl og vel meinandi, en ég hafði ekki fleiri orð um pláss eða plássleysi og byrjaði að bera dótið út og raða í bílinn. Hann fór þá að bera með mér og fylgdist áhugasamur með hvernig raðaðist meðan lækkaði á brettinu en þéttist í bílnum. Þannig fór að lokum að ég hélt á síðasta kassanum í fanginu sem var í stærra lagi, en hann komst alls ekki inn. Það mál leystist þó með því að opna hann og raða innihaldinu sem voru margir litlir hvítir kassar í allar þær glufur sem fyrirfundust. Að lokum átti ég aðeins eftir að koma sjálfum mér inn sem hafðist með góðum vilja og nokkurri lagni, því ég hafði þurft að færa bílstjórasætið svo mikið fram að það lá við að ennið legðist á framrúðuna. Ég fann einnig út að ég gat alls ekki sett í bakkgír vegna plássleysis, en það kom reyndar ekki að sök að þessu sinni. Ég ók af stað og maðurinn sem hafði afgreitt mig og verið svo hjálplegur við lestunina, stóð eftir og horfði hugsandi á eftir bílnum og ökumanni hans fjarlægjast og hverfa síðan fyrir næsta horn.Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 543
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 874
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 2123319
Samtals gestir: 297269
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 19:41:19
clockhere

Tenglar