Færslur: 2009 Janúar

30.01.2009 08:01

Daginn eftir

535. Það var svo á leið minni um bæinn daginn eftir (í gær þ. 29.) að ég bætti nokkrum skotum við. Snjórinn lá yfir öllu eins og þykkt teppi þar sem rofin voru fá og dökkir dílar eða flekkir aðeins í kring um híbýli og götur mannanna. Frost var í lofti og því sat ofankoman enn sem fastast á greinum trjánna sem sum hver svignuðu lítillega undan þessum aukaþunga. Núna (að morgni þess 30.) meðan þessar línur eru ritaðar, verður mér litið út um gluggann og sé að allt er með óbreyttu sniði. Það væri því hægt að fara á stjá og halda áfram þar sem frá var horfið.

























29.01.2009 10:47

Logndrífa

534. Í gærkvöldi fór að snjóa í logni og var talsverð niðurkoma. Ég var að vinna til kl. 23, en gat ekki stillt mig þegar heim kom og fór svolítinn bæjarrúnt með myndavélina. Hluti af afrakstrinum er hér fyrir neðan og ég held hann þurfi engra sérstakra útskýringa við.











































Ég hefði alveg getað hugsað mér að vera úti fram undir morgun, en um hálf eitt fannst mér kominn tími á að skríða í fiður eftir erilsaman dag.

23.01.2009 00:19

Þorrablót á Tálknafirði


Mynd bshar.

533. Helgina 24. jan. var spilað á þorrablóti vestur á Tálknafirði. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti hefðum við lagt að stað á laugardegi og siglt með Baldri yfir Breiðafjörðinn þann dag, en því var nú aldeilis ekki að heilsa. Við urðum að fara deginum áður, eða keyra að öðrum kosti alla leiðina sem okkur þótti enn síðri kostur. Sæferðir sem reka ferjuna, aflýstu nefnilega laugardagsferðinni vegna viðhalds og skoðunar, þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi burtfluttra suðurfirðinga hafi hugsað sér að mæta á heimaslóðir þessa helgi í súrmat og tilheyrandi. Og þessi breyting kom ekki aðeins illa við Tálknfirðinga, heldur var líka verið að blóta Þorra á Patreksfirði þessa sömu helgi. Ég hafði nokkur orð um þjónustulund þeirra Hólmara þegar ég frétti af þessarri breytingu á áætlun, en ferjan á heimahöfn á Stykkishólmi og siglir þaðan. Ekki verður sagt að þeir fyrir vestan hafi verið ýkja hrifnir af tímasetningunni sem valin var til verksins og höfðu á orði að skilningur hefði löngum verið af skornum skammti á þeim bænum, því Hólmarar notuðu sjálfir ekki ferjuna að neinu marki af skiljanlegum ástæðum. En hvað um það, við vorum samferða hljómsveitinni Sólon yfir fjörðinn á föstudeginum, en hún var á leið til Patreksfjarðar í sömu erindagjörðum og við á Tálknafjörð.

Spáin var ekki kræsileg nema síður væri, en við vorum pantaðir rétt eins og jólasveinninn forðum svo ekki þýddi að fást um hana. Mér varð hugsað til þess að líklega væru nægar birgðir af ælupokum um borð í Baldri, en það kom til allrar hamingju ekki til þess að það reyndi á þá birgðastöðu. Það er nefnilega svo langt síðan sá sem þetta ritar hefur stigið ölduna að einhverju marki eða hart nær 40 ár síðan sjómannsferlinum lauk sem var reyndar skömmu eftir að hann byrjaði.



Eftir tæplega tveggja tíma siglingu var lagst að bryggju í Flatey. Það reyndist ekkert hlaupið að því að taka myndir af dekki og niður á bryggjuna, því snarpar vindkviður urðu til þess að myndirnar reyndust við nánari skoðun allar vera mismunandi mikið hreyfðar en þessar voru þó skástar.



Á wikipedia má lesa eftirfarandi:
"18. júní 1777 varð Flatey kauptún og hófst verslun þar sama ár. Verslunarsvæðið náði yfir Vestureyjarnar og sveitirnar sveitirnar á Barðaströnd. Í byrjun 20. aldar gekk svo vélbátur milli Flateyjar og hreppanna í Barðastrandar- og Dalasýslu.Kaupfélag Flateyjar var sett á laggirnar 1920 lítið í byrjun en stækkaði til muna þegar verslun Guðmundar Bergsteinssonar lagðist af. Kaupfélagið verslaði og stundaði viðskipti fram yfir 1950. Milli 1940 og '50 voru stofnuð útgerðar og hraðfrystingarfélög. Frystihúsið á Tröllenda var byggt og jafnframt bryggjan, en atvinnureksturinn mætti halla á leið sinni og lognaðist fljótt út af. Um aldamótin 1900 stóð byggðin í Flateyjarhrepp í sem mestum blóma og voru íbúarnir allt að 400."




Á Tálknafirði var okkur tekið með kostum og kynjum, komið fyrir í þessu frábæra gistiheimili sem heitir Bjarmaland og ég mæli hiklaust með og ekki verður annað sagt en að þorrablótsnefndarmenn hafi verið höfðingjar heim að sækja.



Pollurinn er vægast sagt frægur staður. Meira að segja ég sem er alveg skítvatnshræddur, hef heyrt mikið um hann skrafað. Hann stendur svolítið fyrir ofan veginn og u.þ.b. 5 km. fyrir utan þorpið. Á vefnum http://www.talknafjordur.is/talknafjordur/ er að finna eftirfarandi klausu. "Pollurinn hefur borið hróður Tálknafjarðar víða því þar hefur oft verið gestkvæmt auk þess sem heita vatnið úr borholu sem boruð var þar 1977, er leitt í sundlaugina auk þess sem vatnið er einnig notað til að hita upp íþróttahúsið og skólann."

Axel lét ekki segja sér það tvisvar og skellti sér í pottinn. Hann hefur líklega verið flóðhestur, selur, otur, bjór eða einhver undarleg vatnalífvera í fyrra lífi og sleppir aldrei degi úr þegar laugar og heitir pottar eru annars vegar.



En þó að ekki væri slæmt veður þarna á ströndinni rauk hann upp úti á firði þar sem skjóls naut síður af fjöllunum.



Meðan Axel var í heita pottinum skrapp ég yfir til Patreksfjarðar, klifraði upp á endann á lágu felli sem skiptir Mikladal og strönd fjarðarins og tók nokkrar myndir inn og út fjörðinn. Þær tókust því miður ekki sem skyldi því birtu var nokkuð tekið að bregða. 



Þegar ég kom aftur frá Patreksfirði hafði Axel bæst liðsauki. Reyndar sagði hann mér að það hefði vrið talsvert rennerí í og úr þessarri lystisemd og manngerðu náttúruperlu. En þarna var ekki annað sjá en að menn hafi farið nokkuð létt með að finna út hver sameiginleg áhugamál þeirra væru.



Um kvöldið var svo mætt til leiks í hið glæsilega íþróttahús sem jafnframt er nýtt sem félagsheimili. Við hlið þess stendur svo gamla samkomuhúsið sem ég spilaði í síðast þegar ég var þarna á staðnum, en það mun hafa verið upp úr 1990. Axel kannaðist líka vel við það frá Deildarbungubræðra og Tilveruárum sínum. Þetta hús heitir Dunhagi, var byggt árið 1933, en er nú í eigu Kvenfélagsins á staðnum.



Fráfarandi nefnd stóð sig með mikilli prýði. Þarna var valinn maðuir í hverju rúmi ef svo mætti segja. Samhentur og góður hópur sem skilaði af sér góðu verki.



Og hér eru þeir sem skulu taka við keflinu og sjá um að hinum þjóðlegu matarvenjum verði viðhaldið og leikurinn endurtekinn að ári.  



Eitt af því sem mér fannst afar merkilegt var hve þorpið er tiltölulega ungt. Á spjalli við heimamenn kom m.a. fram að flest húsin þar eru byggð skömmu fyrir 1970. Ég fór einn hring um göturnar sérstaklega til að skoða og sannfærast um þetta atriði. Mér fannst svolítið merkilegt að sjá varla nokkurs staðar gamalt hús, enda öðru vanur frá mínum heimaslóðum.

Á sunnudeginum var svo haldið áleiðis að Brjánslæk þangað sem Breiðafjarðarferjan Baldur var væntanleg kl. 18.00. Það hafði bæst við farþegi sem óhætt er að segja að hafi verið veriulegur fengur að. Sá heitir Brynjólfur og er fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði til 14 ára ef ég man rétt. Hann starfaði einnig sem bæjarstjóri á Patreksfirði á árabilinu 200 - 2002. En sá sem tók þar við af honum var svo enginn annar en Guðmundur Guðlaugsson fyrrverandi bæjarstjóri á Siglufirði. Líklega hefur Brynjólfur stytt leiðina suður um a.m.k. 1/3, því hann kunni frá mörgu að segja og sumu verulega spaugilegu, bæði að vestan svo og víðar að. Með tilkomu hans fengu líka allar samræður mun gáfulegra yfirbragð en ella hefði orðið miðað við aðstæður.

Mun fleiri myndir frá ferðinni vestur eru svo inni á myndaalbúmi í möppu merkt "myndir af landsbyggðinni".

19.01.2009 11:22

Lífsdansinn



532. Ég fékk þessar nótur sendar
í tölvupósti á dögunum ásamt spurningu um hvort ég gæti spilað þetta lag. Ég leit aðeins yfir sendinuna og ætlaði að fara raula mig í gegn um hana, en einhverjir hnökrar fannst mér þá vera á útskriftinni svo ég þagnaði fljótlega. Við nánari athugun sá ég að lagið yrði tæplega leikið á neitt venjulegt hljóðfæri, það yrði að gera með allt öðrum hætti ef vel ætti að vera. Mér datt í hug að þar sem það var ótitlað, gæti það borið nafnið "Lífsdansinn" með miklum sóma. Þó skal þess getið að það á fátt sameiginlegt með samnefndu lagi eftir Geirmund Valtýrsson úr söngvakeppni sjónvarpsins frá 1986. Þetta er einfaldlega hinn eini sanni lífsdans sem byggir á fleygri setningu úr gamalli bók. "Verið frjósöm og uppfyllið jörðina."

18.01.2009 04:59

Blek-kreppa




531. Ég prentaði út talsvert af myndum um og eftir jólin á ljósmyndapappír, en þegar slíkt er gert er bleknotkunin talsvert meiri en við venjulega prentun. Það var svo í vikunni sem leið að ég ætlaði að prenta út eina myndina enn og skella henni í ramma. Þá kom það berlega í ljós rétt einu sinni enn að það eyðist allt sem af er tekið og rauði liturinn var núna alveg uppurinn.

Næst þegar ég átti leið í bæinn (til Reykjavíkur) kom ég því við í bókaversluninni Griffli í þeim tilgangi að ná mér í meira blek. Ég fann það á sínum stað en rak þá augun í lítið auglýsingaskilti sem á stóð:

 

VIÐSKIPTAVINIR ATHUGIÐ.

EKKI ERU AFGREIDD NEMA TVÖ BLEKHYLKI

SÖMU GERÐAR TIL SAMA KAUPENDA.

 

Það var sem sagt búið að taka upp skömmtun á blekhylkjum í tölvuprentara. Ég geri ráð fyrir að það sé vegna hinna tiltölulega nýtilkomnu innflutningshafta, því blekhylki eru vissulega hvorki matur, lyf eða olíuvörur sem boðað hefur verið að njóti forgangs þegar hinum dýrmæta gjaldeyri er úthlutað í húsi Davíðs. Þetta er kannski tákn þess sem koma skal og sé svo þá er þetta líklega býsna nýtt, a.m.k. fyrir hinar yngri kynslóðir Frónbúa. En sagan var ekki þar með öll sögð, þrátt fyrir að ég sæi það svart á hvítu eða þá í lit að blekhylkið sem mig vanhagaði um var að vísu til. Hinar nýju skömmtunarreglur breyttu litlu máli einar og sér því ég hafði alls ekki hugsað mér að hamstra, heldur ætlaði ég bara að kaupa aðeins eitt slíkt eins og venjulega. En Griffill sem hefur yfirleitt verið mjög vel samkeppnishæfur í verðum, virtist annað hvort ekki vera það lengur eða það var komið stríð eða eitthvað í þeim dúrnum. En kannski var þetta bara bein afleiðing hinna engilsaxnesku hryðjuverka síðan í haust.

Síðast þegar ég keypti HP hylki no 78 kostaði það 4.950 og þótti mér eiginlega nóg um, því þar áður kostaði það 4.490 og einhvern tíma 3.990. Nýjasta verðið var hins vegar hvorki meira né minna en litlar 8.485. Ég horfði lengi á þessar undarlegu tölur og velti fyrir mér hvort þetta væri örugglega það sem ég leitaði að, því mér fannst verðið einfaldlega ekki passa við varninginn. En þegar ég var búinn að skoða það í krók og kring sá ég að svo hlaut að vera. Eftir nokkra umhugsun tók ég þá ákvörðun að láta þetta ekki yfir mig ganga og leita annars staðar fyrir mér, eða bíða ella í áttina til vors í von um að gengið styrktist eða höftin minnkuðu. Ég gekk út bleklaus en ákvað þó að kíkja við í Office 1 sem er í næstu götu. Þar fann ég fljótlega standinn þar sem blekið átti að vera. Síðasta verð hafði verið 5.490, en allar birgðir voru þrotnar og vægast sagt var eyðilegt að líta yfir blekhylkjadeildina á þeim bænum.

 

Nú eru liðnir nokkrir dagar, mér er enn bleks vant og ég velti fyrir mér hvort í einhverri búð gæti verið að finna gamlan lager á verði síðan fyrir hrunið mikla. En það er víst alveg búið að loka Kaupfélaginu í Haganesvík og það fyrir margt löngu síðan.

14.01.2009 21:30

Það þarf stundum að passa sig á stelpunum



530. Þær bjuggu í litlu þorpi á einhverjum ónefndum stað
einhvers staðar langt úti í heimi, þessar fjórar vinkonur sem höfðu þekkst allt sitt líf. Þegar þarna var komið sögu voru þær löngu komnar af léttasta skeiði og fluttar inn á dvalarheimili fyrir aldraða, en af þeim sem þekktu til þeirra yfirleitt kallaðar tölvugengið. Það var vegna þess að ein þeirra hafði komist upp á gott lag með að nota slíkan grip og gerði það líka óspart. Vinkonurnar sátu þá gjarnan hjá henni og fylgdust spenntar með því sem á alnetinu var að finna. Þær sátu einmitt á bekk fyrir framan elliheimilið einn sólríkan sumardag og voru að skoða myndir af fáklæddum og vöðvastæltum ungum mönnum þegar eftirfarandi atburður átti sér stað.

"Sjáðu þennan," hvíslaði ein þeirra hás af spenningi.

"Já," svaraði sú næsta skjálfandi röddu og tinaði óvenju mikið.

"Það voru ekki til neinir svona strákar þegar við vorum ungar, eða ég man ekki eftir því"

Nokkur stund leið í þögn en augu þeirra hvíldu fast á skjánum.

"Hvað þýðir fitness" spurði sú þriðja.

"Það er bara einhver útlenska" svaraði sú fjórða.




Þær voru allar orðnar svolítið örar og jafnvel lítillega rjóðar í kinnum þegar Grettir gamli átti leið hjá, en hann var elstur allra í þorpinu. Hann gaut til þeirra augunum og hrukkaði ennið jafnvel enn meira en venjulega.

"Smástelpufliss," muldraði hann og hélt áfram göngu sinni.

Þær litu snöggvast upp og heilsuðu Gretti glaðlega.

"Og nú vitum við hvað þú ert orðinn gamall Grettir minn" sagði sú hása.

"Hvurnig ættuð þið sosum að vita það" umlaði hann.

"Við förum nú létt með að sjá það út" sagði sú með skjálfandi röddina og gaf þeirri hásu olnbogaskot sem var ótvírætt merki um að nú ætti hún að steinþegja.

"Við notum nefnilega árhringjaaðferðina" bætti hún við.

Grettir vissi ekkert hvað það var en þar sem hann var hreint ótrúlega forvitinn að eðlisfari, staldraði hann við og snéri sér að þeim.

"Jæja, út með sprokið" sagði hann og dró neðri kjálkanum inn fyrir þann efri og japlaði á neðri vörinni.

"Þetta er nú ekki alveg svona einfalt Grettir minn, þú verður fyrst að fara úr buxunum svo við getum talið árhringina" sagði sú þriðja.

"Bölvuð ekkisen vitleysa, þið eruð bara gamlar ruglaðar kerlingar."

Grettir bjóst nú til að halda áfram göngunni, nema núna gekk hann í áttina sem hann hafði komið úr, því hann gat ómögulega munað hvaðan hann var að koma eða hvert ferðinni hafði í upphafi verið heitið.

Grettir var nefnilega orðinn svo gleyminn að til vandræða horfði.

"Viltu veðja" spurði sú fjórða.

Hún vissi að sá gamli var mjög veikur fyrir öllu slíku og sá í hendi sér að þarna gæti eitthvað mjög skemmtilegt átt eftir að gerast ef fram héldi sem horfði.

Grettir snarstoppaði og þreifaði í vösum sínum en fann bara einn hundraðkall.

"Við leggjum þúsundkall á móti hundraðkallinum" skrækti sú hása.

Það hreif, en Grettir var nokkuð lengi að bisa við að komast úr buxunum því hann var ekki vanur að þurfa að gera það hjálparlaust.

Vinkonurnar á bekknum fylgdust með hverri hreyfingu hans af mikilli athygli og hvöttu hann óspart áfram.

"Þú verður líka að fara úr nærunum" hvein í þeirri hásu sem nú var staðin upp til hálfs og néri saman höndunum.

Grettir hikaði aðeins en þegar þær veifuðu þúsundkallinum ögrandi lét hann sig hafa það.

"Dauðir hrafnar detta ekki úr hreiðrinu" umlaði hann um leið og nærhaldið féll á grasflötina.

"Nú verður þú að snúa þér í nokkra hringi" kumraði sú þriðja.

Hún hló niðurbældum hlátri sem hún reyndi að halda niðri í sér sem hljómaði ekki ólíkt og kind að jarma í fjarska.

"Og svo verður þú að snúa þér að okkur og hoppa nokkrum sinnum" ískraði í þeirri fjórðu.

Þetta reyndist þeim gamla nokkuð erfitt og að endingu datt hann á rassinn. Hann stóð þó upp aftur þó svo að það tæki drjúga stund og hoppaði svolítið meira. Og þegar þær höfðu látið Grettir gamla gera nokkrar undarlegar æfingar til viðbótar kváðu þær upp samhljóða úrskurð.

"Þú ert 87 ára" og núna ætluðu þær alveg að rifna úr hlátri, slógu sér á bæði lærin og tóku mikil bakföll.

"Hvernig í skrambanum gátuð þið vitað það" spurði sá gamli steinhissa og þó nokkuð skömmustulegur, því nú leit hann upp og sá að það var andlit klesst fast upp að nærri því hverri einustu rúðu í húsinu auk þess sem tveir starfsmenn komu hlaupandi út og bar hratt yfir.

"Af því að þú bauðst okkur í afmælið þitt í gær!" hvein í vinkonunum.

13.01.2009 00:07

Felumynd



529. Þessi skemmtilega felumynd barst mér núna um helgina og ég er búinn að rýna talsvert í hana, en án þess þó að hafa erindi sem erfiði. En við skulum láta það liggja á milli hluta hvort ég er í sjálfu sér að óska eftir aðstoð við að ná þeim árangri sem ég gjarnan vildi, eða bara að hleypa fleirum að skemmtilegheitunum.
Á henni eru 11 andlit.
Flestir eiga ekki mjög erfitt með að finna 4-6 þeirra.
Þeir sem finna 8 verða að teljast þokkalega eftirtektarsamir.
Þeir sem finna 9 eru mjög eftirtektarsamir og óvenju fundvísir.
Þeir sem finna 10 eru greinilega með athyglina í góðu lagi og verða að teljast til afburðamanna á þessu sviði
Þeir sem finna öll 11 eru líklega haldnir einhverri náðargáfu.

09.01.2009 18:12

Kostnaðarauki í krepputíð

528. Það eru ekki allir sammála um ágæti þess að setja lög um vanskilagjöld, innheimtukostnað og annað það sem hleðst á ógreidda reikninga þeirra sem kreppan fer illa með eins og við er að búast. Talsmaður neytenda telur lögin mikla réttarbót meðan forsvarsmenn hagsmunaaðila svo sem innheimtufyrirtækja, gefa það í skyn að þeir muni hugsanlega svara með því að senda kröfur strax í dýrara innheimtuferli, þ.e. beint til lögfræðinga og sleppa milliinnheimtu. Milliinnheimtufyrirtæki eins og Intrum, Momentum og Veita hefur verið líkt við eins konar peningatrektir fyrir eigendur sína þar sem skrifstofufólk vinnur formúlu og færibandavinnu þar sem "arðurinn er fjöldaframleiddur" eins og ágætur maður orðaði það. En líklega eru þeir sem slíku halda fram, einmitt hinir sömu og halda þessum fyrirtækjum gangandi með tíðum "framlögum" sínum. En oft hefur vaknað spurning um hvernig kostnaðarliðir eru reiknaðir út og hvaða raunveruleiki stendur að baki hverrar tölu fyrir sig þegar saman koma liðir á einu og sama blaðinu eins og t.d. dráttarvextir, vanskilakostnaður, innheimtukostnaður, annar kostnaður og tilkynningargjald. Ef spurt er út í hvaða raunkostnaður búi að baki hvers liðar fyrir sig verður stundum fátt um svör og að manni læðist sá grunur að hin endanlega tala geti verið að einhverju leyti til komin án þess að efnislegar forsendur liggi þar að baki.

 

En sem dæmi um kostnaðarauka frá milliinnheimtu...

Síðasta greiðsla fasteignagjalda frá hinu ágæta sveitarfélagi Fjallabyggð féll í gjalddaga þ. 1. sept sl. og í eindaga mánuði síðar eða þ. 1. okt. En greiðsla barst ekki fyrr en 56 dögum síðar eða þ. 26. nóv. en þá hafði milliinnheimtufyrirtæki fengið kröfuna til meðferðar. Nú má deila um hvort 56 daga vanskil séu mikil eða lítil og hvernig beri að taka á því máli m.a. í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu eins og það er í dag, en niðurstöðutölurnar urðu alla vega eftirfarandi:

Upphaflegur höfuðstóll          kr.   8.116

Samanlagður kostnaður       kr.   8.703

Samtals                                  kr. 16.819

Hækkunin þessa 56 daga varð því tæp 108%

 

En t.d. í Reykjavík virðist þessu nokkuð öðruvísi farið sem kemur kannski einhverjum á óvart. Þar virðist hafa verið ákveðið að fresta því að senda gjöldin í kostnaðarsama innheimtu þar til fram í janúar. Ástæðan sem gefin er ef um er spurt, er sögð sú að margur maðurinn eigi bara nóg með sitt um þessar mundir.

08.01.2009 01:35

Skrýtin frétt



527. Í fréttatíma Stöðvar 2
í kvöld (7. jan.) var frétt sem fékk mig heldur betur til að sperra eyrun. Hún fallaði um mál sem yfirleitt er ekki mikið haldið að fjölmiðlum og margir fjölmiðlar halda sig jafnvel frá. En þegar það gerist að slíkt ratar í fréttir, þá eru andlit þeirra sem um er fjallað nánast undantekningalaust ekki sýnd og nöfn ekki birt. Það var því fyrst og fremst framsetning fréttarinnar sem kom mér  undarlega fyrir sjónir því þarna var nálgunin við efnið með talsvert öðrum hætti en venja er til. Ekki var kafað ofan í sjálfa undirrótina eða velt upp raunverulegum ástæðum málsins, heldur var engu líkara en reynt væri að forðast að gára yfirforðið um of. Þarna mátti sjá minn fyrrverandi vin og félaga ganga fram og til baka í mynd með síma límdann við eyrað og fór hann mikinn. Inni í fréttina var svo fléttað örstuttum viðtalsstubb þar sem hann svarði af sér meintar misgerðir sínar, setti sjálfan sig í hlutverk fórnarlambsins og kenndi öðrum um það sem miður hafði farið. Fréttin virðist sett saman og unnin beinlínis til að afla málstað hans fylgis og ekki vera farin sú hefðbundna og faglega leið svo sem eins og að leita eftir viðbrögðum frá gagnaðila, eða þá einhverjum þeim sem gætu haft eitthvað við málflutninginn að athuga. Útkoman varð því líkust illa dulbúinni auglýsingu sem var pöntuð á staðinn rétt eins og jólasveinninn forðum hjá þeim  félögum Glám og Skrám. Ég hef reyndar lengi búist við að þetta mál myndi springa fram með miklum látum t.d. í DV eða Kompás, en ekki þeim silkimjúka hætti sem raunin varð á í kvöld.

Því má svo bæta við að síminn hjá mér hringdi látlaust í langan tíma á eftir þar sem menn voru ýmist að spyrja hvort ég hefði verið að horfa á fréttirnar, eða fá staðfest hver þarna hefði verið til umfjöllunar. Fréttina ásamt myndskeiði má sjá á http://www.visir.is/article/20090107/FRETTIR01/445738736

05.01.2009 09:11

Nokkrar áramótamyndir

526. Núna í kring um áramótin fór ég út á röltið annað slagið til að viðra sjálfan mig og fá seigfljótandi æðavökvann til að renna örlítið betur. Og eins og gengur er myndavélin höfð upp á vasann eins og venjulega til að grípa í ef ástæða þykir til. Reyndar var myndavélaþrífætinum svo bætt við í hinn hefðbundna "nestispakka" eftir að myrkva tók.



Svona lítur jólatréð á Hamrinum út að deginum til.



Gamli Lækjarskólinn sem nú heitir Menntasetrið við lækinn eftir að sá nýji var byggður og hin hefðbundna starfsemi hafði flust þangað



En gamlar gluggaskreytingar frá þeim tíma að þarna var mun meira um að vera að vetrinum eru varðveittar og settar upp í jólamánuðinum ár hvert.



En svona lítur jólatréð út eftir að kvöldsett er og hér er einginlega horft frá hinum gamla Suðurbæ Hafnarfjarðar sem nú er orðinn mjög miðsvæðis, til þess nýja sem bæst hefur við hin síðari ár.



Og hér ber tréð góða við höfnina.



Á meðan ég stóð þarna (30.des.) var einni ragettu skotið upp rétt eins og í æfingaskyni.



En um miðnættið á gamlárskvöld tók ég mér stöðu í Áslandinu ekki svo ýkja langt frá nyrstu hesthúsunum.



Staðsetningin reyndist mér ekki vel, m.a. vegna þess að þarna blés nokkuð hressilega þó svo að nánast væri logn neðar í bænum.



Það virtist vera ómögulegt að ná almennilegum myndum hvernig sem ég snéri vélinni og notaði linsuna.



Það var alveg greinilega mun minna skotið upp en á undanförnum árum, en eftir nokkra viðdvöl var mér orðið skítkalt og ég fór heim.



Ég sá sólina ganga undir með mikilli litadýrð og "kvöldroða" sem þó bar því sem næst upp á seinna kaffi. Klukkan að ganga 17 var svo orðið næstum því aldimmt. Það er ekki ofsagt að dagurinn sé stuttur um þessar mundir.



Í Köldukinninni mátti sjá þennan jólalega fána við hún.



Ég heyrði hvin í lofti og leit upp. Þar sá ég að fór þessi tvíþekja mikinn og steypti sér niður með miklum drunum og svartur reykur sem hún sleppti frá sér markaði för hennar. Ég fálmaði eftir myndavélinni en gekk illa að ná henni í "sigtið." Það varð ekki nema þessi eina mynd sem eitthvert pínulítið vit varð í, en þarna er hún á hraðri leið lóðrétt niður.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 720
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303517
Samtals gestir: 32834
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 10:08:54
clockhere

Tenglar

Eldra efni