Blogghistorik: 2009 Författad av

17.09.2009 07:14

September 2009



587. Þegar nokkuð var liðið fram yfir miðjan septembermánuð var pakkað niður í tösku og haldið norður í Skagafjörð. Nokkurt hlé hefur verið á spilamennsku þar sem meðspilarinn er staddur í Svíaríki og því var áformað að staldra við á Flugumýri um tíma, eða nokkra daga fram í október. Ávinningurinn af slíkri heimsókn er ekki ósvipaður því sem lesa má utan á ópalpakka eða maltflösku... "Bætir, hressir, kætir" eða "gefur hraustlegt og gott útlit, - bætir meltinguna"...



Í byrjun mánaðarins
þegar ég var á Siglufirði fór ég í nokkrar stuttar gönguferðir. Ekki leist mér þó á að ganga á fjöll því lágskýjað var nánast alla daga svo stundum sást ekki nema upp í miðjar hlíðar og tæplega þó. Allt "labb" var því á mun lágstemmdari nótum en oftast áður ef þannig mætti að orði komast. Mig hafði alltaf langað til að skoða fjöruna undir Staðarhólsbökkum allt að Selvíkurnefsvita og nú var lag. Þó svo að ég hafi komið svo oft að rústum Evangerverksmiðjanna að vart verður tölu á komið, hef ég aðeins þrisvar sinnum farið norður fyrir Staðarhól. Ég gekk af stað fjöruna frá enda gamla flugvallarins að Evanger, en það er aðeins u.þ.b. korters ganga. Og áfram var haldið yfir Rjómalæk, fjörurnar undir Staðarhól og ekki staðnæmst fyrr en við Álfakirkju. Hana hef ég aldrei áður séð og það eru ekki mörg ár síðan ég hreinlega vissi af tilvist hennar, en þetta er myndarlegasti klettur.




Ekki reyndist unnt að ganga fjöruna lengra en yfir Klungurbás sem er sá syðsti af básunum undir Staðarhólsbökkunum og að Peningaþúfu sem er lítið nef sem skiptir umræddum bás og Peningabás sem er næsti bás norðan við það. Ég varð því að ganga bakkana þá leið sem eftir var út að vitanum. Líklega hefði verið hægt með þokkalegu móti að fara fjörurnar alla leið ef ekki hefði verið svo hásjávað sem var, en örugglega mun seinfarnara á sleipum þaranum en grösugum bökkunum. Það tekur líklega u.þ.b. klukkutíma að ganga út að Selvíkurnefsvita á þokkalegum gönguhraða.



Annað sem lengi var búið að standa til að koma í verk, var að ganga Snjóflóðavarnargarðana ofan bæjarins frá Bakkatjörn að Bolatjörn eða endanna á milli.




Þegar gengið er eftir þessum risamannvirkjum finnum maður ósjálfrátt fyrir smæð sinni, og gerir sér í leiðinni frekari grein fyrir hve kraftar þeirra náttúrulegu hamfara
sem þau eiga að vernda bæinn gegn hljóta að vera gríðarlegir.



Mér datt líka í hug að skreppa upp í Hvanneyrarskál, en að þessu sinni fór ég beint upp hlíðina fyrir ofan Rafstöðina.
Og ég fór ekki bara einu sinni heldur tvisvar sama daginn sem kom reyndar ekki til af góðu. Í fyrra skiptið var ég hálftíma upp á brúninaen í það síðara innan við korter. Í fyrra skiptið fann ég nokkrar vel útlítandi bláberjaþúfur svo ég laut fram og tíndi heilan helling af bláberjum, en í það seinna til að leita af símanum sem hafði runnið fyrirstöðulítið upp úr brjóstvasanum og ofan í lyngið. Símann fann ég ekki enda var hann bæði gamall og þreyttur, en um símaskrána gegndi öðru máli. En nú er bara að safna nöfnum og númerum...




Það
 kviknaði rétt eins og upp úr þurru óstjórnlega mikil löngun í bláber og skyr. Ég velti fyrir mér hvort einhver ber væri að hafa án þess að fara of langt og þá hvar. Skyldi ekki líka vera búið að týna öll bláber sem styttra er í. Ég skrapp yfir á Saurbæjarás, lagði bílnum á nýja stæðið fyrir ofan kirkjugarðinn og rölti spölkorn norður fyrir það. Auðvitað var ekki eitt einasta ber að finna þó nóg væri af lynginu. Ég gekk svolítið lengra og viti menn, þarna var talsvert af berjum en það var eins og stóru berin væru öll horfin og aðeins smælkið hefði verið  skilið eftir. Ég fór enn norðar og var nú kominn á móts við nýju útsýnisskífuna sem allar upplýsingar vantar á enn sem komið er og þar var allt blátt í kring um mig. Á þrem korterum tíndi ég nægilegt magn af stórum og safaríkum bláberjum sem dugði mér út á skyrið næstu fimm daga. Skrýtið að það skuli ekki vera búið að týna þetta allt svona rétt við bæjardyrnar.




Það er til merkis um að haustið sé í nánd þegar stóra sviðið við torgið er tekið niður. Ferðafólk er þá orðið fáséðara, lauf trjánna sem óðast að verða gul, lyngið rautt og það er eins og kyrrðin hafi sest að í bænum eftir fjarveru um sumarið. Ósjálfrátt kíkir maður inn í fataskápinn og tekur til peysu og hlýrri yfirhöfn sem er komið fyrir í fatahenginu í ganginum þar sem föt til hins daglega brúks eiga heima.

Þegar ég rölti eftir fjörunni handan fjarðar, fékk ég að koma ótrúlega nálægt þessum Sendling með myndavélina á lofti. Hann hinkraði hinn rólegasti þar til ég hafði smellt af einni og annarri til vara, en þá fannst honum hann hafa eitthvað annað og gagnlegra með dýrmætan tíma sinn að gera en að stunda ólaunuð fyrirsætustörf.



Og nokkur orð til viðbótar um haustið...
Þegar degi hallar og birtu bregður er engu líkara en það dimmi með einhvern vegin öðrum hætti en aðeins örfáum vikum áður. Það er líka allt orðið miklu kyrrlátara en áður var og maður horfir varfærnislega í kring um sig rétt eins og skarkali sumarsins gæti alveg átt það til að upphefjast aftur jafn skyndilega og hann hljóðnaði.
En það gerist ekki.



Hann Ingimar sá ágæti mágur minn á Flugumýri hringdi í mig meðan ég var á Siglufirði og sagði formálalaust: "Ég ætla að bjóða þér upp á tækifæri lífs þíns". Og hvernig er annað hægt en að taka slíku tilboði hvernig sem það hljóðar.
Í beinu framhaldi af því
 gerði ég nokkuð sem ég hef ekki gert í heil 35 ár þ.e. að fara í göngur. En sennilega er "göngur" fullstórt orð fyrir aðgerðina sem slíka og nær væri að segja "smölun" þótt vissulega hafi líka talsvert verið "gengið". En það sem var þó alveg nýtt fyrir mér var að ég fór í fyrsta sinn á hestbak og mundi kannski einhver segja að ekki væri það seinna vænna. Smalaður var Flugumýrardalur sem liggur til austurs norðan við Glóðafeyki og er líklega öllu meiri og stærri en margir halda þar sem hann sést illa frá vegi. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir að hann væri til fyrr en í júní sl. þegar ég gekk á Feykinn. Á myndinni hér að ofan er ég í "pössun" hjá "litlu" systrum mínum þeim Helenu og Margréti sem eru hinar mestu hestakonur.




Farið var inn dalinn sunnan við Hvammsána og þegar nokkur hluti leiðarinnar var að baki vorum við Einar sendir upp í hlíðarnar norðanverðar til að ná fénu sem þar hélt sig niður og yfir á þar sem það gæti síðan sameinast rekstrinum í bakaleiðinni. Myndin er tekin inn í dalbotninn, en upp af honum er Tungufjall og sé lengra haldið er komið niður í botn Hjaltadals.



Hér er horft í átt að mynni dalsins og fyrir miðju má sjá "bakhlið" Glóðafeykis.




Einar fór hátt upp í skriðurnar en ég hélt mig mun neðar og var á ferðinni allt frá bökkum árinnar og um í miðjar hlíðar. Það var engu líkara en þessar skjátur áttuðu sig á þeim annmörkum sem fylgdi því að vera aðeins tveir í allri hlíðinni og þær smugu tvisvar á milli okkar og við hlupum lafmóðir (a.m.k. ég) ýmist upp fyrir eða inn fyrir þær, en allt kom fyrir ekki. Að lokum tóku þær stefnuna út dalinn, fyrir Hjaltastaðafjall og hafa þá væntanlega mætt öðrum göngumönnum sem þar voru. Við vorum auðvitað sáttir við að vandamálið var þar með millifært yfir á þá. Ég sannfærðist til að byrja með um að það væri líklega alveg rétt sem stundum er sagt þ. e. a. rollur væru heimskar, en fékk síðað svolitla bakþanka. Auðvitað hafa þær ekki nokkurn áhuga á að fara til byggða svona rétt fyrir sláturtíð.




Eftir heilmikil hlaup var því hægt að setjast niður um stund, bíða eftir að hinir kæmu niður dalinn sunnanvert og kasta mæðinni. Ég fann all verulega fyrir hlaupunum þó ég reyndi auðvitað að bera mig mannalega, en Einar greinilega ekki þrátt fyrir gríðarlega mikla yfirferð. Ég velti fyrir mér hvort hann hafi einhvern tíma farið í þindartökuaðgerð og ætti nú að bera tilhlýðilegt sæmdarheiti.




Þetta var hópurinn sem fór á dalinn að undanskildum myndatökumanninum, en það gekk illa að setja sig í fyrirsætustellingar. Að minnsta kosti virtust hestarnir alls ekki skilja til hvers var ætlast og hvað málið snérist um. Þegar þau Ingimar, Margrét, Dóri og Helena komu fram dalinn fórum við Einar "þindarlausi" aftur yfir ána og vorum í framhaldinu aftur komnir á bak.



Þetta er hann Villingur sem bar mig áleiðis til byggða. En til marks um hvað ég er "hestaglöggur" áttaði ég mig ekkert á að þetta var alls ekki sami hesturinn og ég hafði riðið um morguninn fyrr en mér var bent á það.




Þegar neðar dró var farið yfir svo stórþýft land að rétt þótti að teyma hestana. Ég stiklaði á þúfunum sem sumar voru allt að mittisháar og Villingur á hæla mér. Líklega var hann full mikið á hæla mér því a.m.k. tvisvar tróð hann af mér annann skóinn. Ég lengdi þá í taumnum sem varð til þess að hann steig á hann með þeim afleiðingum að annar "stýrisendinn" laskaðist.




Rétt fyrir ofan bæinn gengum við fram á þetta lamb sem hafði augljóslega lent í afvelti. Og eins og sjá má og vitað er þykir fleirum en okkur mannfólkinu lambakjöt hið besta fóður.




Frænkur mínar þær Rakel og Þorbjörg létu síðan ekki sitt eftir liggja þegar af fjalli var komið eins og sjá má.




Ég veit að það er ekki fallega gert að herma eftir og alls ekki þeim sem margra áratuga bústrit hefur sett mark sitt á. Annar mannanna er farinn að bogna að eðlilegum ástæðum en hinn lætur eins og fífl, en það er nú ekki nýtt.




Það væri ekki sanngjarnt að minnast ekki á framlag Depils til smölunarinnar, en hann var óþreytandi við sækja fé hvort sem var inn í gilskorninga eða upp í tinda og sparaði göngumönnum ófá sporin.




Daginn eftir kom þessi frændi minn hann Jón Hjálmar úr veiðitúr með sex væna urriða sem ættaðir eru úr Héraðsvötnunum. Skömmu síðar þennan sama dag yfirgaf ég Flugumýri þó ég væri tregur til. (Hesta)reynslunni ríkari, þreyttur á líkama en saddur á sálinni.



Þegar ég sá á siglo.is að þessa dagana stendur yfir Ljóðahátíðin GLÓÐ þriðja árið í röð, urðu menn alveg gríðarlega meðvirkir, duttu í einhvern gamlan og næstum alveg steingleymdan ljóðagír og afleiðingin varð eftirfarindi:

 

Ljóðalistahátíð góð,

lyftir andans leikjum.

Óðs er tími, eflum Glóð,

elda hugans kveikjum.

 

Og vafalaust munu einhverjir eldhugar andans stíga á stokk og ljóða á áheyrendur af hjartans list, en líklega verða þó flestir á mun nútímalegri nótum en hér að ofan og viðbúið er að stuðlar og höfuðstafir verði ekkert endilega allsráðandi sem er auðvitað í góðu lagi ef vel er að verki staðið. 

Þarna verður mikið og gott lið s. s. Kristján Kristjánsson, Ingi Steinar Gunnlaugsson, Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir ásamt Páli Helgasyni, nemendum grunnskólans og fleirum. 

Ég datt um vísukorn eftir Inga Steinar sem mun hafa orðið til eftir áramótin 2004-5, og þá væntanlega eftir einhverja atburði sem ég kann þó ekki að segja frá.

 

Eftir talsvert braml og bauk,
brá upp eldi drukkinn glanni.
Og kröftugt skeyti rakleitt rauk,
í rassgatið á næsta manni.

 

Og þó ég hafi ekki aflað mér leyfis fyrir birtingunni, vonast ég engu að síður til að komast upp með "glæpinn" án eftirmála. 

Og þar sem ekkert aldurstakmark er inn á hátíðina, finnst mér rétt að benda mönnum á að gæta þarf velsæmis og alveg sérstaglega ef "kaffið" skyldi nú verða í sterkara lagi.

 

Sú að ljóða list er forn,

læt um hugann far´á flakk,

ófá ærleg vísukorn,

en ekkert neðan beltis takk!

15.09.2009 00:32

Patrekur, Darwin, Drottinn og Vitas.



586. Sú frétt barst eins og eldur
í sinu um gjörvalla veröld að leikarinn Patrick Swayze úr hinum ofurvinsælu og næstum því tímalausu myndum Dirty dancing og Ghost væri látinn. Hann hefði dáið í gær þann 14. sept. úr krabbameini í brisi. Mun þá mörg miðaldra og ráðsett frúin hafa tárast með afgerandi hætti og fundið fyrir talsverðum fortíðarþráarfiðringi. DVD-birgðir af myndum sem kappinn lék í munu hafa selst upp á augabragði víða um heim og margir fjölmiðlar birt fréttina eins og við var að búast. En svo undarlegt sem það er þá fregnaðist það í kjölfar fyrstu fréttar að Patrekur hefði verið enn fljótari til en sjálfur meistarinn sem um ræðir hér að neðan og risið upp á fyrsta degi aftur og mótmælti því harðlega að vera jafn dauður og margir vildu vera láta. Eitthvað hökti pressan vegna þessarar leiðréttingar og einhverjir miðlar héldu að sér höndum um tíma, en nú hefur leiðréttingin verið endurleiðrétt og Patrekur er aftur sagður allur.



Frétt á visir.is sem birtist þar áðan vakti furðu mína og það ekki svo litla, en titill hennar og yfirskrift er "Kenningar Darwins of umdeildar fyrir Bandaríkjamenn". Ég las hana yfir og sannfærðist meira en nokkru sinni fyrr um að það væri eitthvað mikið bogið við þessa þjóð. Greinina sem enginn má fyrir nokkurn mun missa af, fékk ég því "lánaða" ef einhver skyldi rekast hingað inn sem ekki les visir.is.

 

"Kristnir Bandaríkjamenn eru ekki hrifnir af kenningum Darwins þó þessi mynd gefi annað til kynna.

Framleiðendur bresku bíómyndarinnar Creation sem fjallar um ævi og störf Charles Darwin eru í vandræðum þar sem þeim hefur ekki tekist að finna dreifingaraðila að myndinni í Bandaríkjunum. Þar á bæ þykir efnið of eldfimt, en Darwin setti fyrstur manna fram þróunarkenninguna svokölluðu í bókinni Uppruni tegundanna.

Þau fræði eiga víst ekki upp á pallborðið víða í Bandaríkjunum en í nokkrum ríkjum er sköpunarkenningin úr Biblíunni sett skör hærra og kennd sem heilagur sannleikur. Samkvæmt Gallup könnun sem framkvæmd var á árinu trúa aðeins 39 prósent landsmanna á þróunarkenningu Darwins.

Myndin var opnunarmyndin á Toronto kvikmyndahátíðinni og hefur hún verið seld til flestra landa heimsins að Bandaríkjunum undanskyldum. Myndin hefur skapað miklar umræður á kristnum vefsíðum í Bandaríkjunum og þar eru hugmyndir Darwins kallaðar heimskulegar vangaveltur sem engin sönnun sé fyrir. Sömu síður efast hins vegar ekki um sannleiksgildi sköpunarkenningarinnar enda er sagt frá henni í Biblíunni.

Jeremy Thomas framleiðandi Creation segist furðu sleginn yfir málinu og að kenningar Darwins skuli enn vekja svo hörð viðbrögð í Bandaríkjunum, 150 árum eftir að hann sendi frá sér Uppruna tegundanna."




En ég rakst líka á hinn ótrúlega, dularfulla og Úkraínska Vitas á youtube sem er söngvari, leikari, tískuhönnuður og kannski eitthvað fleira. Ekki er vitað margt annað um piltinn en að hann fæddist í Odessa árið 1981, hefur aldrei veitt viðtöl og virðist vera hinn mesti einfari. Ég mæli með að hækkað verði verulega í græjunum og smellt á linkinn
http://www.youtube.com/watch?v=YjO_VXHxsRw og síðan hlustað af alefli.

12.09.2009 02:30

Eldsvoðinn á Laugarásvideó.

585. Þegar ég fékk fregnir af eldsvoðanum vegna íkveikunnar á mínum gamla vinnustað og fyrirtæki, var ég staddur á Siglufirði en þar er ég ekki nettengdur. Ég átti því fyrir vikið eitthvað minni möguleika á að tjá mig hér á blogginu um atburðinn. Það er alveg með ólíkindum hvað menn geta gert framhlið sína svo vel útlítandi, verið sannfærandi og áunnið sér svo mikla og almenna samúð sem raun ber vitni. Svo vel tekst til að ekki svo mikið sem einn einasti blaðamaður hefur til þessa náð að "kveikja" á þessu máli, skyggnast örlítið inn fyrir uppdiktaða glansframhlið þess, skoða lítillega bakgrunninn og reyna að sjá á því fleiri en einni hlið. Helst kemur manni sú skýring í hug að allir þeir sem kunna eitthvað fyrir sér í faginu séu uppteknir annað hvort við Icesave eða ESB.

 

Ekki verður annað sagt en að mikið óhæfuverk hafi þarna verið unnið og gerandinn sem vonandi kemst sem fyrst undir manna hendur, hljóti að vera verulega illa á sig kominn vegna dómgreindarleysis og andlegra vankanta. Ekki að veraldlegir hlutir svo sem DVD diskar þó magnið hafi e.t.v. verið talsvert, innréttingar af allra ódýrustu gerð eða annað það sem þarna fór forgörðum sé það sem mestu máli skiptir, heldur sú hætta sem íbúar hússins voru setti í. Virðingarleysið og skeytingarleysið fyrir lífi og limum þeirra sem koma á engan hátt nálægt rekstri myndbandaleigunnar á neðstu hæðinni sem árásinni var augljóslega beint að, er algjört. Aðgerðin virðist vera framkvæmd án nokkurrar vitrænnar hugsunar og getur ekki verið annað en ófyrirgefanleg hvernig sem á málið er litið.

 

Það var gefið í skyn í Moggablogginu að þarna væri enn eitt ákallið til þeirra sem landinu stjórna um að löngu tímabært væri að gera eitthvað fyrir hina minna meigandi. Ekki var hægt að skilja það sem þar var ritað á annan veg en að gefið væri sterklega í skyn að eigandinn hefði sjálfur staðið fyrir uppákomunni. Nú þekki ég Gunnar Jósefsson meira en nægilega vel til þess að vita að slíkt er svo fráleitt sem frekast getur verið. Því þrátt fyrir að hann sé verulega skuldsettur eins og svo margir aðrir og megi illa við þessu áfalli, er þetta ekki sú leið sem ég trúi að hann myndi nokkurn tíma fara. En hann er hins vegar látinn líta út í sumum þeim fjölmiðlum sem um málið hafa fjallað sem mannlegur engill, saklaus eins og fermingardrengur sem nýbúinn er að vinna hið stóra heit sitt við almættið, sá sem fráleitt gæti átt sér nokkra óvildarmenn og hvers manns hugljúfi í ofanálag. Þeir sem þekkja til vita þó betur og víst er að oft hefur verið mikill hamagangur í kring um Gunnar sem á sér sínar skuggahliðar sem þola dagsbirtuna ekkert sérlega vel. Þetta staðfestir bara það sem mér hefur svo oft fundist um umfjöllum fjölmiðla þegar fréttir eru lítt eða illa unnar. Þær verða yfirborðskenndar, bera með sér æsifrétta og meðaumkunaryfirbragð og stundum er tæplega hægt að draga af þeim öðruvísi ályktanir en að sannleikurinn birtist manni með öfugum formerkjum. Sjaldan er reynt að kafa ofan í mál eins og þetta eða kryfja að nokkru leyti, heldur aðeins birt sýn eins aðila þess og skoðanir hans verða í framhaldinu dómínerandi og fá á sig stimpil hins heilaga sannleika.

 

Mér þótti það óneitanlega svolítið broslegt þegar því var haldið fram að tjónið næmi 200 - 250 milljónum, en allir þeir fjölmilar sem ég sá að um málið hafa fjallað kokgleyptu þessa ekkisens vitleysu athugasemdalaust. Vera má að í tölvu Laugarásvideós séu u.þ.b. 39.700 skráningar, en þess var látið ógetið að af þeim fjölda eru að líkindum allt að 18.000 VHS titlar sem löngu eru horfnir af staðnum. Eftir standa þá 21.700 skráðir DVD titlar og má reikna með að 10-20% vanti þar upp á vegna eðlilegra affalla, þ.e.a.s. vegna vanskila, það sem hefur skemmst s.l. 12 ár sem liðin eru frá því að DVD útleiga hófst og það sem hefur verið selt. Þá gætu hugsanlega staðið eftir 18.000 titlar og sagan er ekki þar með öll sögð. Innflutta efnið sem er um 2/3 hlutar heildarmagnsins hefur lengst af verið keypt inn á verðbilinu 800-2000 kr. með vsk, en það sem eftir stendur á 4-5000 kr. með vsk. Heildarinnkaupsverðið gæti því verið u.þ.b. 44,5 milljónir, en þá kemur virðisaukaskatturinn til frádráttar sem ætti að vera skv. því tæpar 9 milljónir. Kaupverðið án vsk. gæti skv. mínum útreikningum numið rúmum 35 milljónum. Þá standa eftir innréttingar, hluti tölvukerfis, sælgætislager,  o.fl. og við gætum því e.t.v. hugsanlega séð töluna 40 milljónir sem hina raunverulegu tjónatölu.

 

En það er ekki öll sagan. Það hafa birst myndir af bráðnuðum hulstrum sem standa tóm í hillum sínum því flestir diskarnir eru geymdir undir afgreiðsluborði í skúffum úr MDF sem er eldtefjandi efni. Ég hef tekið sérstaklega eftir því að það hafa hvergi sést myndir af ónýtum diskum í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna sem hafa orðið fyrir skemmdum af völdum elds eða hita. Sé málið þannig vaxið þarf að vísu að kaupa fullt af tómum hulstrum og prenta kápurnar út af netinu, en því fylgir ekki verulegur kostnaður þó svo það sé bæði tafsamt og óneitanlega umtalsverð vinna.

En ef einhverjir mynddiskar sem kostuðu 1.500 kr. í innkaupum fyrir 5-10 árum orðið ónýtir og hafa leigst út á tímabilinu fyrir jafnvel tífallt andvirði sitt, get ég ekki áttað mig á þeim útreikningi að tjón vegna missis þeirra sé nú metið á fimmþúsunkall eða meira. Stóran hluta af mikið leigðu, slitnu og útspiluðu efni þarf líka hvort eð er að endurnýja á nokkurra ára fresti. Miklu eðlilegra væri því að miða við Kolaportsverð sem myndi þá gera heildardiskatjón 10-12 milljónir eða svo, en þó aðeins ef altjón hefði orðið.

Ég er ekki frá því að upp í hugann komi textalínur úr lagi Mausaranna þar sem segir: "Allt sem þú lest er lýgi".

 

En allt horfir þó til betri vegar því farið hefur verið af stað með söfnun til bjargar Myndbandaleigunni á barnaland.is og höfðu safnast 6.000 kr. síðast þegar ég vissi. Annað átak er líka komið af stað og er nokkurs konar yfirskrift þess: "Gefum Laugarásvideó allar gömlu myndirnar okkar sem við erum hætt að horfa á". Það er því greinilega til fullt af góðu og vel meinandi fólki sem er ávallt tilbúið að styðja við bakið á lítilmagnanum sem er auðvitað aðeins af hinu góða. En ef við skoðum málið aðeins betur þá er Laugarásvideó og núverandi eigandi þess skráður eigandi af eftirtöldum fasteignum...

Einbýlishús að Brúnavegi 1, verslunarhúsnæði að Dalbraut 1-3, ásamt nokkrum litlum íbúðum við Sporðagrunn, Mánagötu, Grettisgötu og Nýlendugötu.

Það er því greinilega ekki vanþörf á að hefja söfnunina og það strax þó svo að börn einhverra einstæðra mæðra út í bæ svelti og þær hafi ekki ráð á að senda þau í skóla þar sem ekki er til fyrir stílabókum.


Meira síðar...

  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 111
Antal unika besökare idag: 29
Antal sidvisningar igår: 290
Antal unika besökare igår: 47
Totalt antal sidvisningar: 315760
Antal unika besökare totalt: 34416
Uppdaterat antal: 18.4.2024 13:06:09
clockhere

Länkar