Færslur: 2014 September

29.09.2014 17:32

Myglusveppur og veggjatítlur


Hér má sjá dæmi um myglusvepp sem færðist allur í aukana eftir að flæddi í íbúðinni.

Myndin er fengin af internetinu.


957. Ásta Guðjónsdótter er ein þeirra ólánsömu íbúðareigenda sem hafa orðið illa úti vegna myglusvepps í eign sinni sem er í Álfheimunum í Reykjavík. En hún er greinilega mikil baráttukona, því í a.m.k. eitt og hálft ár hefur saga hennar af viðureigninni við vágestinn og afleiðingar þeirrar baráttu birst í ýmsum miðlum og hún hefur virst óþreytandi við að halda uppi umræðunni og um leið merki þeirra sem eiga svo sannarlega undir högg að sækja hjá löggjafanum.


Eftirfarandi er tekið af vefnum hun.is 13. mars. 2013

Myglusveppir finnast reglulega í húsum á Íslandi. Það er ekkert nýtt af nálinni en fórnarlömb myglusveppsins hafa verið að stíga fram hægt og rólega og segja sína sögu. Á Facebook síðu sem er stuðningssíða fyrir fórnarlömb myglusvepps getum við fundið myndir sem fórnarlömb hafa deilt af líkama sínum og áhrif myglusvepps á líkamsstarfsemi okkar. Ásta Guðjónsdóttir lenti illa í því og fjölskylda hennar hefur þurft að ganga í gegnum hræðileg veikindi af völdum myglusvepps.


Fáeinum dögum síðar eða þ. 20. mars 2013 var talað við hana á Bylgjunni og á slóðinni http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP17604 má heyra viðtalið sem er vægast sagt mjög athyglisvert.


Í viðtali við Mbl. þ. 23. mars sagði Ásta frá því að fjölskyldan væri að flytja út um helgina. Þau hefðu áður flutt út úr svefnherberginu og hreiðrað um sig í stofunni, en nú væru þau að yfirgefa eign sína vegna þess hve heilsu þeirra færi hrakandi vegna myglusveppsins. Hún sagðist hafa farið með born sín tvö til læknis sem ráðlagðu þeim að flytja út hið snarasta.

Fjórar íbúðir eru í húsinu og hefur mygla greinst í tveimur þeirra, en þó mun meira í íbúð Ástu. Samanlagt er eignarhluti þeirra 48% sem dugir ekki til þess að ráðist verði í endurbætur því eigendur henna tveggja íbúðanna standa gegn þeim.


Nýverið bauð Ásta þingmönnum í heimsókn til að skoða aðstæður og í framhaldinu fjallaði morgunútvarp RUV um mál Ástu og óhætt er að segja að það hefi verið heldur óskemmtilegar reynslusögur sem hlustendur fengu að heyra.

Ásta segir að allt hafi verið frá þeim tekið, hjónin séu skilin og eigi ekkert. Hún vill að lögum um fjöleignarhús verði breytt og í þeim tekið tillit til tjóns af völdum myglusvepps. Hún bauð öllum þingheimi í heimsókn í gær til að sýna þeim ástand íbúðarinnar. Einungis einn þingmaður þekktist boð Ástu.

Kristján Möller alþingismaður var fyrsti flutningsmaður á þingsályktunartillögu um endurskoðun laga með tilliti til myglusvepps sem samþykkt var í vor og í framhaldi var skipaður starfshópur. Kristján kvaðst ekki hafa komist til Ástu því hann hafi verið á fundi austur á landi.

Hann segir að starfshópurinn verði auðvitað að fjalla um þetta mál og það í heild sinni hann hafi alltaf litið svo á að út úr starfshópsvinnunni komi nokkurs konar bandormur. 

Starfshópurinn á að skila niðurstöðum fyrir 1. janúar".



Dæmi um ofnæmisviðbrögð vegna myglusvepps. 

Myndin er fengin af internetinu.


Útvarp SAGA fjallaði einnig um málið þ. 24. september s.l. svo og einnig fjölmargir aðrir fjölmiðlar af ýmsu tagi sem of langt mál væri upp að telja. En Ásta segir svo frá hvernig stoðkerfis og ofnæmisviðbrögð vegna raka og myglu hafa lýst sér hjá hfenni og fjölskyldu hennar:

"Hárlos, mikil flasa, hvarmabólga, þurrkur í augum, sjóntruflanir, þreyta í augum, ljósnæmi, hósti, slímhimna í augum bólgin, stíflur í nefi, blóðnasir, varaþurrkur, öndunarerfiðleikar, hnerri, hæsi, suð í eyrum, neglur þurrar og brotna, óbærilegur sviti, hlandlykt af svita, höfuðþyngsli, hellur, bólgur í öllum líkamanum, húð þurr, siggsöfnun undir iljum, hitasveiflur,ítrekaðar strepptó sýkingar í hálsi og húð, doði í höndum, fótum og höfði, minnistap/minnisleysi, síþreyta, ógleði, uppþemba, þvagblöðruvandamál, hægðarvandamál, nýrnasteinar, hiti og sviti í höndum og fótum, útbrot, sár og marblettir birtast uppúr þurru, húð flagnar af höndum og fótum, sársauki í tánöglum, þrekleysi, þorsti, jafnvægisskyn truflast, ofsakvíði, taugakippir og krampar í fótum.

Ásta greindist einnig nýverið með góðkynja æxli á lifrinni og í legi. Á síðunni má sjá ýmsar myndir af viðbrögðum líkama fólks og þau virðast vera svipuð. Myglusveppur er alvarlegt heilsufarsvandamál og það leggur heilsu fólks í mikla hættu".


En eins og kom fram hér að ofan var sagt frá því í morgunútvarpi RÚV. að undirbúningi þingsályktunartillögu um endurskoðun laga sem tekur á myglusvepp í íbúðarhúsum og skipun starfshóps vegna þeirra, en þar er Kristján Möller fyrsti flutningsmaður. En þar sem um er að ræða þingsályktunartillögu sem stjórnarandstæðingur fer fyrir en ekki t.d. frumvarp stjórnarflokkanna, er líklega ekki við því að búast að málið hljóti það brautargengi sem það á fyllilega skilið en við verðum nú samt að vona það besta.


En mál sem þessi eru mun fleiri og mér varð hugsað til annarts vágests sem má telja á margan hátt sambærilegan þegar það er skoðað hve miklum og afgerandi skaða hann hefur oft valdið svo og varnar og úrræðaleysi húseigenda þegar kemur að réttarstöðu þeirra sem virðist engin vera. Þarna er ég að tala um Veggjatítluna sem hefur margoft lagt efnahag og líf fólks í rúst. Það er nefnilega alveg jafn skelfilegt og í sjálfu sér enginn grundvallarmunur á að missa aleiguna vegna veggjatítlna og myglusvepps.


 

Götin sem lirfur títlunnar skilja eftir líkjast helst fínum naglaförum. Lirfan lifir á viði og étur sig í gegnum hann, en hún geti verið mörg ár í viðnum. Í gömlum húsum þar sem rakaskemmdir eru, líður veggjatítlum best. Veggjatítlur geta flogið og ekki er hægt að útiloka að kvikindin geti borist milli húsa.


Ég veit ekki til þess að hægt sé að tryggja sig gegn tjóni hjá tryggingafélögunum sem veggjatítlan veldur og held að þar á bæ sé minni en enginn vilji til að bæta þar úr. Þeir eigendur húsa sem fá þessa óboðnu gesti inn til sín, hafa því í einhverjum tilfellum á endanum þannig staðið uppi með ónýta eða þá stórskemmda og undantekningalítið verðlausa eign.

Veggjatítlur virðast vera vaxandi vandamál í gömlum húsum hérlendis. Þær finnast æ oftar í gömlu borgarhverfunum 101, 105 og 107, einnig hefur þeirra orðið nokkuð vart víða á landsbyggðinni s.s. í Vestmannaeyjum, á Siglufirði og í Hafnarfirði.

Lítið eða ekkert regluverk virðist vera til um afgreiðslu eða aðstoð til handa ólánsömum húseigendum vegna slíkra mála. Menn hafa leitað til sveitarfélaga, en þar hefur yfirleitt litla hjálp verið að fá og eitt dæmi veit ég um svolítinn styrk frá Bjargráðasjóði frá árinu 1999.

Ljóst er að ekkert minni þörf er að taka á skordýraplágunni en sveppavandamálinu og mér flaug í hug hvort a.m.k. þessi tvö mál ættu ekki ágæta samleið við slíka endurskoðun laganna sem gæti þá vonandi leitt okkur í átt til aukinnar velferðar og samtryggingar fólksins í landinu.



Húsið að Hverfisgötu 41 í Hafnarfirði sem títlurnar hámuðu í sig. Sjá athyglisverða grein vegna málsins. http://www.frettatiminn.is/frettir/misstu_allt_og_segjast_svikin/


Fréttatíminn sagði á sínum tíma frá veggjatítlum sem hreiðruðu um sig í öðrum helmingi húss í Hafnarfirði, en þar bjó einstæð móðir og þrír synir hennar. Bærinn greip inn í málið, reif innviðina í ársbyrjun 2009 sem varð til þess að eigandi heila helmingsins sat uppi með það að óeinangraður milliveggur íbúðanna var orðinn að útvegg og híbýlin óíbúðarhæf. Íbúðin hefur nú staðið auð í þrjú ár. Fjölskylda konunnar flosnaði upp þegar húsið var rifið og konan missti húsið á uppboði. Það mun síðan hafa endað á áramótabrennu Hauka 

23.09.2014 14:53

Hafliði SI - sá hinn fyrri



956. Í ár eru liðin hundrað ár frá því að Hafliði hinn fyrri kom í bæinn, en frá því segir í blaðinu NORÐURLAND þ. 23. maí 1914. Splunkunýtt glæsifley sem Helgi Hafliðason kaupmaður og útgerðarmaður lét byggja af miklum stórhug og myndarskap.

 


Hafliði hreppstjóri


Báturinn bar nafn mektarmannsins Hafliða hreppstjóra föður Helga, en það mun síðutogarinn Hafliði einnig hafa gert sem kom í Siglufjarðar nokkrum áratugum síðar. Því miður fann ég hvergi mynd af hinu glæsilega þilskipi þrátt fyrir talsverða leit, en fróðlegt væri að vita hvort hana er einhvers staðar að finna.

 


Helgi Hafliðason.


Þegar Hafliði lést árið 1917 var Helgi kosinn í hreppsnefnd í hans föður síns og má lesa í blaðinu FRAM að hann hafi þar notið verulegs stuðnings siglfirskra kvenna. Í sömu grein er einnig nefnt að mikils megi vænta af slíkum dugnaðarmanni.

Verslun Helga Hafliðasonar var í húsi númer 8 við Aðalgötu, en þar brann um 1930. Gert var við húsið og eftir það höfðu þeir Jón skóari og Halldór læknir aðstöðu þar árum saman. Þegar Kiwanismenn keyptu neðri hæðina, rifu þeir innan úr henni og gerðu hana upp, sáust vel merki brunans í timburverkinu. Og fyrir þá sem ekki átta sig á hver maðurinn var, má geta þess að hann var afi Sigurðar Hafliðasonar fyrrverandi útibússtjóra Íslandsbanka.

18.09.2014 05:04

Flækingsgrey á faraldsfæti



955. Meðan bærinn sefur gerist margt undarlegt sem enginn sér.

(Eða nánast enginn).

Ég sendi þessa mynd til góðra drengja sem ég þekki á heimaslóðum, en þeir sýndu svo aftur tveim ungum mönnum myndina. Þeir síðarnefndu könnuðust alls ekki við að hafa rekist á þessa náunga á þessum slóðum þrátt fyrir að þeir væru mikið á ferðinni í miðbænum á ýmsum tímum og töldu að þessar "mannaferðir" þyrftu frekari athugunar við. Það fylgdi reyndar sögunni að þeim hafi eiginlega ekkert litist á þessa ferðalanga röltandi um miðja Aðalgötu bæjarins að næturlagi og þrátt fyrir tímasetninguna væri það líka undarlegt hve fáir hefði orðið varir við þá.

Allt var þetta mál hið grunsamlegasta að þeirra mati.

08.09.2014 19:12

Vinnuferð á heimaslóðir


954. Og þar kom að því að nægilega stór smuga myndaðist í þéttsetna dagskrána hér syðra. Nægilega stór til að hægt væri að skreppa á heimaslóðir og vonandi kemst ég það langt með viðgerð á þaki og innivinnu á Suðurgötu 46 að báðar íbúðirnar í húsinu verði íbúðarhæfar á ný, en húsið skemmdist talsvert í óveðri snemma á síðasta ári. Þetta er þriðja ferðin í ár í þessum sama tilgangi, en íbúð neðri hæðar komst í fínt stand fyrr á árinu. Búið er að taka til tónlistarlegt nesti til ferðarinnar í formi CD diska, s.s. Hendrix, Clapton, Zeppelin, Jethro Tull, Chicago og svo auðvitað Bítlana, en slíkt styttir ferðina til muna eins og all flestir eru eflaust meira en meðvitaðir um. Svo er það stóra spurningin um veðurspána og hvernig hún gengur síðan eftir, en ég þarf nefnilega að vera talsvert uppi á þaki (því það er svo gaman að vera hátt uppi). - eða þannig.

Heim á Sigló fram á sunnudag. - Það hljómar dável.

03.09.2014 10:36

KANTARELLUR, - hvað er nú það?


Kantarellurnar komnar á pönnuna


953. Þegar ég fór minn daglega rúnt um miðlana sem ég heimsæki jafnan í netheimum, var auðvitað litið við á siglo.is eins og venjulega og þar inn á smáauglýsingarnar sem einnig er oftast gert jafnvel þó menn séu ekki í neinum stórfelldum innkaupahugleiðingum.

Þar voru Kantarellur boðnar til sölu, en hvað er nú það hugsaði ég með mér. Ég varð strax forvitinn, enda er ég það að eðlisfari og gerði það sem lá beint við, þ.e. "gúgglaði mig til vitneskju" um málið. Kantarellur reyndust ekki tengjast kaþólskri trú eða Páfanum á neinn hátt eins og mér hafði fyrst dottið í hug, ekki vera handverkfæri frá liðnum öldum sem nýttist aðallega við smíði súðbyrtra sexæringa eða eitthvað til að halda við kantinn á kössunum í Kassagerðinni meðan þar voru einungis smíðaðir trékassar, heldur SVEPPIR og þeir af einni bestu og ljúffengustu tegund sem um getur.


Kantarella eða Cantharellus cibarius heitir Rifsveppur á íslenzku og er ekki mjög algengur hérlendis, en finnst þó á einstaka stað og þá jafnvel í allmiklu magni. Hann er gulur eða rauðgulur á litinn, með rifjum neðan á hattinum og niður á stafinn. Hann vex einkum í skóglendi, en einnig í móum. Hann finnst á fáeinum stöðum á íslandi, m.a. í Fljótunum, á vestfjörðum við utanverðan Eyjafjörð, í utanverðum Axarfirði og í Norðurárdal í Borgarfirði Rifsveppurinn er einn af allra eftirsóttustu matsveppum, enda mjög ljúffengur. Hann tilheyrir flokki vanfönunga, og klæðir kólflagið að utan rifin neðan á hattinum.


Ég hvet alla sælkera og áhugafólk um matargerð þar sem sveppir koma við sögu, til að kíkja á Kantarellurnar í smáauglýsingunum á siglo.is.


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 471
Gestir í dag: 80
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303268
Samtals gestir: 32810
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:15:09
clockhere

Tenglar

Eldra efni