26.03.2007 09:03

Hlandfata og hrákadallur.


355. Það var settur linkur á síðuna mína frá b2 á dögunum, og það gerðist ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Í fyrra skiptið var bent á pistilinn um fasteignamarkaðinn og húsnæðið á Baldursgötu, en það sem þar er fjallað um finnst mér eiginlega verulega óeðlilegt í alla staði og spurningar vakna m.a. um heilnæmi markaðarins og ábyrgð fasteignasala gagnvart hugsanlegum kaupanda. En ég eins og fleiri sem uppgötva að lesendafjöldinn margfaldast skyndilega án sýnilegrar ástæðu og einhverra skýringa, hélt auðvitað að teljarinn væri bilaður. Ég fylgdist furðu lostinn með straumnum sem lá inn á síðuna og síðan út aftur án þess að skilja neitt eftir sig nema tölulegar upplýsingar um fjölda heimsókna.

Í seinna skiptið var bent á söguna um LEO súkkulaðið, en þar sem ég hafði ekki minnsta grun um hverju ég átti von á setti ég pistilinn um ævintýrið á Bergstaðastrætinu inn um sama leyti og lætin byrjuðu. Og þar sem það mál verður að teljast mun "agressívara" urðu viðbrögðin eftir því. Heimsóknafjöldinn fór í 3069 einn daginn og verð ég að segja að mér fannst alveg nóg um svo ekki sé meira sagt. Í þetta skiptið liðu ekki bara einhverjar netvofur um síðuna, heldur var tekið til við skriftir af miklum krafti en oft lítilli hugsun. Skoðanir margra voru eiginlega nokkuð ólíkar því sem maður á að venjast, og margt í raun og veru engan veginn birtingarhæft. Orðbragðið stundum eins og maður vill hvorki sjá né heyra, og lítið um að tekin væri efnisleg afstaða með eða á móti, grundvölluð á skynsamlegum rökum. Til að byrja með hugsaði ég með mér að fara þá leið að reyna að láta öll ósköpin standa sem minnisvarða um það sem miður fer og fjalla síðar um þau sem slík, en það reyndist því miður engan veginn hægt. Sumt var bara það sóðalegt, illgirnislegt og svo alvarleg tilraun til mannorðsmorðs að það á hreinlega hvergi nokkurs staðar heima. Og eins og oftast er, þá voru þeir sem ekki vilja gera grein fyrir sjálfum sér verstir allra og sjálfum sér til mestrar skammar.

Ég fylgdist með atburðarásinni með vaxandi skelfingu. Álitin hrönnuðust inn og óhætt er að segja að sum þeirra hafi síður en svo verið sérlega áferðarfalleg svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mér fannst ég vera aleinn í manngrúa þar sem ég átti á hættu að vera troðinn undir, en annað slagið sá ég kunnuglegar undirskriftir og mér fannst ég þá greina eins og svolitla ljóstýru í fjarska. Tíminn leið og ég skynjaði að flóðið færi líklega bráðum að réna þegar ég sá nöfn Minnýar og Boggu. Skömmu síðar Bjarna frænda, Emils, Gunnar Th. og Gulla hvern á eftir öðrum. Þá fannst mér illviðrinu vera tekið að slota það mikið að óhætt væri að koma niður af tánum, því brátt myndi sólin rísa á ný og verma sviðna jörðina. Mig þyrsti í það ástand sem áður var, líkt og skrælnaðan ferðalang em hefur villst í eyðimörkinni á göngu sinni en loksins fundið leiðina til byggða.

Eða eins og þreyttur og þjakaður sundmaður sem nær landi eftir að vera nær drukknaður í kolgráum ólgusjónum fullum af skrímslum og kynjaverum.

En eftir á að hyggja þá líkist tilfinningin og hin andlega reynsla sem ég hef nú upplifað helst því að vera dæmdur til að hírast um tíma í risastórum almenningshrákadalli eða hlandfötu sem er í fullri notkun af undirmálsliði sem kann ekki mannasiði.

En þar sem ég var á leiðinni norður á Sigló í u.þ.b. viku, taldi ég rétt að fjarlægja hið umdeilda umræðuefni vegna þess hvernig mál hafa þróast. Þvi eins og þeir hljóta að skilja sem vilja, á ég erfitt með alla aðkomu að málinu svo sem hreinsunarstarf eftir allt nafnlausa og ósýnilega fólkið sem ég tel geta verið alveg nauðsynlegt að óbreyttu meðan ég er fjarstaddur.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 247
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306553
Samtals gestir: 33253
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 09:40:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni