02.06.2007 13:42
Maíferðin á Sigló.
376. Klukkan var orðin hálf ellefu að kvöldi þriðjudagsins 22. maí þegar ég lagði af stað norður á Sigló. Auðvitað hafði verið farið fram á að ég frestaði ferðinni til morguns, en það var einfaldlega ekki boðið upp á þann valkost í stöðunni því slíkur var spenningurinn að komast af stað. Það sem gerist í tilfellum sem þessum, er að væntingar hafa verið að byggjast upp smátt og smátt og einhver undirliggjandi spenna vaxið jafnt og þétt. Það varð því ekkert bakkað með það, ekki seinna en í dag fer ég norður og skítt með alla skynsemi.
Þegar ég var um það bil að stíga upp í bílinn á Öldugötunni leit ég upp og sá hvar leiðin undir regnbogann myndi liggja og hvar væri nú líklegast að hitta fyrir hina vandfundnu óskastund.
Eftir að lagt hafði verið af stað var hvergi áð og fyrsta teygjustoppið ekki á dagskrá fyrr en Siglufjarðarfjöllin blöstu við úr Fljótunum.
Og svo aftur þegar nýr dagur var sjáanlega að rísa í norðrinu yfir nesinu.
Þá var bara síðasti áfanginn eftir og það var mjög þreyttur maður sem lagðist til svefns á Aðalgötunni um nóttina skömmu eftir að þessi mynd var tekin.
En það verður ekki sagt að sól hafi skinið í heiði þá daga sem staldrað var við, enda ekki endilega verið að eltast við veðursældina sem oft samt verið mikil nyrðra eins og við vitum.
Ekki laust við að fjöllin og skýjaður himininn rynnu saman í eitt, því jörð hafði orðið alhvít um nóttina.
Það er eiginlega reykhúsið á Steinaflötum sem mér finnst alveg einstaklega flott, því það er gamalt mjölsíló á hvolfi sem mig minnir að sé úr Rauðku. En sumarið 1972 var ég ásamt mörgum góðum drengjum að vinna hjá hjá Páli frá Ljósstöðum við að rífa Gránu og Rauðku til að rýma fyrir nýju frystihúsi Þormóðs Ramma sem rísa skyldi á lóðunum. Þá minnir mig endilega að þeir bræður Gestur og Sigurbjörn Frímannssynir hafi fengið silóíð til að koma upp reykhúsinu.
Gömlu réttirnar eru ekki nema brotabrot að því sem áður var, þegar hátt í helmingur bæjarbúa var þarna samankominn á góðum haustdegi og fjárstraumarnir liðuðust niður úr fjallinu og inn í almenninginn.
Umhverfið í kring um Bakkatjörnina er afar sérstætt eftir að snjóflóðavarnargarðurinn var kominn í það horf sem hann er nú. En eftir því sem leið á daginn fór að hlána og undir kvöldið var allur snjór horfinn af götum bæjarins og víðar. Sama sagan endurtók sig svo næstu tvo daga á eftir. Það snjóaði um nóttina, stytti upp með morgninum, nokkur slydduél komu yfir daginn en um kvöldið voru allar götur orðnar auðar.
Þessar trillur sem eru fyrir sunnan síldarminjasafnið hafa lokið upphaflegu hlutverki sínu, en nú bíður þeirra nýtt, þ.e. að verða safngripir eftir að búið verður að fegra þær svolítið. Þetta eru frá vinstri talið Hafdís, Bæringur og Snarfari. Ég man eftir Svenna Björns á Snarfara þegar ég var um fermingu en ég hitti þann ágæta mann og hann sagði mér afar merkilega sögu af Bæringi sem ég þarf sennilega að rifja aðeins betur upp áður en ég treysti mér til að hafa hana eftir.
Snurpubátur á hvolfi. Það er ekki algeng sjón í dag en þegar ég var "lítill" var oft farið suður á Langeyrina og leikið sér, en þá höfðu tugir slíkra báta verið dregnir þar á land og þeir endanlega afskrifaðir. Lengi vel var svo hefð fyrir því að taka a.m.k. einn bát á ári, saga hann í sundur þvert yfir miðjuna, reisa hlutana upp á endann, snúa þeim saman og nota sem aðaluppistöðu í áramótabrennuna.
Litli og Stóri. Ég varð að leggja við hliðina á þessum sem var að koma úr Héðinsfjarðargöngum og skjóta einni. Miðað við það sem fyrir augu ber má svo hverjum manni vera það fullkomlega ljóst að ég hlýt að teljast mjög hófsamur í kröfum mínum um þægindi og fyrirferð þegar kemur að bílamálum.
Ég kíkti í kaffi og með því til hennar Guðnýjar og hins eina sanna Steingríms "útgefanda Lífsins." Ég fékk svo þessa stórskemmtilegu danssýningu í "gradís" og það verður að segjast að nýjasti íbúinn á heimilinu komst bara vel frá sínu.
Framkvæmdirnar við nýju álmuna á Sjúkrahúsinu eru greinilega komnar á fullt skrið og svo skrýtið sem það nú er, þá finnst mér stundum eins og það sé unnið að því að endurreisa það gamla sem stóð á nákvæmlega sama stað.
En menn eru reyndar ekki enn komnir alveg upp úr moldinni eins og stundum er sagt, þó greinilega styttist í að þeim áfanga fari senn að ljúka.
Það þurfti að loka göngunum hinum megin frá meðan beltagrafan var á leiðinni í gegn, en hún er allt of "hávaxin" fyrir aðstæður þegar hún er farmur á vagni.
Ég gekk fram á brúnina og leit niður í fjöru þarna við enda Strákaganganna Siglufjarðarmegin. Það var talsvert brim þótt veðurhæðin væri ekki mikil.
Ég leit líka upp til fjallanna fyrir utan gangamunnann. Það fór svolítill kuldahrollur um mig.
Bærinn er alltaf fallegur á einhvern hátt, og skiptir litlu hvernig t.d. veðrið er. Jafnvel í svona kalsa og einhver mundi segja leiðindaveðri er hægt að finna flottan flöt. Það er búið að breiða hvítt og hreint teppi yfir þá sem þarna hvíla.
Þegar ég fór fram í skógræktina til að sjá hvernig hún liti út í svona veðurfari fannst mér eins og það gætu alveg eins verið komin jól.
Upp í hugann komu eftirfarandi línur:
Í skóginum stóð kofi einn, sat við gluggann jólasveinn...
Það var lítið í ánni og fossinn hefur oftast nær verið mun tilkomumeiri. Það var samt eitthvað notalegt við þetta umhverfi, og ekkert síður þegar það gerði svolitla snjódrífu eins og glöggt sést á myndinni.
Þetta kallast að skilja eftir sig spor. Ég gekk til baka og reyndi að ganga í sömu sporunum sem urðu til þegar ég kom. Það var greinilegt að þarna höfðu ekki margir farið um þennan dag.
Ég fór niður að smábátahöfn og myndaði flest alla þá báta sem þar voru þá stundina. Ég man að Ísfirðingurinn Gunnar var líka einhvern tíma búinn að benda á að myndir af bátum væru alltaf vel þegnar. Það má því segja að næstu sentímetrar hér að neðan séu sérhannaðar fyrir hann.
Gústi er nefndur eftir Gústa guðsmanni og fylgdi björgunarskipinu Sigurvin þegar það kom til Siglufjarðar. Svona bátar sem rista ekki nema 40 - 50 cm voru mikið notaðir undan ströndum Hollands og Þýskalands vestan Jótlands, en þar er víðast hvar mjög aðgrunnt og munur flóðs og fjöru mun meiri en við þekkjum hér uppi á Fróni. Þar henta slíkir bátar vel því þeir geta m.a. siglt um grunnar lænur sem myndast milli sandflákanna þegar hefur fjarað. Til eru sögur um að fólk sem hefur gengið úr á sandinn á fjöru sérstaklega þó í grennd við Frísnesku eyjarnar, á enga von um að komast undan flóðinu á hlaupum þegar það kemur. Það nýjasta sem ég hef heyrt að væntanlegum afdrifum Gústa er að hann hafi verið seldur Þýskum bátasafnara.
Þetta er svo björgunarskipið Sigurvin, en það er nefnt eftir trillu Gústa guðmanns.
Ég átti leið á gámaslóðir og þar hitti ég fyrir feðgana Gauta ofurbloggara og Svenna Björns. Það var komið föstudagseftirmiðdegi og matseðill kvöldsins var sýnishornaveisla. Nú skyldi reynda að klára sem flesta afganga úr ísskápnum því á morgun ætlaði ég suður.
Ketilás sá gamli sveitaballsstaður sveipaður sínum draumkennda fortíðarljóma í hugum þeirra sem í dag eru komnir af léttasta skeiði. Þar sem bekkir voru enn meðfram veggjunum síðast þegar ég vissi. Þar sem mín kynslóð hafði á sínum bestu árum mætt á sín fyrstu alvöru böll. Og þar sem ég og eflaust margir fleiri höfðu komið á góðum degi og ætlað sér stóra hluti, en sofnað úti á túni og vaknað í skítakulda þegar ballið var búið og allir löngu farnir heim.
Ég stoppaði aðeins fyrir ofan Haganesvíkina og horfði út á Almenningana þar sem Kóngsnefið ber við himinn.
Það er engu líkara en þrjú veðurfarsleg tímabil séu inni á myndinni. Túnin eru farin að grænka næst okkur og það er svolítil föl í fjöllunum vinstra megin upp af Sleitubjarnarstöðum. En ef horft er inn í dalinn þar sem leiðin liggur til Hóla í Hjaltadal, er engu líkara en Vetur konungur eigi eftir að ráða þar ríkjum enn um sinn.
Ég staldraði við fyrir neðan afleggjarann að Flugumýri þar sem ein af litlu systrum mínum býr og velti fyrir mér hvort það væri á könnunni eða hvort heimilisfólkið væri farið í fjósið að mjólka. Og þegar enginn svaraði símanum lét ég nægja að hleypa af myndavélinni í átt að bænum og hugsaði með mér að hún slyppi ekki svona ódýrt næst.
Sólargeislarnir brotnuðu á fönnunum í fjöllunum fyrir ofan Varmahlíð.
Blönduóslöggan hefur þótt nokkuð skeinuhætt með hraðamyndavélar sínar. Ýmsir hafa sagt mér að þeir telji alltaf löggubílana fyrir framan stöðina á Blönduósi þegar ekið er fram hjá. Þeir eigi að vera þrír, og ef þeir séu þar allir sem sjaldan gerist, sé lítil hætta á ferðum á vegunum í sýslunni. Ekki veit ég hvort hvort það er alveg öruggt, enda hef ég ekki miklar áhyggjur af því á Micru með 1300 vél.
Ég fer stundum einn hring í þorpinu um leið og ég renni þar í gegn og yfirleitt sleppi ég því ekki að skreppa einn runt niður að "höfninni."
"Jón forseti." Lítill bátur með stórt nafn.
Alveg rétt, Vilko súpurnar eru fluttar á Blönduós. Nokkuð sem Íslendingar hafa sopið í áratugi og þótt bara ansi gott.
Þær röltu í "hægðum sínum" eftir götunni og höfðu svolítið truflandi áhrif á þá litlu umferð sem þarna var, en svo beygðu þær út af malbikinu og allt komst í eðlilegt horf.
Ég var kominn suður í Borgarfjörðinn og þegar ég kom að Grábrók við Hreðavatnsskála mundi ég eftir því að ég hafði ætlað að skreppa upp á þennan hól á suðurleiðinni ef ekki yrði alveg hundleiðinlegt veður. Ég beygði inn á stæðið, læsti bílnum og gekk af stað upp á þessa lögulegu vikurhrúgu. Þegar upp var komið sem tók ekki langan tíma reyndist fleira vera að sjá og meira myndefni bera fyrir augu en ég hafði búist við.
Bifröst blasti þarna við mér svo og Hreðavatnið, Norðurárdalurinn, Skarðshamarsleiðin, Baulan, Hafnarfjallið svo og allur sá fjallgarður sem það tilheyrir. Ég tók eina mynd af gamla Samvinnuskólanum og aðra til vara, en þá kom óvænt melding á myndavélarskjáinn.
"Memorycard full." Þá vissi ég að ég ætti eftir að ganga þarna fljótlega upp aftur, því það að vera myndavélarlaus á stað sem þessum gerði ekki nema í mesta lagi hálft gagn.
Þegar ég ók svo yfir Borgarfjarðarbrúna fann ég hjá mér sterka löngun til að skjóta einu skoti á Hafnarfjallið þar sem það speglaðist í firðinum. Ég valdi því einhverja mynd sem ég taldi að mætti missa sín og eyddi henni til að hafa pláss fyrir Hafnarfjallið í myndavélinni. En Hafnarfjallið er á óskalista sumarsins 2007 yfir þau fjöll sem mig langar til að klífa.
Margt af því sem má sjá hér að ofan kann að virðast ofur hversdagslegt og í sjálfu sér varla nokkur ástæða til að hafa um það mörg orð og hvað þá að taka af því myndir. Sérstaklega er það líklegt til að vera skoðun þeirra sem hafa þetta stórkostlega umhverfi fyrir augum sér alla daga og verða því samdauna því svo ég leyfi mér að nota það orð. En fyrir þann sem kemur á staðinn úr allt öðru umhverfi, beinlínis til að sjá hvað hefur gerst frá því síðast þar sem ræturnar liggja, hljóta að gilda allt, allt önnur lögmál. Fyrir mér er Bakkatjörnin enn hálfgerð nýlunda og endurfundir við gömlu réttirnar fyrir ofan hesthúsahverfið talsverð upplifun. Í hvert einasta sinn sem ég ek fram hjá Ketilásnum rifjast upp einhverjar löngu liðnar stundir og minningarbrot af dansgólfinu, sviðinu eða túninu sem liggur að staðnum. Það er sagt að hver peningur hafi tvær hliðar, en mannlífið í öllum sínum margbreytileika hefur svo miklu, miklu fleiri.