14.06.2007 11:11

Lögguhasar.

379. Við Bjarni (tengdasonur) vorum á leiðinni frá Hafnarfirði til Reykjavíkur í gær og ókum Bústaðaveginn frá Kringlumýrarbraut í áttina að miðbæ Reykjavíkur.
"Sérðu hvernig þessi sendibíll ekur?" Bjarni horfði í baksýnisspegilinn og ég sá að það var undrunarsvipur í andlitinu. Ég sá hvítan sendibíl nálgast okkur nokkuð hratt og hann rásaði undarlega milli hægri og vinstri akreinar. Þegar hann tók fram úr okkur var ekki um annað að ræða en að hægja ferðina, því hann var skyndilega kominn á miðjan veginn og ók beint yfir miðlínunni eins og hann ætti götuna. Nokkru síðar sveigði hann til hægri og upp á kantstein og svo aftur út á miðju.
"Þessi maður er dauðadrukkinn" sagði Bjarni og teygði sig eftir símanum. Hann hringdi á 112 og bað um að fá samband við lögregluna. Þegar sambandið var komið á lýsti hann atburðarrásinni ásamt því að gefa þeim upp skráningarnúmer bílsins. Meðan á samtalinu stóð hélt sá hvíti áfram för sinni og varð ökulagið jafnvel enn skrautlegra en áður. Við eltum bílinn og Bjarni lýsti ökuleiðinni meðan stjórnstöð lét boð út ganga til þeirra sem gætu verið nærstaddir. Sendibíllinn flakkaði á milli akreina og negldi svo skyndilega niður þegar hann var aðeins hársbreidd frá því að aka aftan á grænan smábíl. Þar næst fór hann upp á umferðareyju, aftur út á veginn og svona mætti lengi halda áfram. Á móts við slökkvistöðina sáum við að lögreglubíll kom á móti okkur og stöðvaði á rauðu ljósi. Það gerði sá hvíti líka eins og aðrir sem voru þarna á ferð. Þegar kom grænt ljós óku síðan allar af stað, en skyndilega tók lögreglubíllinn U-beygju og það blikkuðu ljós. Þeir virtust hafa fengið einhverja skyndilega hugljómun, en auðvitað hafa þeir verið að fá boðin í tetra-tækinu sínu. Sá hvíti ók áfram eins og ekkert væri í áttina að gatnamótum Snorrabrautar og beygði til hægri inn í slaufuna sem beinir umferðinni vestur Hringbraut. Annar lögreglubíll bættist við svo og mótorhjól, en sá hvíti hélt áfram eins og hann væri einn í heiminum. Það var svo ekki fyrr en lögreglubílarnir króuðu hann af að hann staðnæmdist. Við stöðvuðum líka skammt fyrir aftan alveg að springa af forvitni og sáum að einn "lögginn" opnaði bílstjórahurðina á þeim hvíta, en ástand ökumannsins hefur líklega ekkert farið milli mála því hann gaf félaga sínum bendingu og manninum var "hjálpað" undan stýrinu og hann leiddur til (aftur)sætis í lögreglubílnum fyrir aftan. Ég gat auðvitað ekki setið á mér og þreifaði eftir myndavélinni og smellti nokkrum af, en þær eru þó heldur í óskýrara lagi vegna þess að þær eru flestar teknar í gegn um framrúðuna.



Bjarni er ættaður frá Siglufirði. Afi hans var bróði Úbbu sem var kona Bjarna frænda míns í Visnesi.



Ökumaður sendibílsins sinnti engum stöðvunarmerkjum og hélt sínu striki.



Annar lögreglubíllinn tekur fram úr sendibílnum og keyrir í veg fyrir hann.



"Haft tal" af ökumanni, en hann hefur líklega ekki farið á milli mála að hann var ekki í ástandi til að halda uppi skynsamlegum samræðum.




Honum var því hjálpað niður úr sætinu og leiddur inn í næsta bíl. Hann var svo valtur á fótunum að þeir sem leiddu hann áttu fullt í fangi með að detta ekki með honum.

Ég leit á klukkuna og sá að hún var ekki nema 19.03. Einhver hefur tekið kvöldskemmtunina snemma að þessu sinni.

En nú er ég farinn í helgarferð til Vestfjarða sem stendur reyndar alveg fram á þriðjudag...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480837
Samtals gestir: 53309
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 04:33:36
clockhere

Tenglar

Eldra efni