29.06.2007 12:08
Pönnukökukötturinn.
381. Það voru bakaðar pönnukökur á dögunum og þegar slíkur atburður á sér stað verður að fara varlega með afurðirnar. Það hefur nefnilega gerst allt of oft að þær hafa lent í klóm og kjafti kattarins, sem lævís og lipur spyr engan hvort hann megi fá eins og eina eða svo. Pönnukökur í stafla á diski uppi á eldhúsborði meðan heimilisfólkið er að horfa á sjónvarpið eiga sér litla von. Svo er komið að hnuplaranum hálfu belgmeiri en hann er vanur að vera við iðju sína, og hann skilur ekkert í öllum þessum pirring í mannfólkinu.
Það er því farið að gæta þess vel og vandlega að geyma afraksturinn bak við luktar dyr, en kisi vissi svo sem allt um það hvar hvað var. Og hann ætlast beinlínis til þess að þeim hinum sömu dyrum verði upp lokið fyrir honum svo hann geti boðið sjálfum sér til veislu. Hann settist niður og mjálmaði ámátlega, og ekki verður sagt að hljóðin hafi verið sérlega fögur. Í fyrstu var hann og hans óskir um fullan aðgang að krásunum algerlega hundsaðar, en hann sat sem fastast og gaf sig hvergi en öðru hvoru gaf hann frá sér alveg skelfileg hljóð.
Og auðvitað var gefið eftir að lokun og orðið við bón kattarins og hann eins og annað fólk á bænum fékk sinn skerf. Það var að þessu sinni fylgst vel með borðsiðum pönnukökuætunar sem voru reyndar svolítið áfergjulegir á köflum.
Og svo aðra til, og enn aðra til?
Hann heitir Tómas sem er eflaust algengasta kattanafn í heimi. Stundum hefur hann verið uppnefndur ýmist Tómhaus eða Taumús, en honum virðist standa nákvæmlega á sama um þess konar eineltistilburði mannanna. En hann á sér óskamatseðlil sem stundum er hafður lítillega til hliðsjónar á hátíðis og tyllidögum. Ofarlega á því blaði eru nefndar til sögunar réttir eins og pönnukökur, kleinur, maís, skonsur, ólífur, jólakaka og tebollur.