08.07.2007 00:09

Þegar ég stal brúðinni.



384. Það var um mitt sumarið 1976 heima á Siglufirði að ég fékk skilaboð um að mér væri boðið í partý næstkomandi laugardagskvöld ásamt fleira fólki sem ég þekkti og umgekkst alla jafna. Það var svo sem ekkert nýtt að brugðið væri á leik og skvett svolítið í belginn á sér á þeim árum þegar menn voru ekki nema tvítugir, en þeim sem stóðu fyrir mannfagnaðinum að þessu sinni var ég aðeins lítillega kunnugur. Ég var því svolítið hissa á boðinu og fannst það koma ef svo mætti segja, úr frekar óvæntri átt.

Hann var fæddur og uppalinn á Siglufirði, en hún var einhvers staðar að sunnan. Þau bjuggu á þessum tíma í litlu bárujárnsklæddu timburhúsi sunnarlega í bænum sem nú er horfið. Það stóð svolítið afsíðis sem hentaði þeim skötuhjúum afar vel því þau voru bæði ölkær með afbrigðum, og að sama skapi mjög hávaðasöm svo vægt sé til orða tekið.

Ég spurði hvort eitthvað sérstakt stæði til, en fékk þau svör að svo væri alls ekki. Aðeins væri meiningin að eiga saman skemmtilegt kvöld, og það var sérstaklega tekið fram að "vínguðinn" myndi án nokkurs vafa heiðra samkomuna með nærveru sinni. Ég þakkaði fyrir mig og mætti á staðinn umrætt laugardagskvöld á tilsettum tíma. Mér fannst samt eitthvað undarlegt liggja í loftinu en gat samt ekki alveg áttað mig á því hvað það gæti eiginlega verið.

Það verður ekki annað sagt en að höfðinglega hafi verið tekið á móti mér þegar ég mætti á staðinn, því ég var vart kominn inn fyrir þröskuldinn en ég var kominn með glas í hönd og síðan leiddur rakleiðis til stofu þar sem allt var fullt af Buggles, Ritz-kexi, allnokkrum sortum af ídýfum og fleira góðgæti. Til gamans langar mig að skjóta því inn að á þessum tíma var fátt annað til gamla Buggles-ið sem var undanfari þess aragrúa af tegundum og óteljandi afbrigðum kartöflu og maísafurða, kræsilega distileruðum, maukuðum og uppsoðnum sem nútímamaðurinn kallar snakk.

Fljótlega fjölgaði í húsinu og þegar leið á kvöldið ríkti gleðin og glaumurinn með frekar lítt beisluðu og nánast alveg óheftu sniði. Ég sá t.d. á eftir strák og stelpu sem núna eru virðulegri en orð fá lýst og komin á sextugsaldurinn, inn á þröngt og illa lyktandi klósettið sem var á stærð við meðalstóran Ikeaskáp af ódýrari gerðinni. Þau komu svo þaðan út skömmu síðar með rjóð í kinnum og það breiðasta bros sem ég hef nokkru sinni séð.

Rétt er að geta þess að húsbóndinn á bænum hafði um árabil verið þekktur brennivínsberserkur og mönnum ekki með öllu grunlaust um að það hegðunarmynstur sem hann var hvað frægastur fyrir væri engan vegin fyrir bý, þrátt fyrir að frægðarsól hans á því sviði hefði dvínað lítillega allra síðustu misserin. Hann hafði nefnilega alltaf átt það til að láta hendur skipta ef orða var vant sem gerðist alloft, því hann var engan vegin þekktur fyrir að vera neitt sérlega orðheppinn eða mælskur. Þess vegna notaði hann hendurnar og hnefana kannski oftar en góðu hófi gegndi en höfuðið að sama skapi minna.

Það kom líklega fáum viðstöddum á óvart að þetta kvöld endaði einmitt þannig, og sérstaklega þó vegna þess hve ótæpilega var tekið við veitingunum þar sem húsráðandinn gekk á undan með "góðu" fordæmi. Þegar nokkuð var liðið á nóttina varð parinu sundurorða sem sem lá í loftinu að myndi gerast, og ágreiningsmálið var leyst með hæfilegum barsmíðum. Þegar ég kom að lá hún í gólfinu svolítið vönkuð vegna "tiltalsins" sem hún hafði fengið ásamt áfengisáhrifunum, en hann hafði skroppið inn í stofu til að fylla á glasið sem var orðið tómt rétt einu sinni enn. Ég ásamt öðrum gesti sem þarna var staddur togaði húsfreyjuna á fætur og kom henni út úr húsinu, og síðan í veg fyrir bíl sem ók hjá og fékk far fyrir okkur bæði niður í bæ. Ég reyndi að ná sambandi við hana en þar sem hún var frekar rænulítil, (reyndar var hún alveg pissfull) fékk ég litlar eða öllu heldur engar upplýsingar um hvað hafði gengið á eða hvað hún vildi gera í sínum málum. Ég fór því með hana heim til mín, kom henni fyrir uppi í rúmi, breiddi yfir hana og slökkti ljósið. (Það skal tekið skýrt fram að ég svaf ekki í sama herbergi.)

Morguninn eftir þegar ég vaknaði var hún horfin.

Síðar hinn sama dag frétti ég að mín væri ákaft leitað af nýorðnum eiginmanni hennar sem ætlaði að drepa mig og það strax. Því þrátt fyrir að þau hafi haldið því fram að ekkert sérstakt hafi staðið til umrætt kvöld, giftu þau hjú sig engu að síður með leynd þá um daginn, en ég hafði síðan orðið þess valdandi að brúðguminn hafði sofið einn á sjálfa brúðkaupsnóttina.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 402
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481119
Samtals gestir: 53319
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 11:40:44
clockhere

Tenglar

Eldra efni